Fara í efni

Viðtalið - Hildur A. Ármannsdóttir

Viðtalið - Hildur A. Ármannsdóttir

Hildur Ármanns er starfandi ljósmóðir hjá Björkinni og ætlum við að kynnast henni aðeins betur. Ljósmæðurnar Hjá Björkinni skrifa hér inn reglulega pistla um allt sem viðkemur fæðingu og því sem á undan og eftir kemur. Fróðlegt og gott efni sem við mælum eindregið með.

 

 

 

 

 

 

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér
Ég heiti Hildur A. Ármannsdóttir 42 ára hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi. Hafnfirðingur í húð og hár og hef búið þar nánast alla ævi. Ég er gift Baldri Óla Sigurðsyni og á með honum 3 börn og einn stjúpson. Daníel Freyr 19 ára, Brynhildi Kötlu 15 ára, Hrafnhildi Irmu 11 ára og Ármann Steinar 9 ára. Svo eigum við kisuna Lottu sem er 2 ára. Ég er mikli fjölskyldumanneskja og finnst ekkert skemmtilegra en samvera með fjölskyldu og vinum.

Við hvað starfar þú í  dag? 
Ég starfa sem ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi hjá Björkinni. Er búin að vinna þar núna í rúmlega eitt ár. Starfaði þar á undan á LSH, í heimaþjónustu og á Leitarstöðinni við leghálsskimanir. Mér finnst ég aftur komin heim en ég tók þátt í að stofna Björkina fyrir 12 árum. En nú er ég í öllu fæðingaferlinu en ætla að fara færa mig yfir í að sinna konum í heimaþjónustu og brjóstagjafaráðgjöf eingöngu þar sem þörfin er mikil í því. Annars finnst mér ekkert skemmtilegra en að fylgjast með og aðstoða fjölskyldur að kynnast nýja einstaklingnum og koma brjóstagjöfinni vel af stað.

Hildur

Hver er þín helsta hreyfing? 
Ég er mjög dugleg að hreyfa mig og set hreyfingu í forgang og reyni að hreyfa mig daglega til að halda mér í góðu formi andlega og líkamlega. Á veturna fer ég 2x í viku í hópþjálfun til Thelmu minnar í Hress og reyni svo að mæta aukalega 1-2 í viku í heita tíma . Á sumrin reyni ég að vera sem mest úti að hreyfa mig. Ég elska að fara út að labba og sérstaklega einhverstaðar í fallegri náttúru í kringum vötn eða upp á fjöll. Einnig er ég nýbúin að smitast af golfbakteríunni og finnst æðislegt að fara með fjölskyldu og vinum út á golfvöll. Nú er ég að reyna bæta inn í prógrammið yoga 1 x viku sem er svo gott fyrir sál og líkama. En ég þarf líka að æfa mig að slaka aðeins á.

Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað? 
Já ég myndi segja að ég sé dugleg að ferðast og vil helst alltaf hafa eitthvað ferðalag á döfinni. Við fjölskyldan erum dugleg að ferðast allan ársins hring . Hvort sem það er að fara í bústað og hlaða batteríin eða vera í fellihýsinu okkar á sumrin. Ég myndi segja að uppáhalds staðurinn minn séu Strandirnar þar sem ég á ættir mínar að rekja og við höfum aðgang að ættaróðali sem er staðsett í Steingrímsfirði. Ég reyni að fara alltaf þangað a.m.k einu sinni á ári. Annars elska ég að ferðast erlendis og finnst mér ekkert meira næs en að fara til Spánar í hitann og slaka á. Svo finnst mér líka æðislegt að fara í borgarferðir og kynnast nýrri menningu og slaka á og njóta.

Hildur

Hver er þinn uppáhalds matur? 
Ég er mikil matkona og finnst mjög gott og gaman að borða fallegan og góðan mat. Ég er mikil forrétta kona og elska hvítlauksristaðar risarækjur og nautacarpaccio

Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Góða olíu

Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Já Fiskfélagið ekki spurning. Allt gott sem er á matseðlinum þar.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Já ég er alltaf með bók á náttborðinu sem ég er reyndar misdugleg að lesa. Annars eru hljóðbækur að taka mikið yfir. Ég er mikið á ferðinni og finnst dásamlegt að hlusta í bílnum eða þegar ég fer ein í göngu. Núna var ég að klára að lesa Menntuð eftir Töru Westover og er að hlusta á Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttir. Báðar alveg frábærar bækur. Á erfitt með að nefna einhverja eina uppáhalsd bók og les eiginlega aldrei sömu bókina tvisvar sinnum en Næturgalinn eftir Kristinu Hannah fannst mér alveg mögnuð og þreytist ekki á að segja fólki að lesa hana.

Hildur

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana? 
Einhvern vegin virðast podköst um heilsu og sérstaklega heilsu kvenna eiga hug mitt og hjarta. Breytingarskeið kvenna finnst mér sérstaklega áhugavert þessa dagana og drekk í mig allan fróðleik um það 😊. Annars er ég svolítil alæta á tónlist og hlusta mest bara á það sem hljómar í útvarpinu hverju sinni.

Hver eru áhugamálin þín?
Ég nærist svolítið á að hafa nóg að gera og mín helstu áhugamál eru ferðalög, útivist, hreyfing og samvera með vinum og fjölskyldu. Golfið er komið mjög sterkt inn, það semeinar einhvern vegin alla þessa þætti. Svo finnst mér gaman að fara á skíði, í leikhús og á tónleika og ég verð að segja að Bæjarbíó í Hafnarfirði er uppáhalds tónleikastaðurinn minn þar sem það skapast einhvern vegin svo geggjuð stemming þar.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 
Fer í eitthvað dekur, nudd eða snyrtingu og fæ mér eitthvað gott að borða á veitingastað. Annars finnst mér mest notalegt að stinga af eina nótt og fara á hótel með manninum mínum.

Hvað segir þú við sjálfann þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Ég get þetta. Þetta er ekkert mál

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár? 
Þá er ég orðið 47 ára. Er það ekki alveg geggjaður aldur? Börnin orðin sjálfstæðari og ég get farið að snúast meira í kringum sjálfan mig. Ég sé mig enn hamingjusamari og komin með betri tök á vinnu og fjölskyldulífinu. Mitt motto er að fara vinna minna og njóta meira 😊