Fara í efni

Uppspretta lífsins - Mánudagshugleiðing Guðna þegar október er að líða undir lok

Uppspretta lífsins - Mánudagshugleiðing Guðna þegar október er að líða undir lok

Hvað hefur fæðst úr myrkri?

Ljósið og kærleikurinn mynda uppsprettu lífsins á þessari jörð. Þetta er ekki flókið að sanna:

Sjáðu fyrir þér tvo klefa. Annar er upplýstur, hinn er myrkur. Sjáðu fyrir þér dyr á milli klefanna. Þegar þú opnar dyrnar mun ljósið flæða inn í dimma klefann og lýsa hann upp. Myrkrið flæðir ekki – það víkur fyrir ljósinu.

Myrkrið flæðir ekki – það getur aðeins vikið. Myrkrið skapar ekki – það getur aðeins breitt yfir.

Um leið og þú ákveður að þú verðskuldir ljósið – um leið og þú opnar dyrnar og leyfir ljósinu að lýsa upp líf þitt – þá geturðu lifað til fulls.

Myrkrið er einfaldlega ekki til – myrkur er ekkert annað en skortur á ljósi.

Þú ert upplýst vera og hefur alltaf verið það. Þú værir ekki lifandi vera heldur dauð ef ekki væri í þér ljós, orka; lífsafl sem heldur saman þessari undarlegu mold sem er holdið sem líkami þinn er. Sjálf þitt kann að hafa aðskilið sig frá uppsprettunni og ljósinu hreina, en ferðinni hefur alltaf verið heitið aftur að uppsprettunni, aftur í ljósið, aftur í ljósið sem ert þú.

Þú ert andi – þú ert allt sem býr í holdinu á meðan þú andar; á meðan lífið andar í þig innblæstri og ástríðu sem knýr þig áfram. Um leið og þú gefur upp öndina ertu andlaus. Ertu andlaus? Ertu búinn að gefa upp öndina?

Lífshlaup þitt fram að þessum tímapunkti hefur átt sér það markmið að leiða þig aftur að uppsprettunni – aftur að þínum frjálsa vilja og óendanlegu ljósi og krafti.

Um leið og þú manst og finnur á eigin skinni að þú ert heilagt ljós muntu skína og leiftra yfir allt og alla. Þú snýrð aftur til kjarnans sem logar skært í hverri frumu líkamans og þú þorir að láta ljós þitt skína. Þú ert skapari og getur veitt og móttekið í fullri heimild, af öllum hjartans fúsleika.