Fara í efni

VIÐTALIÐ: Bergljót Jóhannsdóttir er leikskólastjóri í Jörfa

Lestu flott viðtal við leikskólastjóra í Jörfa.
VIÐTALIÐ: Bergljót Jóhannsdóttir er leikskólastjóri í Jörfa

Flott viðtal við Bergljótu leikskólastjóra, hún fræðir okkur um mataræði barnanna í Jörfa ásamt því að segja örlítið frá sjálfri sér.

 

Fullt nafn: 

Bergljót Jóhannsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu?

Ég er fædd 1956 og er alin upp í Reykjavík. Ég hef búið í Grafarvogi í 27 ár er gift Einari Þórðarsyni tölvunarfræðingi og eigum við þrjú uppkomin börn frá 27-39 ára og eitt barnabarn, hana Emelíu 2 ára sem er í Jörfa.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1988 og fór þaðan í framhaldsnám í Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist með diplóma í uppeldis og menntunarfræðum árið 2003. Ég starfa sem Leikskólastjóri í Jörfa sem er í Bústaðahverfinu í Reykjavík.

Hvernig er matarmálum háttað á þínum leikskóla, matreiðið þið sjálf eða kaupið þið mat annarsstaðar frá. Er það algengara eða hitt að það sé matreitt á staðnum í leikskólum í Reykjavík?

Í Jörfa er allur matur eldaður frá grunni og erum við með konu sem er menntaður  matreiðslumeistari. Það er aðeins að breytast að leikskólar eru að kaupa mat annars staðar frá þar sem það hefur verið mjög erfitt að fá starfsfólk í eldhúsin. En flestir leikskólar elda á staðnum.

Ef þið matreiðið á staðnum hverjir sjá um það? Gerið þið eitthvað til að styðja við starfsmennina í eldhúsinu til að auka þekkingu þeirra, ef já, hvað þá helst?

Við erum svo heppin í Jörfa að vera með mjög hæfan matreiðslumeistara sem eldar allan mat og er frekar sjálfstæð. Ég reyni að styðja hana eins og hægt er og bendi henni á spennandi námskeið í matreiðslu. Hún fór um daginn á tveggja daga bóklegt og verklegt námskeið um fæðuofnæmi barna á vegum Astma- og ofnmisfélags Íslands.

Hvernig er matseðillinn á þínum leikskóla ákvarðaður og geta foreldrar haft áhrif á það?

Við höfum verið með matarfundi tvisvar á ári, tveir deildarstjórar og leikskólastjóri og ætlum að leyfa börnunum að koma inn í það. Foreldrar hafa ekki enn haft áhrif en geta það.

Er brauð á þínum leikskóla heimabakað?

Allt brauð er heimabakað og margar tegundir.

Hafið þið eitthvað fast skipulag á því hvað er í matinn til dæmis á mánudögum og föstudögum?

Já, á mánudögum er alltaf súpa og brauð og á föstudögum er eitthvað létt eins og pizza, píta eða pasta.

Nýverið voru fæðisgjöldin í leikskólum Reykjavíkur hækkuð, hvaða máli skipti þetta fyrir ykkur og hvað gátuð þið gert meira og betur?

Við höfum bara verið með mjög kjarngóðan mat og munum halda því áfram. Matreiðslumeistarinn skipuleggur sig vel, nýtir vel hráefni og allan mat og hendir engu.

Taka börnin þátt í að matreiða eða baka?

Nei það hefur ekki verið nema þau hafa fengið að baka bollur fyrir opið hús eða foreldrakaffi.

Hvað er vinsælasti maturinn á leikskólanum þínum?

Fiskur hefur verið vinsæll og einnig pizza og grjónagrautur.

Hvað fá börnin í morgunhressingu og síðdegishressingu?

Alltaf hafragrautur með rúsinum og kókóskanil í morgunmat. Í síðdegishressingu er brauð fjóra daga í viku með tveimur tegundum af áleggi og einu sinni í viku er hrökkex með osti.

Hvernig er afmælum barnanna fagnað?

Börnin mega koma með ávexti að heiman og bjóða vinum sínum.

Hver er þín reynsla, er maturinn mjög mismunandi milli leikskólanna í hverfinu sem Jörfi tilheyrir?

Ég hef ekki kynnt mér það en veit að einn leikskóli fær aðkeyptan mat frá ISS.

Hvernig er málum háttað þegar barn með fæðuofnæmi er innritað á leikskólann. Hafið þið tiltekið ferli við að taka á móti barninu og tryggja öryggi þess? 

Já, foreldrar þurfa að skila inn vottorði ef barn er með fæðuofnæmi. Mynd af viðkomandi ofnæmisbarni er inni á deild og í eldhúsinu eru myndir af öllum ofnæmisbörnunum og skrifað við myndina hvaða ofnæmi viðkomandi barn er með. Þannig tryggjum við öryggi barnanna.

Aðeins um sjálfa þig:

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég er syng í kór, starfa með Lions, hef einnig áhuga á bókalestri og alls konar útivist.

Stundar þú einhverja heilsurækt?

Já ég labba mikið á sumrin og fer í líkamsræktarstöð á veturnar. Mér finnst líka gott að fara í sund.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Mjólk, ost, smjör og ávexti.

Hver er þinn uppáhaldsmatur í vinnunni á leikskólanum Jörfa?

Fiskiklattar með lauk og kartöflum.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Uppáhaldsmatur heima eru nautalund og rjúpa. Saffran er uppáhalds veitingahúsið, fer oftast þangað. 

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Já ég er að lesa Djöflaeyjuna, besta bók sem ég hef lesið er Salka Valka.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Fer í nudd, sund og fæ mér svo eitthvað gott að borða.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Þetta verkefni kom til mín og það verð ég að leysa.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Ég sé mig í Jörfa, þá á ég um það bil tvö ár eftir í eftirlaun.