Fara í efni

D-vítamín er undraefni

D-vítamín er undraefni

Hormón frekar en vítamín

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Dr. Michael Holick, prófessor við Bostonháskóla, sem hefur helgað stórum hluta starfsævi sinnar rannsóknum á D-vítamíni. Rannsóknir hans og annarra hafa m.a. leitt í ljós að hver einasta fruma líkamans hefur viðtaka fyrir D-vítamín og að í raun sé um að ræða hormón en ekki vítamín. Líkaminn framleiðir D-vítamín úr sólarljósi og þannig hafa flestir fengið megnið af sínu D-vítamíni í gegnum tíðina auk þess sem það er í einstaka fæðutegund eins og t.d. feitum fiski, lýsi, eggjum og sveppum.

Með aukinni notkun sólarvarna og minni neyslu á feitum fiski hefur farið að bera á sífellt meiri skorti á D-vítamíni úti um allan heim. Í bók sinni „The Vitamin D Solution“, sem kom út árið 2011 rekur Dr. Holick útbreiðslu D-vítamínskorts og afleiðingar hans. Hann heldur því fram að a.m.k. helmingur ef ekki allt að 90% Bandaríkjamanna séu með skort og hægt sé að líkja ástandinu við faraldur. Í bókinni kemur m.a. fram að D-vítamín skortur sé í raun algengasta sjúkdómsástand í heimi og tengist forvörnum og í mörgum tilfellum meðferð sjúkdóma á borð við hjartasjúkdóma, krabbamein, heilablóðföll, smitsjúkdóma, sykursýki, elliglöp, þunglyndi, svefnleysi, vöðvaslappleika, vefjagigt, slitgigt, liðagigt, beinþynningu, psoriasis, MS og háþrýsting. Auk þess hefur verið sýnt fram á að þeir sem þjást af offitu eru oftar en ekki með verulegan D-vítamínskort sem getur viðhaldið þeim vítahring sem offitan er.

Vefjagigt eða beinmeyra?

Alvarlegasta form D-vítamínskorts er sjúkdómur sem flestir þekkja sem sjúkdóm fortíðarinnar eða beinkröm. Tilfelli af þessum sjúkdómi hafa þó verið að greinast víða á undanförnum árum í kjölfar aukningar á D-vítamínskorti. Annar sjúkdómur en minna þekktur sem orsakast af D-vítamínskorti er beinmeyra (osteomalacia). Beinmeyra hefur einnig verið nefnd „fullorðins beinkröm“ og einkennist af óljósum verkjum og eymslum í beinum og vöðvum auk sífelldrar þreytu. Þessi einkenni eru nánast þau sömu og einkenni vefjagigtar en Dr. Holick heldur því einmitt fram að beinmeyra sé oft misgreind sem vefjagigt, síþreyta eða jafnvel liðagigt.

Reynsla Dr. Holick er sú að um 40-60% af þeim sem leita til hans og hafa verið greindir með vefjagigt, síþreytu eða jafnvel þunglyndi séu í raun með D-vítamínskort og þjáist af beinmeyru. Hann hefur náð miklum árangri í meðhöndlun slíkra einstaklinga með D-vítamíngjöf og skynsamlegri útsetningu fyrir sólarljósi. Hann bendir á að ef læknar útiloki ekki D-vítamínskort sem orsök óljósra verkja í vöðvum og beinum geti rétt meðhöndlun slíkra einkenna í mörgum tilfellum tafist verulega.

Höfundur telur mikilvægt að umræðunni um D-vítamínskort sé haldið á lofti og að heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðir um einkenni slíks skorts. Einnig að vert sé að huga að því hvort að þau mörk sem sett eru sem eðlileg við mælingar á D-vítamínskorti séu of lág auk þess sem svo virðist sem ráðlagðir dagskammtar séu í lægri kantinum.

Heimild: Holick, M.F. (2011). The Vitamin D Solution. New York: Penguin Group.

Ingibörg Loftsdóttir

BSc sjúkraþjálfun, MSc Heilbrigðisvísindum, EMPH