Fara í efni

Sumar humar taco frá hinni dásamlegu Helenu á Eldhúsperlum

Sumar humar.
Sumar humar taco frá hinni dásamlegu Helenu á Eldhúsperlum

Ég setti myndir af humar taco sem ég gerði á instagram um daginn og hef sjaldan eða aldrei fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift. Svo hér er hún komin!

Ég mæli af öllu hjarta að þið prófið og athugið að það er auðveldlega hægt að skipta humrinum út fyrir risarækjur, það er alls ekki síðra. Og fyrir kóríander hatarana þarna úti (þið vitið hver þið eruð) þá er leikandi hægt að sleppa því og nota t.d. steinselju eða jafnvel ferskt basil í staðin.

Uppskriftin er ríflega áætluð fyrir tvo til þrjá sem aðalréttur. Þó að uppskriftin virðist löng lofa ég að hún er ekki flókin og inniheldur ekki flókin hráefni. Nokkur skref sem eru svo sannarlega þess virði fyrir þessar ljúffengu tacovefjur!

 

Humar taco

Humarinn:

  • 12-15 meðalstórir humarhalar, skelflettir og hreinsaðir
  • 2 tsk chillimauk úr krukku, t.d. Sambal oelek eða annað
  • Salt og pipar (ég nota alltaf flögusalt frá Saltverk)
  • 3 msk smjör

Pikklaður rauðlaukur:

  • 1 rauðlaukur, skorinn í tvennt og svo þunnar sneiðar
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk sykur

Hrásalat:

  • 1/2 lítið rauðkálshöfuð, rifið niður eða skorið mjög fínt
  • 2 msk smátt saxað ferskt kóríander
  • 2 msk majónes
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 tsk chilllimauk
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt

Límónu sósa:

  • 4 msk sýrður rjómi
  • 2 msk majónes
  • Safi og rifinn börkur af hálfri límónu
  • Salt eftir smekk

Lárperu salsa:

  • 1 stór lárpera eða 2 minni, skorið smátt
  • 2 tómatar, skornir smátt
  • Safi úr hálfri límónu
  • Salt og pipar
  • Smá saxað kóríander

Litlar mjúkar hveiti eða maís tortillakökur. Ef þið finnið ekki litlar kökur er líka hægt að skera litlar út með því að leggja lítinn disk eða undirskál ofan á tortillaköku og skera meðfram.

Límónubátar og ferskt kóríander til að setja yfir tacovefjurnar í lokin.

Mér finnst best að gera þetta í þessari röð:

  1. Byrjið á að útbúa pikklaða rauðlaukinn. Blandið öllu saman og leggið til hliðar á meðan þið undirbúið restina af meðlætinu.
  2. Gerið hrásalatið. Skerið rauðkálið mjög smátt eða rífið niður, pískið innihaldið í sósuna saman í skál og setjið svo kálið saman við. Smakkið til og geymið í ísskáp.
  3. Hrærið saman hráefnin í límónusósuna, smakkið til og setjið til hliðar.
  4. Skelflettið humarinn og hreinsið. Leggið á disk og þerrið vel. Smyrjið þunnu lagi af chillimauki öðru megin á hvern humarhala.
  5. Skerið niður hráefnið í lárperusalsað, smakkið til og setjið til hliðar.
  6. Hitið pönnu við háan hita, kryddið humarinn með salti og pipar. Setjið smjörið á pönnuna. Þegar smjörið byrjar að freyða er tími til að setja humarinn á. Steikið humarinn í um það bil 1 mínútu á hvorri hlið. Gott er að ausa smjörinu yfir humarinn á meðan hann steikist. Setjið humarinn á disk og hellið dálitlu af smjörinu yfir hann ásamt því að kreista smá límónusafa yfir.
  7. Hitið tortillakökurnar á þurri vel heitri pönnu báðu megin.
  8. Berið fram! Best finnst mér að raða þessu svona saman: Neðst fer smá hrásalat, því næst lárperusalsa og pikklaður rauðlaukur. Humarinn fer þar ofan á (þrír halar á hverja kökur finnst mér passlegt), dálítið af sósu yfir ásamt fersku kóríander og nokkrum dropum af kreistri límónu. Endurtekið eins oft og þörf er á. Það er unaðslegt að drekka ískalt rósavín með!

UPPSKRIFT FRÁ ELDHÚSPERLUM.