Fara í efni

Viðtalið - Díana Ósk

Viðtalið - Díana Ósk

Nú ætlum við að kynnast henni Díönu Ósk en hún ætlar að senda okkur pistla annað slagið til að birta á síðuna okkar. Eins og sjá má hér fyrir neðan æfir Díana víkingaþrek, hlustar á þungarokk og starfar sem sjúkrahúsprestur.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Ég heiti Díana Ósk Óskarsdóttir og er fædd á Ísafirði og bjó þar mína fyrstu mánuði. Svo fluttist ég til Siglufjarðar og þó ég hafi flakkað á milli Siglufjarðar og Reykjavíkur mín fyrstu grunnskólaár áður en ég fluttist alveg til Reykjavíkur, þá er ég Siglfirðingur. Ég á yndislegan mann sem er minn besti vinur og saman eigum við fimm börn og fjögur barnabörn, það fimmta er á leiðinni. Allt er þetta duglegt fólk svo það getur verið flókið að finna stundir þar sem við náum öll saman en við hjónin vorum alltaf með matarboð fyrir allan hópinn einu sinni í mánuði fyrir Covid19. Þá urðum við að fara í ákveðna búbblur og nú bíðum við færis að fara af stað með þessar fjölskyldustundir aftur.

Við hvað starfar þú í dag? 
Ég starfa á Landspítala sem sjúkrahúsprestur og faglegur handleiðari og er stundakennari við Háskóla Íslands. Þar að auki sé ég sé um Netkirkju með manninum mínum (sjá www.netkirkja.is). Við höfum einnig rekið saman stofu sem kallast ÉgEr.

Hver er þín helsta hreyfing? 
Ég stunda víkingaþrek hjá Mjölni og elska að fara í góða göngutúra.

Díana Ósk

Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað? 
Ég hef verið nokkuð dugleg að ferðast og verð að segja að bæði Edinborg og Þrándheimur eru í uppáhaldi þó Arizona eigi sér sérstakan stað í hjarta mér. Ég er líka dugleg að fara norður og þá helst til Siglufjarðar, þó ekki væri nema bara til að skreppa örstutt í Hvanneyraskálina.

Hver er þinn uppáhalds matur? 
Kjöt í karrý – Lamb með karrýsósu og kartöflum hefur verið mitt uppáhald en líklega er vel hæg eldaður hryggur að skjótast framyfir hvað varðar uppáhalds mat þessar stundirnar.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Season all

Dína Ósk

Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Já, en flokkaðist það ekki sem auglýsing ef ég segði frá því hér? Nú í þó nokkuð mörg ár hefur mér þótt best að fara og fá mér indverskan á Hverfisgötunni, þar sem ég get fengið gott kókos-nan með matnum.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég er alltaf að lesa eitthvað þó ég hafi aðallega lesið fræðibækur undanfarin ár. Þessa dagana hef ég verið að grípa í bókina Handleiðsla til eflingar í starfi. Lengi vel hefði ég nefnt Biblíuna, AA bókina eða Litla tré sem mína uppáhaldsbók en eins og er held ég mest upp á ljóðabókina arsenik eftir Amöndu Líf Fritzdóttur og svo hafði ég einstaklega gaman af krimmanum Hjálp eftir Fritz Má Jörgensson.

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana? 
Ég hlusta á þungarokk (oft gamalt) og léttara rokk eins og Linkin park, Live og slík bönd, annars hlusta ég á flesta tónlist nema kannski jazz og óperu. Ég hef enn ekki hlustað á eitt einasta podcast, á það inni.

Hver eru áhugamálin þín?
Manneskjan og þá helst drifkraftur hennar og bjargráð, samskipti í allri mynd, trúmál og andleg mál (kjarni málsins), útivera og ýmis ævintýri.

Dína Ósk

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 
Á skipulagslausan dag. Þar sem ekkert er ákveðið fyrirfram og ég geri nákvæmlega það sem mér dettur í hug til að gleðja mig, næra mig, hvíla mig eða byggja mig upp.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Díana, þú ert ekki ein. Þú ert í hendi Guðs. Allt fer eins og það á að fara.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár? 
Með fleiri barnabörn í kringum mig og í líkamlega betra formi.