Fara í efni

VIÐTALIÐ: Heilsutorg fékk Guðmund Löve framkvæmdarstjóra SÍBS í fróðlegt og skemmtilegt viðtal

SÍBS verður 80 ára á næsta ári en á síðastliðnum árum hafa samtökin orðið æ meira áberandi í að hvetja almenning til að huga að heilsunni með því að hreyfa sig, borða hollt og sinna andlegu hliðinni.
VIÐTALIÐ: Heilsutorg fékk Guðmund Löve framkvæmdarstjóra SÍBS í fróðlegt og skemmtilegt viðtal

SÍBS verður 80 ára á næsta ári en á síðastliðnum árum hafa samtökin orðið æ meira áberandi í að hvetja almenning til að huga að heilsunni með því að hreyfa sig, borða hollt og sinna andlegu hliðinni.

Gönguáskoranir SÍBS vor og haust hafa notið mikilla vinsælda, en á hverju fara 1-2 þúsund manns út að ganga með SÍBS og Einari Skúlasyni hjá gönguklúbbnum Veseni og vergangi, sem leiðir göngurnar. Er hér á ferðinni kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig eða eru að koma sér í gang eftir hlé.

Ekki má heldur gleyma SÍBS Líf og heilsa, sem er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga og Samtök sykursjúkra bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög um allt land. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðis.

Nýjasta verkefnið er mótun stuðningsnets fyrir sjúklinga og aðstandendur sem SÍBS hefur haft forgöngu um, og hafa fjölmörg önnur sjúklingafélög gengið til liðs við verkefnið enda þörfin brýn fyrir jafningjastuðning utan hins formlega heilbrigðiskerfis. Í byrjun árs 2018 stendur til að stofna formlega félagið Stuðningsnet sjúklingafélaganna um þessi málefni, þar sem faglegt ferli við menntun stuðningsfulltrúa, pörun við skjólstæðinga ásamt endurgjöf og símenntun verður í hávegum haft.

SÍBS gefur einnig út vandað blað og heldur úti greinasafni á netinu þar sem fagfólk á hverju sviði skrifar um heilsutengd málefni líðandi stundar, en margar greinanna hafa einnig birst á Heilsutorgi.

Síðast en ekki síst ber auðvitað að nefna að SÍBS á og rekur endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og öryrkjavinnustaðinn Múlalund, auk Happdrættis SÍBS.

Fullt nafn:

Guðmundur Löve

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú?

Ég er fæddur árið 1967 í Reykjavík og hef búið þar lengst af ef frá eru talin tvö ár erlendis sem barn, námsárin í Osló og allmörg ár sem ég starfaði í Kaupmannahöfn og London.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er menntaður viðskiptafræðingur og rekstrarhagfræðingur og vann lengst af sem stjórnandi hjá hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum í tæknigeiranum, bæði á Íslandi, Danmörku og í Bretlandi. Eftir fimmtán ár í tæknigeiranum hringdi síminn þar sem ég sat á skrifstofunni minni í London og mér var bent á að verið væri að auglýsa starf framkvæmdastjóra SÍBS. Ég ákvað að sækja um og við tók hefðbundið ferli hjá ráðningafyrirtækinu. Þetta var árið 2011 og hér sit ég nú og hef ekki séð eftir því eina mínútu að hafa söðlað svona gjörsamlega um – það er hreinlega engu líkt að fá að vinna við svona mannvæna og uppbyggilega starfsemi.

Hvernig er dæmigerður vinnudagur á SÍBS skrifstofunni og hverjir eru nánustu samstarfsaðilar þínir?

Starfið felur í sér framkvæmdastjórn rekstrareininga og náið samstarf við stjórn um stefnumótun. Umsvif SÍBS eru býsna mikil og nóg að gera við að halda vélinni vel smurðri, en svo er auðvitað jafn mikilvægt að standa í brúnni og vita hvert maður er að fara, svo maður noti nú líkingamál. Auk stjórnar SÍBS starfa ég með framkvæmdastjórum rekstrareininga SÍBS á Reykjalundi og Múlalundi og svo auðvitað formönnum og stjórnum aðildarfélaga SÍBS, en þau eru sex talsins.

Hvar má afla sér upplýsinga um næstu námskeið og heilsutengda viðburði sem SÍBS og samstarfsaðilar standa fyrir s.s. SÍBS Líf og heilsa og Stuðningsnetið, og er öllum velkomið að taka þátt?

Við auglýsum alla viðburði á Facebook og á vefsíðunni okkar og sibs.is. Skráning á námskeið á sér stað á vefnum, bæði hin sívinsælu Reykjalundarnámskeið SÍBS og önnur námskeið. Engin skráning er nauðsynleg í gönguáskoranirnar, heldur bara að fylgjast með á Facebook og mæta í næstu göngu. Mælingaferðir SÍBS Líf og heilsa eru svo auglýstar sérstaklega á þeim stöðum sem við heimsækjum hverju sinni, bæði með dreifiriti í hvert hús, á samfélagsmiðlum og á staðarmiðlum.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan að hlaupa og upplifa náttúru Íslands?

Það væri þá helst að hlaupa í náttúru Íslands! En grínlaust, náttúruhlaup eru í mínum huga eitt það magnaðasta sem hægt er að hugsa sér. En svo hef ég gríðarlegan áhuga á heilbrigði og lýðheilsu almennt og fylgist vel með í þeim fræðum, einkum með tilliti til áhættuþátta heilbrigðis.

Bakgrunnur í íþróttum?

Hann er enginn. Ég tók hins vegar eftir því þegar ég fór að nálgast fertugt að líkaminn var hættur að sjá alfarið um sig sjálfur eins og hann var vanur. Þá tók við leit að einhverju sporti sem mér líkaði og fljótlega datt ég niður á hlaup. Með blóðbragð í munninum hljóp ég rúman kílómetra eftir göngustígnum meðfram Ægisíðu og út í Skeljanes. Síðan þá hef ég farið meira en tuttugu maraþon og ofurmaraþon auk fjölda styttri keppnishlaupa og æfingamagnið er kringum 3000 kílómetrar á ári. Svo komst ég í nýjan aldursflokk árið 2017 og náði þá að hlaupa á 3:17 í Parísarmaraþoninu um vorið, svo nú er ég kominn með viðmið í aldursflokknum fimmtíu plús – enda á maður ekkert að vera að horfa á tíma úr yngri aldursflokkum!

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Nýmjólk, smjör og lýsi.

Hver er þinn uppáhalds matur / matsölustaður?

Uppáhaldsveitingastaðirnir í Reykjavík eru Austur-Indíafélagið við Hverfisgötu, veitingahúsið Garðurinn á Klapparstíg og Aalto Bistro í Norræna húsinu. Garðurinn er með líkamlega og andlega nærandi grænmetisfæði og ég mæli eindregið með vegan-dögurðinum á Aalto. Logandi sterkir kjúklinga- og lambaréttir á Austur-Indía með nýbökuðu naan-brauði eru svo algjört uppáhald en meira spari.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Mér eru sérstaklega ofarlega í huga þrír ansi miklir doðrantar og má vart á milli sjá hver þeirra mér finnst merkilegastur. Thinking, fast and slow eftir sálfræðinginn og nóbelsverðlaunahafa í hagfræði Daniel Kahneman er ein af fáum bókum sem ég hef lesið þrisvar, nú síðast fyrir tæpu ári. Þetta er geysilega merkileg bók um eitt af áhugasviðum mínum, sem er atferlishagfræði (behavioural economics) og lýsir því hvernig við hegðum okkur í raun og veru alls ekki rökrétt. Hinar bækurnar eru Sapiens: A Brief History of Humankind og Homo Deus, a Brief History of Tomorrow eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari. Þetta eru algjör grundvallarrit í að skila uppruna okkar, sögu, menningu og vegferð til framtíðar. Loks verð ég að viðurkenna að ég hef svo mikinn áhuga á heilbrigði og lýðheilsu að ég les vísindagreinar um þessi málefni daglega.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Það fer eftir því hversu vel! Best þykir mér að fara til útlanda þar sem bæði er hægt að komast í sól, sjó og náttúru, og svo auðvitað út að hlaupa. Öllu hversdagslegra en alltaf jafn notalegt er að kaupa sér bara nautafile marinerað í truffluolíu í Kjöti og fiski í Bergstaðastrætinu og elda heima. Annars er ég til í allt þar á milli!

Hvað segir þú við sjálfan þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég minni sjálfan mig á að það er ekkert til sem heitir stórt verkefni, heldur eru þetta allt bara litlir áfangar sem þarf að raða vandlega upp og vinna í réttri röð. Ekkert verkefni er of stórt til að skipuleggja sig svona, en það er lykilatriði að gefa sér tíma til þess að sjá heildarmyndina áður en það er vaðið af stað og reyna að haga áfangaskiptingunni þannig að maður loki á sem fæsta möguleika meðan verkinu vindur fram og geti brugðist við breyttum aðstæðum.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Mig langar svo innilega að geta horft um öxl og séð að fræðslu- og forvarnaverkefni SÍBS hafi skilað sér til þjóðarinnar í bættri heilsu. Til þess þarf þó samstillt átak heilbrigðisyfirvalda, heilsugæslunnar og sveitarfélaga. SÍBS er svo sannarlega tilbúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og ég vona að mér lánist að vera með í því.