Fara í efni

4 leiðir til að iðka núvitund í daglegu lífi

Það dylst engum að hraðinn í nútímasamfélagi hefur leitt af sér aukna streitu. Við erum í sífelldum þönum að sinna öllum þeim verkefnum sem við höfum tekið að okkur. Rannsóknir hafa endurtekið sýnt að þjálfun í núvitund hafi ekki aðeins jákvæð áhrif á slíka streitu heldur einnig almenna vellíðan og heilsufar.
4 leiðir til að iðka núvitund í daglegu lífi

Það dylst engum að hraðinn í nútímasamfélagi hefur leitt af sér aukna streitu. Við erum í sífelldum þönum að sinna öllum þeim verkefnum sem við höfum tekið að okkur. Rannsóknir hafa endurtekið sýnt að þjálfun í núvitund hafi ekki aðeins jákvæð áhrif á slíka streitu heldur einnig almenna vellíðan og heilsufar.
Núvitund er skilgreind sem sú vitund sem skapast innra með okkur þegar við beinum athyglinni með ásetningi, í líðandi andartaki, að því sem er eins og það er án þess að dæma það.

Hægt er að þjálfa núvitund með bæði formlegum og óformlegum hætti. Reglubundin hugleiðsla væri dæmi um formlega þjálfun en eftirfarandi leiðir væru dæmi um óformlega þjálfun. Það er frábært að þjálfa núvitund bæði með formlegum og óformlegum hætti. Það að staldra við í nokkrar mínútur á hverjum degi, jafnvel nokkrum sinnum á dag, er til þess fallið að færa okkur inn í líðandi andartak og færa okkur friðsæld og vellíðan.

Leyfðu þér að prófa þig áfram og hafa gaman af.

Þar sem þú situr núna.
Leiddu athyglina að líkama þínum. Byrjaðu á að finna fyrir fótum og ökklum, og færðu athyglina svo upp eftir líkamanum. Finndu fyrir setbeinum, baki, öxlum og herðum. Taktu eftir handleggjum og höndum og loks höfðinu. Athugaðu hvort þú getir tekið eftir líkamanum, fundið fyrir honum, án þess að hafa skoðun á honum. Dragðu svo djúpt andann þrisvar sinnum og taktu eftir því hvernig þér líður.

Í bílnum.
Næst þegar þú sest inn í bíl prófaðu þá að bíða með að setja hann í gang og draga andann djúpt að þér. Þegar þú andar frá þér leiddu þá athyglina að því hvar þú finnur fyrir önduninni í líkamanum. Dragðu andann djúpt að þér nokkrum sinnum og haltu athyglinni við þennan stað í líkamanum allan tímann.

Við eldamennskuna.
Næst þegar þú eldar þér máltíð reyndu þá að gefa þér nokkrar auka mínútur til að hægja á þér. Veldu þér eitt verk innan eldamennskunnar þar sem þú setur alla athyglina á það sem þú ert að gera þá stundina. Sé það að skera niður grænmeti, taktu þá eftir hvernig áferðin er á grænmetinu og hljóðin sem heyrast þegar þú skerð það niður. Taktu eftir lyktinni og hvort þú farir að finna fyrir munnvatnsframleiðslu á meðan þú vinnur verkið. Laumir þú upp í þig bita, leyfðu þér þá að tyggja bitann eins oft og þú getur áður en þú kyngir.

Við matborðið.
Næst þegar þú sest niður til máltíðar gefðu þér þá nokkrar sekúndur til að horfa á matinn áður en þú tekur fyrsta bitann. Taktu eftir lit matarins og lyktinni af honum. Þegar þú hefur tekið fyrsta bitann, gefðu þér þá góðan tíma til að finna fyrir matnum í munninum og tyggja hann eins vel og þú getur. Finndu fyrir bragðinu og áferðinni. Taktu eftir þeim hljóðum sem heyrast þegar þú tyggur matinn. Þegar þú kyngir niður matnum taktu þá eftir hverju þú finnur fyrir.

Ingunn Guðbrandsdóttir

Heilsumarkþjálfi, jógakennari og hlaupaþjálfari

Ingunn.is