Segðu okkur aðeins frá sjálfri/sjálfum þér:
Ég heiti Ingunn Guðbrandsdóttir og er uppalin í Garðabænum en bý í Kópavogi. Ég er 43 ára gömul, gift Hjalta Baldurssyni og eigum við þrjú börn á aldrinum 5 ára til 18 ára. Við eigum líka 7 ára labrador sem heitir Krishna. Ég er með víðtæka háskólamenntun á sviði sálfræði og mannauðsstjórnunar, hef lokið við nám í markþjálfun og heilsumarkþjálfun auk 560 klst námi sem jógakennari. Ég hef starfað við heilsueflingu og þjálfun í 25 ár og elska að aðstoða fólk við að finna sína leið í þeim efnum.
Við hvað starfar þú í dag?
Ég starfa sem heilsumarkþjálfi, jógakennari og hlaupaþjálfari.
Hver er þín helsta hreyfing?
Ég æfi svokölluð ultra hlaup og elska að hlaupa langar vegalengdir á rólegum hraða. Ég hleyp fimm til sex sinnum í viku, geri styrktaræfingar helst tvisvar sinnum í viku og geri svo aðrar þolæfingar a.m.k einu sinni í viku.
Ertu dugleg/ur að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Satt best að segja er ég afar heimakær og nýt þess að eiga góðar stundir heima hjá mér. Að því sögðu finnst okkur fjölskyldunni líka mikilvægt að eiga góð frí saman og höfum við ferðast erlendis hvert sumar síðastliðin ár. Krít hefur orðið oft fyrir valinu og er ég alveg heilluð af Grikklandi og grískri menningu.
Hver er þinn uppáhalds matur?
Ég hef litla þörf fyrir fjölbreytni í mat og get borðað sama matinn dag eftir dag. Heimagerðar smúðí skálar eru þó í miklu uppáhaldi og yfirleitt það sem ég fæ mér strax eftir hlaup. Þegar kalt er í veðri skipti ég þeim þó oft út fyrir heita grauta.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Hnetur og fræ! Ég næri mig með plöntumiðuðu heilfæði, þ.e. borða ekki dýraafurðir, svo ég bæti hnetum og fræjum við eiginlega í allar máltíðir til að passa að líkaminn fái næga orku fyrir hlaupin..
Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Já, Sumac! Þar fást ótrúlega góðir grænmetisréttir sem kitla bragðlaukana.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég er yfirleitt að lesa margar bækur á sama tíma og les mikið af fræðandi efni. Núna er ég að lesa glæpaskáldsögu, bókina Why We Sleep eftir Matt Walker og svo glugga ég reglulega í Yogasutrur Patanjali. Uppáhalds bókin mín er þó líklega The Untethered Soul eftir Michael Singer, en hún hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana fyrst fyrir sex árum.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana?
Ég hlusta yfirleitt á hlaðvörp í rólegum hlaupum en dúndrandi danstónlist á gæðaæfingum. Uppáhalds hlaðvörpin mín þessa dagana eru hlaðvörp Rich Roll, The Rich Roll Podcast, og Andrew Huberman, The Huberman Lab. Bæði fjalla þau um ýmiskonar heilsutengd málefni en á ólíkan máta þó.
Hver eru áhugamálin þín?
Heilsa og heilsuefling í víðum skilningi er það sem ég brenn fyrir og hef gríðarlegan áhuga á.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Fer út að borða með góðum vinum. Ég lifi í raun mjög einföldu og reglubundnu lífi sem felur í sér góða næringu, hugleiðslu, hreyfingu og sköpun, auk samvista með fjölskyldunni. Ég fer sjaldan út að borða, enda með stórt heimili og þess vegna er það dýrmætt “trít” að gera það öðru hvoru með góðum vinum.
Hvað segir þú við sjálfa/nn þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
“Þetta er frábært tækifæri til vaxtar og þroska” er mantra sem ein af mínum helstu kennurum í lífinu, Kristbjörg Kristmundsdóttir jógakennari, kenndi mér. Ég nota hana alltaf þegar ég tekst á við erfiðar áskoranir.
Hvar sérð þú sjálfa/nn þig fyrir þér eftir 5 ár?
Að gera skemmtilega hluti sem færa mér innri næringu, alveg eins og í dag. Ég hef tamið mér að fylgja hjartanu og gleðinni í öllu sem ég geri. Taka hverjum degi af æðruleysi og trausti og held því bara áfram.