Fara í efni

Svona gleymir þú engu: Ráðleggingar sérfræðinga um hvernig á að bæta minnið

Sem betur fer eru til margar mismunandi aðferðir til að verða betri í að muna.
Hverju gleymdir þú í dag?
Hverju gleymdir þú í dag?

Hvar eru lyklarnir? Hvar er síminn? Hvað heitir þessi nýi í vinnunni? Hvað heitir höfuðborgin í Eistlandi? Það er ekki minnið okkar sem veldur okkur vandræðum þegar við þurfum að muna hvar við lögðum símann frá okkur eða hvar lyklarnir eru en getum ómögulega munað það. Það er geta okkar til að muna eða öllu heldur finna upplýsingarnar í minni okkar sem stríðir okkur.

Sem betur fer eru til margar mismunandi aðferðir til að verða betri í að muna það sem við megum ekki gleyma eða öllu heldur verða betri í að finna þessar upplýsingar í minni okkar. Jótlandspósturinn fékk þrjá sérfræðinga til að veita ráð um þetta og fylgja þau hér á eftir.

1. Skrifaðu það niður. Það er auðvelt og fljótlegt. Skrifaðu, það sem þú þarft að muna, niður. Þrátt fyrir að þetta sé augljósasta aðferðin til að gleyma engu þá er þetta fyrsta ráðið sem Mads Brøbech gefur viðskiptavinum sínum en hann rekur fyrirtæki sem kennir fólki að nota heilann betur. Hann segir að ef fólk skrifar hlutina hjá sér, þá geti það notað restina af getu heilans til að einbeita sér að því verkefni sem er framundan. Þá sé einnig hægt að nota snjallsímana til muna hluti og minna á þá.

2. Segðu það, heyrðu það, lestu það, gerðu það. Sumir muna hlutina betur ef þeir eru sagðir upphátt fyrst. Sumir muna betur ef þeir sjá myndir af því sem þeir þurfa að muna. Sumir eiga auðveldar með að finna minninguna ef þeir voru að gera eitthvað líkamlegt þegar þeir lögðu hlutinn á minnið. Line Sander, sem heldur fyrirlestra um minni fólks, þá henta mismunandi aðferðir fólki og því er gott að finna það sem hentar hverjum og einum og nota þá aðferð.

3. Drekktu kaffi. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að fólk eigi betur með að muna hluti eftir að það hefur innbyrt koffín. Það er því óhætt að drekka 200 mg af koffíni, um tvo kaffibolla, rétt eftir að nýrrar vitneskju hefur verið aflað til að auka minnið.

4. Gerðu einn hlut í einu. Klassískt dæmi um skort á minni er þegar við skjótumst frá því að smyrja brauð í eldhúsinu inn í svefnherbergi til að sækja eitthvað en munum ekki hvert erindið er þegar við komum inn í hitt herbergið. Þarna er minnið ekki að bregðast heldur einbeitingin. Lausnin er að gera bara einn hlut í einu og ljúka honum áður en lengra er haldið.

5. Fáðu nægan svefn. Svefn skiptir miklu máli fyrir heilann og hversu vel hann getur munað hluti. Í hinum djúpa REM-svefni vinnur heilinn úr nýrri vitneskju, sem þú hefur aflað þér í vöku. Ef þú sefur of lítið getur ný vitneskja glatast.

6. Spilaðu tölvuleiki. Það er til mikið af öppum fyrir snjallsíma, sem eiga að auka minni fólks. Það er hægt að leita að ´brain memory trainer´ í appbúðinni í símanum og velja úr fjöldamörgum leikjum. Það er þó ekki vitað með vissu hversu mikið gagn þessir leikir gera en talið er að það sé hægt að bæta hæfileika sína í að takast á við mismunandi verkefni með því að spila þessa leiki en almennt sé ekki hægt að þjálfa heilann með því að spila tölvuleiki.

7. Notaðu tengingar. Langflestir sérfræðingar í því sem tengist heilanum og minni fólks hvetja til að fólk noti tengingar þegar það þarf að muna eitthvað. Það sé gott að tengja ákveðnar myndir við hlutina sem þarf að muna.

8. Forðastu stress.  Rannsóknir hafa sýnt að aukið magn af stresshormóninu kortisol getur dregið úr minnisgetunni. Stress getur einnig haft áhrif á einbeitinguna og hæfni okkar til að læra. Þess vegna lenda sumir í því að verða gleymnari þegar þeir eru stressaðir. Það ætti því að geta aukið minnið og einbeitinguna að forðast stress.

9. Endurtaktu, endurtaktu, endurtaktu. Þetta er eitt mikilvægasta ráðið til að geta munað hluti vel og lengi. Þú þarft að endurtaka það sem þú vilt muna.

Þetta er mikilvægt ráð ef þú vilt muna eitthvað langt fram í framtíðina. Þú verður að endurtaka það sem þú vilt muna. Ef þetta er eitthvað sem þarf að muna lengi er best að endurtaka það reglulega.

Birt í samstarfi við: