Fara í efni

Viðtalið - Júlía Magnúsdóttir

Viðtalið - Júlía Magnúsdóttir

Júlía Magnúsdóttir er að koma inn aftur hjá okkur á Heilsutorg.is af fullum krafti eftir hlé og verður heldur betur gaman að fá reglulegar pistla og uppskriftir frá henni. Júlía er meðal annars hráfæðikokkur, markþjálfi og heilsumarkþjálfi. Þið viljið ekki missa af hennar pistlum, svo fylgist vel með. 

 

 

 

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Ég heiti Júlía Magnúsdóttir og er fædd og uppalin á Íslandi en bjó einnig erlendis í 3 ár, á yngri árum. Gift.

Við hvað starfar þú í dag? 
Stofnandi Lifðu til fulls heilsumarkþjálfi síðan 2012. Heilsumarkþjálfi, markþjálfi og hráfæðiskokkur.

Hver er þín helsta hreyfing? 
Göngur, barre, yoga flæði og teygjur

Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað? 

Ég elska að ferðast en eins og flest okkar, hef ég minnkað ferðlög erlendis undanfarið. Í staðinn hef ég ferðast mikið innanlands sem er dásamlegt líka. Uppáhalds áfangastaður minn erlendis er Bali. Ég elska matinn, afslappaða umhverfið, jákvæða fólkið sem þar býr og strendurnar!

Hver er þinn uppáhalds matur? 
Þegar stórt er spurt! Ég er mjög hrifin af mexíkönskum mat og gæti borðað hann út í eitt, enda er sér kafli í uppskriftabók minni, Lifðu til fulls, tileinkaður mexíkönskum mat. Daglegu smoothie skálarnar mínar eru einnig algjörlega ómissandi.

 Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Góð krydd, olíur, ferskt grænmeti, kínóa, baunir í dós, góða dressingu og glúteinlausar vefjur sem ég á í frysti. Úr því er alltaf hægt að gera ljúffengan kvöldverð á korteri. 

Júlía

Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Austur-Indíafjelagið...ég þarf ekki einu sinni að hugsa mig um til að svara þessari spurningu...

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Biblían er alltaf til staðar á náttborðinu og ég les í henni daglega. Ég gríp einnig mikið í Jesus calling eftir Sarah Young sem gefur ritningarvers úr Biblíunni fyrir daginn. Bókin Magic eftir Rhonda Byrne er einnig bók sem ég gríp oft í og leiðir mann í gegnum 30 daga af þakklæti. Þakklæti hefur svo mikil mátt.
Ég á það svolítið til að byrja á nokkrum bókum í senn úr mismunandi fræðum en helstu flokkarnir sem ég sækist í eru næring og heilsa, ‘coaching’ eða markþjálfunarbækur, sjálfshjálparbækur, tímasparnaður, máttur hugans, fyrirtækjarekstur eða fjármál. Þessi málefni halda alltaf athygli minni. Ein af nýjustu bókum sem ég hef klárað er Self-compassion, eftir Kristin Neff, sem er æði.

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana? 
Ég er ný búin með net-námskeið með Dr Joe Dispenza sem hjálpar þér að brjótast úr gömlu hegðunamynstri og skapa þér í staðinn hugsun og hegðun sem styður við bestu útgáfuna af þér.
Ég hef notast við þess konar hugleiðslur í nokkur ár núna.

Hver eru áhugamálin þín?
Heilsan er jú mikið áhugasvið, ég elska allt sem kemur að heilsunni, hvort það hefur með líkama, mat, eða hreyfingu að gera. Ég á auðvelt með að glata tíma og stund í eldamennskunni og góðri líkamsrækt eða dansi. Að ferðast og vera úti í náttúrunni hefur líka alltaf heillað mig. Að kynnast nýjum menningarheimum, mataræði þeirra og skoða nýjar slóðir er það sem ég nýt mikið. Svo er ég alltaf spennt fyrir því að komast aftur á snjóbretti þegar fer að vetra.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 
Nudd og spa hittir alltaf í mark og ekki sakar að enda kvöldið á sushi í góðra vina hópi. 

Júlía

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkjan gjörir - Fil 4:13
Ég veit það innst inni að ef ég er með stórt verkefni fyrir framan mig að þá hefur æðri mátturinn gefið mér það sem ég þarf til að takast á við það og að það er lexía sem bíður mín handan við áskorunina. Verkefni eru í raun bara ´erfið´ í fyrsta sinn sem þú tæklar þau, þegar þú ert búin að gera það einu sinni áttu auðveldara með að gera það aftur og aftur og þú verður sífellt betri og betri.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár? 
Að halda áfram að hjálpa konum að líða vel í eigin skinni og breiða út boðskap heilsunnar til enn fleiri. Jafnvel gefa út aðra uppskriftabók en hver veit hvað verður næst...ég er allavega með nokkur markmið sem ég minni mig reglulega á og eru í bígerð.

Hvað er framundan hjá þér Júlía, einhver námskeið á næstunni?
Já um þessar mundir býð ég upp á ókeypis net-fyrirlestur "Meiri orka minni sykurþörf “ þar sem ég deili einföldum skrefum í áttina til að fyllast orku og léttast með náttúrulegum hætti. Skráning er takmörkuð. Hægt er að sjá þá tíma sem eru í boði hér : Ókeypis fyrirlestur

 Á fyrirlestrinum er farið yfir 

  • Hvaða fæða gefur orku 

  • Hvernig hægt er að forðast algeng mistök þegar breytt er um mataræði 

  • Einfalt sykurpróf sem sýnir hvort líkaminn sé háður sykri og helsta úrræði til að komast úr vítahring sykurs 

  • Uppskrift sem slær á sykurþörfina 

  • 3 einföld skref til að taka ef þú vilt koma þér af stað með orku, vellíðan og léttari líkama í haust 

 

Linkar á miðla Júlíu: