Fara í efni

VIÐTALIÐ: HELGI FREYR RÚNARSSON KENNIR FÓLKI AÐ STANDA Á HÖNDUM

VIÐTALIÐ: HELGI FREYR RÚNARSSON KENNIR FÓLKI AÐ STANDA Á HÖNDUM

Kannt þú að standa á höndum? Hann Helgi Freyr hjá Primal Iceland getur kennt þér það. Hjá Primal Iceland finnur þú byrjenda námskeið og námskeið fyrir lengra komna. Við mælum með handstöðunámskeiðum hjá Primal Iceland.

Fullt nafn: Helgi Freyr Rúnarsson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan þú ert?

Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Endaði svo aftur í Kópavogi eftir nokkur stopp erlendis og bý nú Kópavogsmegin í Fossvoginum með konu og 3 börn.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er menntaður eðlisfræðingur, með doktorsgráðu frá Háskólanum í Aveiro, Portúgal. Í dag starfa ég þó sem þjálfari og eigandi Primal Iceland.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan heilsurækt?

Ég hef alltaf haft gaman af ævintýrabókmenntum og tölvuleikjum.

Er þú með bakgrunn í íþróttum?

Já, ég æfði fótbolta frá 4ja ára aldri þangað til að ég hætti 16 ára vegna meiðsla.

Fyrir hvað stendur Primal?

Hjá Primal iðkum við líkamsrækt á þann hátt að hreyfigeta er í hávegum höfð.

Í staðin fyrir að endurtaka einfalda hreyfiferla aftur og aftur með meiri og meiri þyngd, flækjum við frekar þær æfingar sem við getum nú þegar á skemmtilegan og fjölbreyttan hátt.
Þ.a. í staðin fyrir að halda bara planka lengur eða gera fleiri armbeygjur, þá lærum við að skríða, gera aðrar útfærslur af armbeygjum og svo lengi mætti telja. Þetta á svo við um allar hreyfingar, hvort sem að það eru styrktar, liðleika eða jafnvægisæfingar.

Fyrir vikið öðlast okkar iðkendur líkama sem að getur tekist á við margskonar verkefni bæði á æfingu og í daglegu lífi.

Einkunnar orð okkar eru ,,Frelsi í eigin líkama’’.

Afhverju byrjaðir þú að kenna fólki að standa á höndum?

Eftir að hafa stundað nám við eðlisfræði í mörg ár kynntist ég líkamsþyngdaræfingum, teygjum og fleiru.

Af einhverjum ástæðum fékk ég gífurlegan áhuga á því að læra að standa á höndum.

Fyrir u.þ.b. 4 árum tókst mér loksins að standa á höndum og eftir það var ekki aftur snúið. Síðan þá hafa æfingarnar aðeins aukist og í dag stend ég á annarri hönd, fetti mig og bretti á hvolfi og æfi u.þ.b. 3 klst 5-6 daga vikunnar.

Ef ég get ekki staðið á höndum núna mun ég pottþétt geta það þegar ég er búin á námskeiði hjá þér?

Það er erfitt að segja til um það því að byrjundarreitur hvers og eins skiptir gríðarlegu máli.

Þannig hefur fólk komið á námskeiðið og lært að standa á höndum á örstuttum tíma en fyrir aðra gæti það tekið marga mánuði að læra.

Ég tel þó alla geta lært að standa á höndum ef undirbúningsvinnan er unnin rétt.

Handstaðan krefst bæði styrks, liðleika og einbeitingar. Ef að það vantar eitthvað upp á þessa þrjá hluti, þarf að bæta það áður en unnið er í jafnvæginu.

Ef að þessir þrír hlutir eru til staðar, er oftast lítið mál að kenna fólki að halda jafnvægi.

Handstaðan er nefnilega keimlík því að standa í fæturnar og því þarf oft ekki meira en að virkja rétta vöðva og benda fólki á hvað þarf að nota til þess að halda jafnvæginu. Flestir hafa hreinlega enga reynslu í því að halda jafnvægi með höndunum og því er það oft erfiðasta og tímafrekasta skrefið.

Eru námskeiðin ykkar fyrir alla?

Við erum með eitthvað í boði fyrir alla og við mætum iðkendum okkar þar sem að þau eru í dag.

Það þýðir að hver og einn fær æfingar við hæfi sem að okkar mati skila sem mestum bætingum miðað við þeirra getustig.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Geymist ekki í ísskáp en ég á líklegast alltaf þrjár tegundir af einhverskonar hnetusmjöri.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Indverskur matur hefur lengi verið í miklu uppáhaldi og er Shalimar þar efst á lista hjá mér.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Eins og er, er ég að lesa ,,A Guide to Better Movement’’ eftir Todd Hargrove. Uppáhaldsbækurnar mínar kallast Malazan Book of the Fallen eftir kanadíska rithöfundinn Steven Eriksson.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Einhver blanda af ís og súkkulaði.        

Hvað segir þú við sjálfan þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ég hef alltaf trúað því að það liggi engir ofurkraftar bakvið það að geta vissa hluti. Oftar en ekki er mun mikilvægara að hreinlega reyna og gera sitt besta.

Ef að einhverjum öðrum tókst það sem þú ætlar að reyna við, þá ætti ekkert að vera til fyrirstöðu þess að þú getir það sama.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Vonandi á mjög svipuðum stað í dag. Ég hef gífurlega gaman af því sem ég er að gera í dag og vona að ég geti haldið því áfram svo lengi sem að ég hef getu og gaman af.