Við birtum eingöngu upplýsingar sem fylgja lýðheilsusjónarmiðum og styðjumst við háskólasamfélagið þannig að þarna eru engar skyndilausnir og eingöngu öfgalausar fréttir og upplýsingar,“ segir Tómas Hilmar Ragnarz sem er búinn að reka heilsuvefinn Heilsutorg.isí tíu ár ásamt íþróttanæringarfræðingnum, næringarráðgjafanum, hlauparanum og ritstjóranum Fríðu Rún Þórðardóttur.

„Fríða er búin að vera ritstjóri vefsins öll þessi ár, hefur byggt á bæði yfirgripsmikilli þekkingu sinni og reynslu sem næringarfræðingur og afreksíþróttakona í hlaupi og er að miðla efni sem virkilega gagnast fólki,“ heldur Tómas áfram.

„Þetta er fjölsóttasti vefur landsins í heilsu og lífsstíl sem í það minnsta 6.000 manns fara inn á daglega og fylgjendum á samfélagsmiðlum fer stöðugt fjölgandi en þeir eru nú um 25.000.“

Bók breyttist í vef

Fríða Rún segir að hugmyndin að vefnum hafi í raun sprottið upp úr bók sem hún ætlaði sér að skrifa með vinkonu sinni fyrir löngu síðan. „Bókin átti að heita árið um kring og við ætluðum að árstíðaskipta henni með uppskriftum, tillögum að hreyfingu og flétta náttúruna svolítið saman við þetta og vera með alls konar skemmtilegt um næringu og fleira.“

Fríða Rún segir að sér hafi fundist þetta ofboðslega falleg hugmynd en niðurstaðan hafi á endanum orðið sú að vefur hentaði víðfeðmum viðfangsefnum hennar betur.

„Bækur ganga náttúrlega úr sér en þarna geturðu uppfært, lagað og endurbirt þegar við á,“ segir Fríða Rún og bendir á þann augljósa kost að með tíð og tíma verði vefur sem þessi að heilmiklum gagnagrunni.

Þannig birti hún stundum greinar sem hún er fengin til þess að skrifa fyrir aðra miðla og nefnir í því sambandi SÍBS-blaðið og Tímarit Astma- og ofnæmisfélags Íslands. „Þá er maður líka að halda efninu sínu lifandi og getur haldið utan um alls konar hluti sem maður hefur sankað að sér.“ Bendir Fríða Rún á að þau fái sérfræðinga á ýmsum sviðum til að skrifa greinar fyrir Heilsutorg sem einnig safnast í þennan sarp.

Fríða og Tómas eru búin að vera réttu megin við núllið með Heilsutorg.is en elta samt engar tískusveiflur.
Fréttablaðið/Samsett

Horft til landlæknis

„Síðan er auðvitað mikilvægt að vera með eins nýlegar upplýsingar og mögulegt er þannig að við þurfum að fylgjast vel með því hvað er í gangi og horfum þá til Embættis landlæknis og höfum það sem þau eru að ráðleggja hverju sinni svolítið að leiðarljósi.

Fólk er að prófa alls konar hluti og oft fer einhver vitleysa í gang og þá þarf að reyna að vinda svolítið ofan af því. Það skiptir líka miklu máli og þá er svo mikilvægt að styðjast við nýjustu upplýsingar,“ segir Fríða Rún og bendir á að vitaskuld sé margt að varast.

Engar skyndilausnir

„Við erum stærst á þessum markaði og viljum vera leiðandi og stílum bara inn á hágæða upplýsingar í alla staði en að sjálfsögðu erum við með léttmeti og góðar ráðleggingar í bland,“ segir Tómas og bætir við að þetta eigi jafnt við efni sem auglýsingar.

„Allt efnið er lýðheilsutengt þannig að við birtum ekki efni, auglýsingar eða kynnum vörur sem eru eitthvert húmbúkk. Vefurinn hefur verið rekinn réttum megin við núllið í öll þessi ár og er sjálfstæður miðill og engum háður.

Við höfum ekki tekið þátt í neinum tískubylgjum í fæðubótarefnum og þess háttar og leitumst alltaf við að miðla efni sem gagnast fólki og erum ekki í skyndilausnum. Bara heilbrigt efni úr öllum áttum.“