Fara í efni

VIÐTALIÐ: Tómas Guðbjartsson - Ferðalag um kransæðarnar

Lestu skemmtilegt og í senn fróðlegt viðtal við Tómas Guðbjartsson Hjarta –og lungnaskurðlækni og prófessor við læknadeild HÍ.
VIÐTALIÐ: Tómas Guðbjartsson - Ferðalag um kransæðarnar

Lestu skemmtilegt og í senn fróðlegt viðtal við Tómas Guðbjartsson Hjarta –og lungnaskurðlækni og prófessor við læknadeild HÍ.

 

Fullt nafn: 

Tómas Guðbjartsson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ertu?

Ég er 51 árs gamall og fæddur í Reykjavík, enda þótt ég eigi ættir að rekja til Vestfjarða í föðurlegg. Ég lauk stúdentprófi við MR og hóf síðan beint nám við læknadeild HÍ hvaðan ég útkrifaðist 6 árum síðar. Lauk svo kandidatsprófi og hóf nám hér heima í skurðlækningum við Landspítala. Hélt síðan til Helsingjaborgar í Svíþjóð þar sem ég hlaut sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum og nokkrum árum síðar í hjarta- og lungnaskurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Lundi. Þaðan hélt ég sem sérfræðingur á Brigham Womens Harvard sjúkrahúsið í Boston þar sem ég menntaði mig frekar í hjartaaðgerðum á fullorðnum. Ég sneri svo aftur til Svíþjóðar og fékk þar stöðu aðstoðaryfirlæknis uns ég flutti heim til Íslands 2005 til að starfa við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. Þremur árum síðar fékk ég prófessorsstöðu við læknadeild HÍ í skurðlækningum sem ég sinni enn ásamt klínískum störfum.

Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson 

Ég framkvæmi bæði hjartaaðgerðir og aðgerðir á lungum, t.d. við lungnakrabbameini. Sem prófessor er ég einnig mikið að sinna kennslu og rannsóknum, bæði læknanemum og unglæknum, sem mér þykri mjög gefandi. Ég hef gefið út 2 bækur, nokkra bókarkafla og hátt í 200 vísindagreinar í erlend og innlend vísindarit. Ég er formaður norrænna samtaka hjarta- og lungnaskurðlækna og á sæti í nokkrum nefndum á vegum Evrópsku hjarta- og lungnaskurðlæknasamtakanna (EACTS). Ég sit einnig í ritstjórn Læknablaðins og Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Starfa sem sérfræðingu á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og er prófessor við Lækandeild HÍ.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég á mér fjölmörg áhugamál en þar eru íþróttir og útvist efst á blaði en síðan kemur tónlist. Ég var í fótbolta og körfubolta sem strákur en lagði fyrir mig skvass í háskóla sem ég hef haldið tryggð við síðan. Æfði og keppti í skvassi í Svíþjóð og var um tíma í íslenska landsliðinu í skvassi. Ég er jafnframt formaður Skvassnefndar ÍSÍ. Ég reyni að hreyfa mig 5-6 sinnum í viku, oftast með sundi, hlaupum eða skvassi, nema ef fjallganga eða gönguskíði eru á dagskrá. Útivist og fjallgöngur eru ekki síður stórt áhugamál og hafa verið lengi. Ég lauk leiðsöguprófi meðfram læknanámi og starfaði lengi sem fjallaleiðsögumaður með erlenda ferðamenn á hálendinu. Ég hef ferðast um nánast allt landið og klifið flesta af hæstu toppum landsins, suma mörgum sinnum. Er forsprakki FÍFL, Félags íslenskra fjallalækna, og sit í stjórn Ferðafélags Íslands. Á einnig sæti í stjórn Vina Vatnajökuls. Fjallaskíði hafa heltekið mig síðustu árin og ég hef átt þess kost að skíða niður ófáa tinda bæði hér á landi, og í Ölpunum og einnig í Colorado. Ásamt fleiri meðlimum FÍFL hef ég skipulagt háfjallafyrirlestra með heimsfrægum fjallaköppum og tekið þátt í að fræða almenning um fjallgöngur en líka háfjallaveiki og aðra sjúkdóma á fjöllum. Loks er tónlist mjög stórt áhugamál. Spilaði á fiðlu sem unglingur en sá fljótlega að ég hafði ekki hæfileikana til að verða atvinnutónlistarmaður. Hef breiðan tónlistarsmekk, eða allt frá poppi yfir í Wagner-óperur, enda þótt djasshjartað slái ávallt sterkt, en rapp rótar sennilega síst upp í hjarta mínu.

Hver var helsta kveikjan að Kransæðabókinni og hvernig völduð þið Guðmundur Þorgeirsson  með höfunda ykkar og samstarfsmenn?

Átta af höfundum höfðu skrifað saman 2 yfirlitsgreinar um kransæðasjúkdóm í Læknablaðið fyrir tveimur árum síðan. Ég var forsprakki þeirrar vinnu og þessi samvinna gekk frábærlega. Mig langaði til að víkka þetta verkefni eins og ég hafði gert með Steini Jónssyni prófessor og lungnalækni þegar við skrifuðum bók um lungnakrabbamein sem kom út fyrir nokkrum árum. Ég fékk Guðmund Þorgeirsson vin minn og prófessorskollega í lið með mér og settumst við niður og fórum yfir hugsanleg nöfn. Allir sem við höfum samband við tóku okkur vel og þáðu boð okkar. Víð vildum reyna að hafa þennan hóp 30 höfunda sem breiðastan og reyndum að hafa sem flesta unga sérfræðinga sem búa yfir nýjustu þekkingu, en líka konur. Þetta tókst og flestir starfa hér heima á Landsptíala en sumir eru erlendis við störf.

Hvernig hafið þið komið bókinn á framfæri og hvernig hafa viðtökurnar verið?

 

Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Við Guðmundur gefum bókina út sjalfir en fengum myndarlega styrki frá Actavis og Veritas, án nokkurra skilyrða frá þeim um efnistök Einnig fengum við styrk frá Hjartasjúkdómafélagi Íslands og síðan hafa eiginlega allir þeir sem komu að verkefninu eins og teiknarar, ljósmyndarar, Hvíta húsið, Ísafoldarprentsmiðja, Hagkaup, Bónus og Lyfjaver, reynst okkur vel og gert þetta stóra verkefni mögulegt. Hvíta húsið á heiðurinn af markaðssetningunni og líka Guðný Helga Herbertsdóttir forstöðumaður samskiptadeildar Landspítala. Við höfum bæði keypt auglýsingar en þó aðallega haldið okkur við netmiðla og kynningu í fjölmiðlum. Viðtökur hafa verið fram úr björtustu vonum. Hagkaup og Bónus buðust til að selja bókina fyrir okkur, bæði í búðum sínum en einnig á netinu. Bókin er einnig fáanleg á netinu eða hægt að nálgast hana í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut eða á Landpítala (gunnhild@landspitali.is). Hún kostar 5.900 krónur og starfsfólk Landspítala fær afslátt. Ef einhver afgangur verður af útgáfunni mun hann renna beint í rannsóknarsjóð á kransæðasjúkómi sem er í vörslu Landspítala.

Stefnið þið á fleiri slíkar bækur og er kannski bók um nýrun og lifrina næst á dagskrá?

Það er aldrei að vita. Ég hef þegar gefið út bók um lungnakrabbamein (sjá www.lungnakrabbamein.is) og það væri gaman að uppfæra hana. Sú bók var mikil vinna en Kransæðabókin er nokkrum númerum stærri í vinnu og kostnaði. Það væri gaman að gera fleiri bækur en eftir svona törn verður maður að pústa aðeins. Þetta er vinna sem bætist við þunga klíníska vinnu og vaktir og enginn höfundanna 30 fékk greitt fyrir. Það þarf því lægni að sigla svona skútu í mark, en það tókst ótrúlega vel að virkja þennan öfluga hóp. Sennilega væri næsta skref að skrifa styttri útgáfu sem væri eins konar sjúklingabæklingur, líkt og við gerðum í lungnakrabbameinshópnum og var þakklátt framtak. Þann bækling fá allir sjúklingar sem greinast með lungnakrabbamein á Íslandi, og nánustu ættingjar þeirra. Viðtökurnar hafa verið frábærar og við þýtt bæklinginn á bæði ensku og pólsku.

Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Telur þú að heilsa Íslendinga sé að verða betri en áður?

Að sumu leyti já, en að öðru leyti ekki. Það er engin spurning að Íslendingar eru betur upplýstir um heilsu sína og hvernig hægt er að stuðla að heilbrigðum lífsstíl. Þetta bendum við á í bókinni, en frá 1961 hefur dánartíðni kransæðastíflu lækkað um 81% á Íslandi, sem er gríðarlega ánægjulegur árangur. Þetta má þakka minni reykingum, betri meðferð hækkaðs blóðþrýstings og hækkaðrar blóðfitu, en einnig betra mataræðis en líka vegna lyfjameðferðar. Þriðjungur af bættum árangri má svo skýra með framförum í meðferð, t.d. í kransæðavíkkunum og skurðaðgerðum.

Stóra vandamálið nú er hins vegar vaxandi offita. Hún er sjálfstæður áhættuþáttur kransæðasjúkdóms en tengist einnig öðrum áhættuþáttum sjúkdómsins eins og hreyfingarleysi og sérstaklega sykursýki af gerð 2.

Krakkar á Íslandi eru því miður á meðal þeirra feitustu í Evrópu og við verðum að sporna við þessari þróun ef við ætlum ekki að missa niður þennan frábæra árangur okkar hingð til. Þetta er mér mikið hjartans mál og er eitt af helstu viðfangsefnum Kransæðabókarinnar að benda á hvert getur stefnt ef við bregðust ekki við. Af hverju er sykur t.d. svona ódýr á Íslandi en grænmeti og önnur holl matvara dýr? Gosdrykkir og nammi er tiltölulega ódýrt hér í samanburði við önnur matvæli. Ég veit að það er umdeilt og pólistísk ákvörun en ég er hlynntur sykurskatti, ekki ósvipað og við höfum gert með sígarettur og öllum þykir sjálfsagt í dag.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Mjólk, skyrdollu og gráðaost.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Fiskur er uppáhaldsmaturinn minn, sérstakleg þorskhnakki sem eldaður er á portúgalska eða baskneska vísu. Uppáhaldsstaðurinn minn er Alto Bistro í Norræna húsinu en margir aðrir staðir koma líka til greina.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Ég er alltaf að lesa eitthvað, en því miður er ég of oft að lesa eitthvað sem tengist vinnuni eða rannsóknum mínum. En ég er að glugga í frábæra bók eftir Arngunni Árnadóttur sem heitir Að heiman og kemur út fyrir jólin. Mikið talent þar á ferð en hún er líka fantaflottur klarinettleikari. Besta bók sem ég hef lesið er sennilega Sjálfstætt fólk eftir Laxness.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Konan mín segir oft að ég sé ekki nógu góður við sjálfan mig og sé of harður húsbóndi við eigin líkama. En ætli það sé ekki að fara á skemmtilega tónleika, og borða góðan mat með vinum mínum og fjölskyldu.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

 

Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Ég er alls ekki verkkvíðinn, og mætti eflaust oftar segja nei við verkefnum. En þetta er líka einn af mínum styrkleikum, þ.e henda mér í verkefnin og vera lausnamiðaður. Ég á gott með að einbeita mér og klára verkefni. En ég veit að ég get stundum ætlast til of mikils af fólki en þó held ég á kurteisan hátt.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Þetta er erfið spurning en ætli ég standi ekki enn við skurðarborðið með verkfæri á lofti, og sé að bögga læknnema og unglækna með að klára  rannsóknarverekfnin þeirra. Verð áfram á fjöllum og í íþróttum inn á milli, þess sem ég sæki tónleika í gríð og erg. Hárin verða eitthvað færri en kílóin þau sömu. Ég ætla mér nefnilega að verða hreyfanlegt gamalmenni – þ.e halda áfram að vera pínu ofvirkur, a.m.k. ef ég fæ einhverju ráðið um það. Síðan ætla ég mér að njóta þessa að vera afi og ferðast, mest gangandi með tjald á baki.