Fara í efni

Viðtalið - Hrafnhildur Halldórsdóttir

Við erum skýjum ofar að vera komin með ljósmæður Bjarkarinnar hér á Heilsutorg.is til að skrifa fjölbreytt efni um allt sem fylgir meðgöngu, fæðingu og því sem á eftir kemur. Við ætlum að kynnast þeim hægt og rólega á næstu vikum og byrjum á henni Hrafnhildi sem er annar eigandi Bjarkarinnar.
Viðtalið - Hrafnhildur Halldórsdóttir

Við erum skýjum ofar að vera komin með ljósmæður Bjarkarinnar hér á Heilsutorg.is til að skrifa fjölbreytt efni um allt sem fylgir meðgöngu, fæðingu og því sem á eftir kemur. Við ætlum að kynnast þeim hægt og rólega á næstu vikum og byrjum á henni Hrafnhildi sem er annar eigandi Bjarkarinnar.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Ég heiti Hrafnhildur Halldórsdóttir er 46 ára, fædd í Reykjavík en uppalin í nesjum í Hornafirði. Ég er næst elst fimm systkina, á tvær systur og tvo bræður. Ég er gift Birni Gíslasyni tölvunarfræðingi og við eigum þrjú börn. Gísla Tjörva 27 ára flugvirkja sem býr í Sviss. Sunnu Kristínu 18 að verða 19 sem er að læra heilbrigðisverkfræði og Unnar Tjörva, 15 ára og er hann í 10 bekk. Við búum á Seltjarnarnesinu þar sem er stutt í fjöruna og fuglalífið og gott að búa.

 

Við hvað starfar þú í dag? 
Ég er ljósmóðir og annar eigandi Bjarkarinnar sem er fæðingarheimili og ljósmæðraþjónusta fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu. Ég sinni mæðravernd, fæðingum heima og á fæðingarheimilinu, ásamt heimaþjónustu eftir fæðingu ásamt því að reka Björkina með vinkonu minni Arney Þórarinsdóttur ljósmóður.

Hver er þín helsta hreyfing? 
Ég fer í göngutúr með henni Lukku litlu tíkinni minni á hverjum degi, okkur finnst gott að anda að okkur ferska loftinu og náttúrunni. Ég stunda líka jóga og dansa zumba. Maðurinn minn er mikill göngugarpur og björgunarsveitarmaður sem elskar að fara á fjöll og við fjölskyldan förum stundum með honum. Mér finnst best að fara á lítil og vingjarnleg fjöll.

Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað? 
Ég ferðast ekki eins mikið og ég vildi, en nota flest frí til að heimsækja foreldra mína, tengdaforeldra mína og fjölskyldu á Hornafjörð sem er uppáhalds staðurinn minn í öllum heiminum. Nesjasveitin mín með jöklana allt um kring er fallegasti staðurinn. Mig grunar að Sviss verði líka einn af uppáhaldsstöðunum mínum að heimsækja, þar sem stóri strákurinn minn er fluttur þangað og næsta ferðalag er einmitt til hans.

Hver er þinn uppáhalds matur? 
Maðurinn minn er heimsins besti kokkur og pabbi minn líka og bræður og eiginlega bara öll fjölskyldan nema ég og mamma eldar dýrindis mat. Ég held ég verði að segja ömmugúllas sem pabbi minn eldar handa mér þegar ég kem í heimsókn til hans og mömmu í nesjunum.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Ég reyni að komast hjá því að elda matinn heima hjá mér því maðurinn minn eldar svo miklu betri mat. Það sem er alltaf til er gott grænmeti, smjör og parmesan.

Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Já, Úps á Höfn í Hornafirði er langbesti veitingastaðurinn. Það vill svo til að bræður mínir og mágkona eiga og reka hann. Þau eru með frábæran mat og fullt af vegan og flest allt úr héraði. Mæli með.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég er algjör lestrarhestur og alltaf með eitthvað að lesa og hlusta á. Ég var að klára bók sem heitir Ást eftir Alejandro Palomas og var nokkuð hrifin. Annars er Astrid Lindgren alltaf uppáhalds höfundurinn minn og bróðir minn ljónshjarta er uppáhalds bókin mín.

Hrafnhildur

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana? 
Ég er að hlusta á Dagbók bóksala eftri Shaun Bythell, mér finnst mjög gott að hlusta á Ólaf Arnalds núna í haustveðrinu, annars er Nick Cave mjög mikið á fóninum þessa dagana og alltaf. Mér finnst stundum gaman að hlusta á podköst, sérstaklega þegar ég er að gera eitthvað leiðinlegt, t.d karlmennskuna, kviknar og Snæbjörn talar við fólk. Annars er ég algjör alæta á tónlist, bækur og podköst.

Hver eru áhugamálin þín?
Ég elska að hlusta á tónlist og lesa. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í leikhús og á tónleika og svo finnst mér gaman að dansa. Annars finnst mér bara best að vera með fólkinu mínu og börnunum mínum sem eru skemmtilegust í heimi.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 
Þá sting ég af eitthvað með manninum mínum, borðum góðan mat, förum í leikhús eða tónleika og gistum á einhverju fallegu hóteli.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Ég ákvað einhverntíma að segja alltaf já við þeim tækifærum sem mér bjóðast í lífinu þó að þau séu langt út fyrir þægindaramman. Ég segi því já ég get þetta í staðin fyrir að segja nei og svo syng ég abbalög í huganum til að peppa mig upp.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár? 
Ég sé mig fyrir mér í Björkinni að taka á móti börnum, með bestu ljósmæðrunum og sinna því sem ég elska. Ég hef lært á undanförnum árum að njóta þess að eiga frítíma með fjölskyldunni minni og mig langar að ferðast meira, ganga á aðeins stærri fjöll með manninum mínum og bara halda áfram að lifa í núinu, njóta þess að vera lifandi og láta gott af mér leiða.