Fara í efni

Það eina sem þú þarft að gera er að fyrirgefa - Guðni á föstudegi

Það eina sem þú þarft að gera er að fyrirgefa - Guðni á föstudegi

AÐ TAKA ÁBYRGÐ ER EINFALT MÁL

Það eina sem þú þarft að gera er að fyrirgefa. Ekki öðrum, ekki heiminum, heldur fyrirgefa þér fyrir öll þau neikvæðu álög sem þú hefur lagt á eigin herðar í áranna rás, fyrir sársaukann sem þú hefur leitt þig inn í með núverandi hegðun.

Að taka fulla ábyrgð á eigin tilvist felur í sér afneitun á meðvirkni. Við hættum að vera háð því að vera fjarverandi. Meðvirkni er ábyrgðarleysi. Þegar maður hefur ekki tekið ábyrgð, þá er maður meðvirkur. Við erum öll meðvirk, en það er ekki fyrr en við erum háð því sem það skapar óróa.

Munurinn á ábyrgð og ábyrgðarleysi er óið og æið – æ, ó, aumingja ég, ég vil ekki vera eins og ég er, núna, vil ekki taka ábyrgð á því ljósafli sem í mér býr, vil ekki vera viljandi skapari því ég á það ekki skilið.

Við höfum öll frjálsan vilja og megum vera nákvæmlega eins og við erum, þar sem við erum. Allir hafa alltaf rétt fyrir sér, alltaf, líka þú. Spurningin er hvort þú ert að velja viljandi eða óviljandi, því að ef þú ert ekki í vakandi vitund þá stjórnar skortdýrið förinni.