Fara í efni

Heilsutorg tók viðtal við Fríðu Rún Þórðardóttur næringarfræðing og hlaupara þar sem við spurðum út í notkun á íþróttadrykkjum - þriðji og síðasti hluti

Hvað eru orkudrykkir?
Heilsutorg tók viðtal við Fríðu Rún Þórðardóttur næringarfræðing og hlaupara þar sem við spurðum út …

Eru einhverjir íþróttadrykkir betri, hollari, en aðrir?

Sykurminni íþróttadrykkirnir eru hollari að því leitinu að þeir innihalda minni magn af sykri í 100ml en svo er spurning hvort að jafn mikið sé drukkið af þeim eða hvort að magnið sé meira til að fullnægja kolvetna- og orkuþörfinn. Einnig er spurning hvort að sætuefnin séu hollari en sykurinn. Besti íþróttadrykkurinn er vatn þegar álagstíminn er ekki of langur og álagið er ekki of mikið. Hins vegar má útbúa heimagerðan íþróttadrykk úr vatni og hreinum eplasafa, í 50-50 hlutföllum og bæta í það nokkrum saltkornum. Þannig næst um það bil 6,4 % styrkleiki sem fellur innan 4-8% viðmiðsins sem við höfum varðandi styrk kolvetna í drykk sem nota á fyrir og við átök.

Hvers vegna er neyslan á íþróttadrykkjum eins mikil og raun ber vitni?

Það er líkast til þessi mikla auglýsing sem þeir fá og tengd er við íþróttaiðkun og heilsurækt, það er markaðsöflin. Það er líka eitt í þessu og það er hvernig nafnið íþróttadrykkur er notað, íþróttadrykkur er notað um fleira en kolvetnadrykki og fólk er oft að gera samasem merki þarna á milli. Til dæmis vara sem auglýst er sem íþróttadrykkur, og er ekki kolvetnadrykkur heldur blanda af próteinum og kolvetnum, slíkur drykkur er í raun fljótandi máltíð (en: meal replacemet). En já, bragið er gott, það hvetur fólk til að vilja drekka drykkina umfram vatn. Kolsýrðir drykkir með bragðefnum (ósykraðir) passa oft illa við heilsurækt vegna kolsýrunnar og hvað þá við átök þannig að flatir íþróttadrykkir verða fyrir valinu í staðinn.

Áttar fólk sig á magni sykurs og kolvetna í þessum drykkjum, eða telur fólk að þeir séu hreinlega hollir sökum þess að þetta eru íþróttadrykkir?

Margir átta sig ekki á sykurmagninu og já, af því að þetta er kallað „íþrótta“ og er í boði í íþróttamannvirkinu eða heilsuræktarstöðinni sem þeir sækja og hlaup eru merkt með íþróttadrykkja vörumerki þá eiga sumir erfitt með að átta sig á þessari staðreynd. En enn og aftur, það má nota íþróttadrykki í hófi, bara vega og meta aðstæður í hvert sinn sem og markmiðið með hreyfingunni en ekki aðeins horfa á fallegan brúsann með bláa drykknum í.

Þú hleypur sjálf, neytir þú íþróttadrykkja?

Ég nota aldrei íþróttadrykki eða kolvetnagel núna. Ástæður, þarf ekki á því að halda miðað við tímalengd minna æfinga. Annað er að ég er ekki með besta magann er snýr að máltíðum fyrir keppni og vill helst keppa kl. 10/11 að morgni og ÞURFA bara að borða einu sinni. Kvöld keppnir eru mér mjög erfiðar. Hins vegar ef allt gengur eftir og ég verð meiðslalaus og næ markmiðinu mínu um að keppa í hálfu maraþoni í október þá verð ég að taka nokkra æfingatúra í haust þar sem ég fer með gel og vatn og prófa mig áfram. Er farin að spyrja félagana, t.d. Kára Stein hvað hann noti og ætla að prófa mig fram því þó svo að ég geti hlaupið 10km keppninshlaup (sem er það lengsta sem ég er að keppa í í dag) án þess að drekka þá gæti ég ekki hlaupið mikið lengra en það án þess.

Höfundur greinar:

Fríða Rún Þórðardóttir