Fara í efni

Þunglyndi eftir fæðingu

Þunglyndi eftir fæðingu

Við fæðingu barns verður til nýtt líf, foreldrar verða til og ný hlutverk verða til í fjölskyldunni. Þetta er oftast tími gleði, þroska og vaxtar. Það getur verið mjög gefandi og gaman að fá að vera þátttakandi í þessu með fjölskyldum í störfum mínum sem ljósmóðir. Þetta er ekki alltaf auðveldur tími og á þessum mikla umbreytingartíma þurfa foreldrar góðan stuðning, frá fólkinu í sínu, nánasta umhverfi, og oft frá ýmsu fagfólki. Mig langar að þessu sinni að ræða um það þegar foreldrum líður ekki nógu vel eftir fæðingu barnsins síns og fara aðeins yfir það sem við í daglegu tali nefnum fæðingarþunglyndi.

Að eignast barn breytir lífinu. Lífið byrjar að breytast um leið og við hugsum um að eignast barn, reynum að eignast barn eða áttum okkur á því að það er von á barni. Það tekur tíma að venjast tilhugsuninni um að barn sé að koma í heiminn og ég hugsa oft hvað það er gott að meðgangan tekur tíma sem auðveldar foreldrum yfirleitt að undirbúa sig og aðlagast hugmyndinni. Oftast er koma barns í heiminn ánægjuleg breyting á lífinu en hún er alltaf stór og krefst mikils af foreldrunum. Meðgangan getur tekið á, bæði andlega og líkamlega. Það er oftast krefjandi að vera í fæðingu fyrir báða foreldra og einnig að aðlagast tilverunni með nýja barninu. Þó að allt þetta séu yfirleitt jákvæðar breytingar á lífinu og jafnvel eitthvað sem við höfum alltaf óskað okkur getum við líka upplifað það að bogna undan álaginu sem fylgir því að eignast barn. Við getum orðið viðkvæm og meir og fundist við ekki ráða við verkefnið.

Stundin þegar við tökum barnið okkar fyrst í fangið eftir að það kemur í heiminn, er stund sem er mjög mismunandi milli foreldra. Sum fyllast strax mikilli ást á barninu og finna strax að barnið tilheyrir þeim og finna mikla verndunartilfinningu gagnvart því. Önnur finna litlar sem engar tilfinningar og finnst barnið framandi og tengja ekki við það til að byrja með. Fæðingin getur hafa verið erfið og það tekur tíma að jafna sig. Allt getur þetta verið eðlilegt. Við getum orðið ástfangin við fyrstu sín og það getur tekið tíma. Yfirleitt koma jákvæðar tilfinningar smátt og smátt og við finnum að við tengjumst barninu vel og við jöfnum okkur. En stundum gerist það hægt og seint.

Sængurkvennagrátur
Eftir fæðingu barns er ekki óeðlilegt að breytingar verði á andlegri líðan. Það er eðlilegt að upplifa það sem er kallað sængurkvennagrátur. Sængurkvennagrátur lýsir sér m.a. í tilfinningum eins og depurð og kvíða, það getur verið mjög stutt í tárin og erfitt getur verið að einbeita sér og sofa. Algengast er að sængurkvennagrátur komi fram á 2.-3. degi og getur staðið yfir í allt að tvær vikur. Hann kemur yfirleitt fram á sama tíma og mjólk fer að streyma í brjóstin. Á þessum tíma verða miklar hormónabreytingar og þarna fer svefnleysið fyrstu dagana líka að segja til sín. Það verða líka hormónabreytingar hjá mökunum ásamt því að þreyta og svefnleysi eiga þátt í því að maki getur orðið mjög lítill í sér og meir.

Fæðingarþunglyndi
Ef líðan foreldra verður ekki betri eftir fyrstu tvær vikurnar, getur verið ástæða til að skoða hvort um þunglyndi eftir fæðingu sé að ræða en mörkin eru stundum óljós. Einkenni þunglyndis eftir fæðingu eru alvarlegri en sængurkvennagráts og vara lengur. Þau geta komið upp hvenær sem er fyrsta árið eftir fæðingu

Þunglyndi eftir fæðingu felur í sér allskonar einkenni. Þau geta verið mismunandi milli einstaklinga. Sum finna fyrir öllum þessum einkennum og önnur bara fyrir sumum. Einkenni geta verið mismunandi eftir dögum og mis mikil.

Svefntruflanir. Algengt er að svefnin raskist. Oftast felur það í sér svefnleysi en stundum er líka of mikill svefn. Erfitt getur verið að sofna með barninu eða vakna til barnsins.

Oft er stutt í pirring og reiði og það getur verið stuttur í manni þráðurinn. Þetta getur beinst að makanum, barninu og þeim sem standa manni næst.

Þunglyndinu fylgir gjarnan kvíði og áhyggjur sem getur haft í för með sér líkamleg einkenni eins og öran hjartslátt, svita og skjálfta í líkamanum. Þú getur haldið að eitthvað alvaregt ami að líkama þínum.

Það getur verið mjög stutt í tárin og stundum koma mikil grátköst. Þú getur fundið fyrir mikilli sektarkennd og jafnvel haft tilfinningu um að vera vont foreldri og einskis virði. Mikil vanmáttartilfinning getur gert vart við sig.

Erfitt getur verið að koma sér að verki vegna þreytu og orkuleysis. Áhugaleysi getur verið gagnvart barninu og erfiðlega getur reynst að tengjast því. Stundum fylgja óæskilegar hugsanir, að eitthvað komi fyrir barnið eða foreldri getur óttast að skaða barnið sitt. Þessum tilfinningum getur blandast óttinn um að barnið verði tekið af manni þar sem foreldri getur upplifað sig sem vanhæft foreldri.

Það getur verið minni matarlyst eða meiri og foreldrar upplifa að hlutir sem áður veittu gleði og ánægju gera það ekki lengur og foreldrar geta einangrast í vanlíðan sinni. Foreldrar geta einnig upplifað sjálfskaðandi hugsanir og sjálfsvígshugsanir.

Þunglyndi eftir fæðingu er nokkuð algengt, en 10-15% þeirra sem fæða barn upplifa fæðingarþunglyndi. Þunglyndi maka er líka algengt en hefur minna verið rannakað, en hefur mælst hjá allt að 10% maka. Við vitum í dag að þunglyndi eftir fæðingu hefur mikil áhrif á líf fjölskyldunnar og því mjög mikilvægt fyrir samfélagið okkar allt að hlúa vel að foreldrum ungra barna.

Lítið nýfætt barn er algjörlega ósjálfbjarga og þarf að leggja allt sitt traust á foreldra sína. Við þekkjum í dag mikilvægi góðra traustra tengsla barnsins við foreldra sína. Ef foreldrum líður illa geta þau illa myndað traust tengsl við barnið sitt. Barnið speglar sig í foreldrum sínum og ef þeim líður illa, getur það komið niður á barninu. Því skiptir svo miklu máli að hlúa vel að foreldrunum svo allri fjölskyldunni líði vel. Lítið barn þarf ástrík og næm samskipti. Það leggur grunn að þroska barnsins sem vitsmuna-, tilfinninga- og félagsveru að vera í góðum samskiptum við foreldra sína. Ef foreldri þjáist af þunglyndi eftir fæðingu á það erfiðara með að skilja þarfir barnsins og annast það á þann hátt sem það þarfnast og það getur haft áhrif á heilsu barnsins síðar meir.

Áhættuþættir
Allir geta veikst af fæðingarþunglyndi en það er ýmislegt í lífinu okkar sem getur valdið því að okkur sé hættara við að þróa með okkur fæðingarþunglyndi. Hér er stiklað á stóru.

Ef upplifun okkar á fæðingu barnsins er erfið hefur það áhrif á líðan okkar. Ef við eigum sögu um þunglyndi, fæðingarþunglyndi, kvíða eða önnur geðræn vandamál erum við líklegri til að þróa það með okkur. Eins ef maki okkar á sögu um þunglyndi. Okkur er öllum mikilvægt að búa við öryggi og því hafa erfiðar félagslegar aðstæður áhrif. Ef við erum einangruð eða eigum fáa að, ef við eigum í erfiðleikum í parasambandinu, höfum upplifað mikla sorg og ástvinamissi. Allt hefur þetta áhrif á líðan okkar eftir fæðingu. Ef við höfum lent í alvarlegum áföllum eða fósturmissi. Ef við upplifum að við höfum ekki nægan stuðning frá maka eða nánustu fjölskyldu .Einnig getur það haft áhrif ef barnið kom óvænt undir og setur framtíðaráform okkar úr skorðum.

Það er mikilvægt að vita að það er ekki okkur að kenna ef við upplifum fæðingarþunglyndi. Við erum ekki verri foreldrar, og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Foreldrar eiga stundum erfitt með að láta vita þegar þeim líður svona illa og oft fylgir því skömm að vera ekki hamingjusöm, og langa bara út úr þessum erfiðu aðstæðum og sjá ekki fram úr þeim. Samfélagið og samfélagsmiðlar sýna oft glansmynd af þessum tíma þar sem öll eru fín og flott, heimilin falleg og foreldrar og börn blómstra. Foreldrar eru gjarnan spurðir hvort það sé ekki gaman og hvort allt gangi ekki vel og ekki er endilega gefinn kostur á að svara hvernig líðanin er í raun og veru og jafnvel gert lítið úr líðaninni. Sem betur fer er samfélagið að vakna til vitundar um fæðingarþunglyndi og afleiðingar þess og margskonar stuðningur er í boði fyrir foreldra.

Hvað er hægt að gera ef við upplifum þunglyndi eftir fæðingu?
Eftir fæðingu er skimað fyrir fæðingarþunglyndi af hjúkrunarfræðingi í heilsugæslunni. Þetta er oftast gert um níu vikum eftir fæðingu. Þrátt fyrir aukna þekkingu á fæðingarþunglyndi meðal feðra/maka þá er ekki enn farið að skima markvert fyrir því í ungbarnaverndinni. En foreldrar eru hvattir til að láta ljósmóður í heimaþjónustu eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslu vita ef þau hafa áhyggjur af líðan sinni svo hægt sé að bregðast við sem fyrst.

Stundum lagast vægt þunglyndi af sjálfu sér á nokkrum vikum þegar lífið nær nýjum takti en alltaf er gott að hafa góðan stuðning og ræða við einhvern sem þú treystir, fjölskyldumeðlim, góða vini, eða heilbrigðisstarfsmann. Fyrsta skrefið er alltaf að láta vita. Í heilsugæslunni er hægt að fá viðtal við hjúkrunarfræðing, sálfræðing eða lækni. Heimilislæknir getur ávísað þunglyndislyfjum til að hjálpa viðkomandi yfir erfiðasta hjallann og svo eru til margsskonar aðrar góðar lausnir eins og hugræn atferlismeðferð. Á heilsugæslunni er boðið upp á fjölskylduvernd sem hjálpar meðal annars foreldrum sem þurfa hjálp við að styrkja tengsl við barnið og hvort annað. Í alvarlegustu tilfellunum og ef um brátt ástand er að ræða er alltaf hægt að leita á göngudeild geðdeildar.

Það er svo mikilvægt að við séum ekki ein í vanmætti okkar og vanlíðan. Sýnum okkur mildi. Ef að þér líður illa eftir fæðingu barns er gott að vita að þú ert ekki ein/einn. Það eru alltaf hægt að fá hjálp og ráð til að okkur líði betur og við fáum að njóta okkar í foreldrahlutverkinu.

Hrafnhildur ljósmóðir hjá Björkinni

Björkin Ljósmæður