Fara í efni

Hvers vegna að leggja baunir í bleyti

Hvers vegna að leggja baunir í bleyti

Heilkorn og baunir innihalda mikið af virkum lektínum og eru því yfirleitt ekki borðuð hrá. Lektín eru margvíslegar gerðir af sykurbindandi prótínum sem er að finna í öllum plöntum. Þau eru ómeltanleg og geta valdið eituráhrifum. Einkenni eitrunar af völdum lektína eru frá vægum einkennum óþæginda frá meltingarfærum s.s. uppþembu og gasmyndunar til ógleði, uppkasta og niðurgangs.

Huga þarf að réttri meðferð matvælanna við tilreiðslu, því gera þarf lektínin óvirk eða losna við þau fyrir neyslu. Til þess hafa verið notaðar ýmsar aðferðir svo sem að leggja í bleyti, elda við háan hita, gerja eða láta spíra.

Þurrkaðar baunir eru yfirleitt lagðar í bleyti fyrir suðu. Að leggja í bleyti í miklu vatni yfir nótt og skipta jafnvel um vatn nokkru sinnum er góð leið til þess að losna við og draga úr virkni lektína. Sjóða baunirnar síðan í fersku vatni skv. leiðbeiningum á pakkningu.

Baunir hafa það orðspor á sér að valda magaónotum og vindgangi. En ef meðferð þeirra er rétt á að vera hægt að losna við þessi ónot með öllu.