Fara í efni

VIÐTALIÐ: Sara Björk Gunnarsdóttir fótboltasnillingur stefnir hátt í fótboltanum

En hvað gerir hún til að vera heilsuhraust og afreksmaður í íþróttum?
VIÐTALIÐ: Sara Björk Gunnarsdóttir fótboltasnillingur stefnir hátt í fótboltanum

Sara Björk stefnir hátt í fótboltanum.

 

Fullt nafn:

Sara Björk Gunnarsdóttir.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?

Ég er 25 ára gömul. Uppalin í Hafnarfirði og hef æft fótbolta síðan ég var 6 ára gömul.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Er atvinnukona í fótbolta og spila fyrir Vfl Wolfsburg í Þýskalandi. Síðan er ég búin að læra einkaþjálfarann í Keili! Síðan eru ég og unnusti minn Hákon Atli með fjarþjálfunina HS Þjálfun í fullum gangi. 

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan knattspyrnunnar?

Helstu áhugamál mín eru að fara út að borða eða elda sjálf góðan mat með vinum og fjölskyldu. Síðan hef ég gaman af kvikmyndum og þáttum. Hef annars voða lítinn tíma fyrir eitthvað annað en æfingar. 

Bakgrunnur í íþróttum, hvar ertu „alin upp“ sem knattspyrnukona og með hvaða félögum & liðum hefur þú spilað?

Er alin upp á Ásvöllum í Haukum, spilaði þar í um 12 ár. 
Fór frá Haukunum 18 ára til Breiðabliks í Kópavoginum og síðan í atvinnumennsku til Svíþjóðar 20 ára gömul. Ég spilaði í Malmö í 5 ár og er núna ný flutt til Þýskalands og spila þar með Vfl Wolfsburg. 

Hvaða leikur er eftirminnilegastur og af hverju? 

Ætli það sé ekki þegar við í íslenska landsliðinu tryggðum okkur í fyrsta skipti inn á stórmót árið 2008 á móti Írlandi á skautasvellinu í Laugardalnum. 

Hvað æfir þú að meðaltali oft í viku?

10 - 12 x í viku. 

Hvað gerir þú til að vera heilsuhraust og afreksmaður í íþróttum?

Ég hugsa gríðarlega vel um mig. Ég borða hollan og næringarríkan mat, passa upp á góðan svefn, æfi vel og rétt. Set mér markmið og geri allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná þeim fram og uppskera! 

Hverju breytir það fyrir þig að vera talin sem 19. besta knattspyrnukona í Evrópu?

Breytir ekki miklu meira en að þetta er frábær heiður og mikil viðurkenning. En ég er aldrei södd. Ég vill sanna mig í Wolfsburg og ná ennþá lengra og vonandi næ ég að komast enn hærra á listann. 

Hvað er næst á döfinni hjá þér og færðu eitthvað frí í haust eftir keppnistímabilið?

Ég er að fara inn í undirbúningstímabil með Wolfsburg núna fram í september þegar deildin byrjar og við spilum alveg til 20. desember en þá kemur eitthvað vetrafrí. 

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Egg, mjólk og bláber. 

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Uppáhaldsmaturinn minn er humar og lax. En mínir uppáhalds matsölustöðir eru Gló og Fiskmarkaðurinn. 

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Er byrjuð á bókinni Nautið eftir Stefán Mána. 
Ein uppáhaldsbókin mín er Skaraðu frammúr eftir Erik Bertrand. 

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Borða góðan grillmat og fæ mér bland í poka með poppi og Coke Zero. 

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég reyni að draga fram mínar allra bestu hliðar og gef alltaf 120 % í verkefnið. 

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Eftir 5 ár verð ég ennþá að spila fótbolta í einhverjum stórum klúbbi.