Fara í efni

Hvað veldur beinhimnubólgu?

Á Doktor.is er pistill um beinhimnubólgu eftir Sólveigu Dóru Magnúsdóttur lækni. Þar kemur fram að það sem í daglegu tali kallast beinhimnubólga er ekki sjúkdómur í sjálfu sér heldur samheiti yfir ákveðin einkenni.
Hvað er beinhimnubólga?
Hvað er beinhimnubólga?

Á Doktor.is er pistill um beinhimnubólgu eftir Sólveigu Dóru Magnúsdóttur lækni. Þar kemur fram að það sem í daglegu tali kallast beinhimnubólga er ekki sjúkdómur í sjálfu sér heldur samheiti yfir ákveðin einkenni. Þessi einkenni eru verkir í framanverðum fótlegg sem koma í kjölfar aukins álags, oftast vegna líkamsþjálfunar. Verkirnir hverfa yfirleitt við hvíld. Beinhimnubólga er til dæmis algengur álagsáverki meðal hlaupara, sérstaklega þegar tekið er til við æfingar eftir hvíld í einhvern tíma eða þegar álag við þjálfun eykst af öðrum ástæðum.

Einkennin geta stafað af þremur orsökum. Í fyrsta lagi getur verið um að ræða álagsbrot sem orsakast af sprungum sem myndast í leggbeinið vegna nýtilkomins álags. Í öðru lagi getur verið um að ræða bólgu í beinhimnu sköflungsbeins og aðliggjandi sinum vegna aukins álags á fótinn. Í þriðja lagi getur svo verið um að ræða svokallaðanAnterior compartment syndrome (ACS) en í því felst að vöðvar sem tilheyra leggnum þenjast út við álag og þrýsta á bandvefshimnuna sem umlykur þá. Þar sem himnan gefur lítið eftir myndast þrýstingur í hólfinu sem liggur framan og utanvert við legginn og er talið að það geti dregið úr blóðflæði og þar með súrefnisstreymi til vöðvanna.

Helsta ráðið við beinhimnubólgu er hvíld þannig að vöðvarnir nái að jafna sig. Hversu lengi þarf að hvíla fer eftir því hversu slæmt ástandið er, en talið er að lágmarks hvíld sé 2-4 vikur. Kaldir bakstrar og bólgueyðandi lyf geta komið að gagni en ef verkurinn lagast ekki við hvíld er ráð að leita til læknis.

Heimild: visindavefur.is