Fara í efni

Bakað eggaldin frá Mæðgunum

Þessa dagana eru til ofsalega falleg og góð eggaldin í búðunum. Við höfum meira að segja rekist á íslensk eggaldin nýlega.
Bakað eggaldin frá Mæðgunum

Þessa dagana eru til ofsalega falleg og góð eggaldin í búðunum. Við höfum meira að segja rekist á íslensk eggaldin nýlega.

Ofnbakað eggaldin finnst okkur virkilega ljúffengt.

Okkur finnst gott að nota bakaða eggaldin helminga sem grunn sem við fyllum af því góðgæti sem við eigum til þann daginn.

Svona á sama hátt og margir baka pizzu á hverjum laugardegi, en setja ekki alltaf sama álegg í hvert skipti. Klassíski eggaldinrétturinn okkar er Eggaldin með hnetu- og kryddjurtapestó sem við höfum stundum haft sem hátíðarrétt. En fyrir hversdagslegri útgáfu skellum við einfaldlega eggaldinhelmingum í ofninn og setjum það sem við eigum til eða langar í ofan á. Í þetta sinn fékk rétturinn á sig svolítið mexíkóskan blæ, með baunum, avókadó, kóríander og djúsí kasjúhnetusósu.

Galdurinn við gott eggaldin er að leyfa því að bakast alveg í gegn og verða vel mjúkt og kremað innan í, en fallega brúnt utan á. Ef eggaldinið er ekki nógu vel bakað þá verður áferðin frekar óspennandi, sem er synd því vel bakað bráðnar það í munni. Gott er að skera rákir í eggaldinkjötið til að baksturinn heppnist vel.

Okkur langaði í eggaldin með svörtum baunum, sætum kartöflum, avókadó og kóríander, og svo auðvitað djúsí sósu. Svo áttum við til alveg ótrúlega litfagurt rauðkál sem okkur fannst hækka fegurðarstuðulinn, en það er ekki nauðsynlegt að kaupa heilan rauðkálshaus bara fyrir þessa uppskrift.

Við notuðum líka rómaneskó, sem er ættingi brokkolís og blómkáls, vegna þess að okkur finnst það svo fallegt. En ættingjarnir eru alveg jafn góðir í þennan rétt, þar sem rómaneskó er ekki alltaf til á hverju heimili. 

Bakað eggaldin

Eggaldin

2 eggaldin, skorin í tvennt
2 msk ólífuolía
1 msk sítrónusafi
1 tsk timian
½ tsk salt
smá nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Skerið hvert eggaldin í tvennt og skerið í sárið rákir á ská.
  2. Hrærið saman olíu, sítrónusafa, timian, sjávarsalt, pipar og pennslið eggaldinin.
  3. Setjið í ofnskúffu og bakið við 200° í 35mín.
  4. Á meðan eggaldinin eru að bakast í ofninum er tilvalið að undirbúa fyllinguna og sósuna.
  5. Látið eggaldinin kólna smá stund áður en fyllingin er sett á.

Fylling

100g bakað grasker eða sæt kartafla (bakið við 200°C í 15 mín - lengur ef bitarnir eru þykkir)
75g romanesko, litað blómkál eða brokkolí, skorið í “blóm” og steikt á grillpönnu í 2-3 mín
nokkrir mjög þunnt skornir rauðkálsstrimlar
2 avókadó, stöppuð með smá sítrónusafa og sjávarsalti
50g soðnar svartar baunir (við notuðum úr dós)
50g soðið kínóa
nokkrar pístasíuhnetur, gott að þurrista á pönnu í 2-3 mín
2 msk ferskur kóríander

Aðferð

  1. Skerið niður sæta kartöflu/grasker og bakið með eggaldininu í síðustu 15-20 mínúturnar.
  2. Finnið allt hráefnið til og útbúið því næst kasjúsósuna.

Kasjúsósa

2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
½ dl vatn
¼ dl límónusafi
2 döðlur, smátt saxaðar
2 tsk næringarger
1 tsk laukduft
1 hvítlauksrif
bragðist til með sjávarsalti

Aðferð

  1. Setjið allt í blandara og blandið þar til silkimjúkt. Ef þetta er of þykkt má þynna með smá vatni, en passið að setja ekki of mikið vatn því þá verður blandan of þunn. 

Njótið!