Fara í efni

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður 4. júní 2016

Kvennahlaupið fer fram laugardaginn 4. júní. Eins og undanfarin ár verður hlaupið í Garðabæ og Mosfellsbæ ásamt yfir 100 öðrum stöðum hérlendis og erlendis.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður 4. júní 2016

Búist við sólskini og bongóblíðu í Kvennahlaupinu.

Sólskin og bongóblíða í Kvennahlaupinu Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram á laugardaginn og spáin er frábær.

Á laugardaginn 4. júní fer hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fram í 27. sinn. Hlaupið verður á yfir 100 stöðum hérlendis og erlendis – eins og venjulega má búast við að þúsundir kvenna komi saman til að njóta hreyfingar og góðs félagsskapar.

Ekki spillir fyrir að veðurspáin á laugardaginn er frábær fyrir allt landið. Það stefnir í sólskin og allt að 20°C hita. „Það er alltaf gaman í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ, hvernig sem veðrið er,“ segir Sigríður Inga Viggósdóttir, sviðstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ. „En það spillir síður en svo fyrir að fá svona spá. Það er eins og við höfum pantað þetta veður.“

Síðustu daga hefur verið minnt á hlaupið með frumlegu uppátæki í Kringlunni. Sérhannaður „hvatningarbúnaður“ var settur upp á stigagangi Kringlunnar til að hvetja fólk til að velja tröppurnar frekar en lyftu eða rúllustiga. Fjölmargir tóku áskoruninni, en með þessum hætti var bæði vakin athygli á Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ og vegfarendur voru minntir á að hreyfing er holl og skemmtileg fyrir alla.

Á www.kvennahlaup.is geta hlauparar fundið hlaupastaði sem hentar hverjum og einum. Engin skráning er í hlaupið en þátttökugjaldið er greitt með því að kaupa Kvennahlaupsbol, annað hvort í forsölu eða á hlaupadag. Þátttökugjaldið er 1000 kr. fyrir 12 ára og yngri og 2000 kr. fyrir 13 ára og eldri. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Sjóvá, aðalstyrktaraðili hlaupsins, hvetja allar konur til þess taka þátt í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ 4. júní 2016.

Allar nánari upplýsingar veitir Sigríður Inga Viggósdóttir, sviðstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, í síma 868 8018 og á sigridur@isi.is.

Blár er litur hlaupsins í ár