Fara í efni

Tannverndarvika 1. – 5. febrúar 2021

Tannverndarvika 1. – 5. febrúar 2021

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 1.-5. febrúar 2021 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að heilsunni. Áhersla verður á súra orkudrykki sem innihalda koffín en öll þurfum við að vera betur upplýst um skaðleg áhrif orkudrykkja bæði á almenna heilsu og tannheilsu ungmenna.


Aðgerða er þörf svo draga megi úr neyslu á orkudrykkjum, sem innihalda koffín en neysla íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Þá eru auk þess vísbendingar um að ungmenni geti keypt orkudrykki með mjög háu koffín magni, sem ekki er leyfilegt að selja einstaklingum yngri en 18 ára. Neyslan eykst með hækkandi aldri en einn af hverjum þremur í 8. bekk og um helmingur í 10. bekk segjast drekka orkudrykki.

Ungt fólk virðist í auknum mæli velja þessa drykki í þeirri trú að þeir séu hollir og stuðli að hreysti. Auðvelt er að draga þá ályktun þegar um sykurlausan vítamínbættan drykk er að ræða. Það er hins vegar staðreynd að allir orkudrykkir eru „súrir" sem þýðir að sýrustig þeirra er lágt (pH< 5.5) og því hafa þeir allir glerungseyðandi áhrif á tennur. Bæði sætir og sykurlausir orkudrykkir leysa upp glerung tannanna, sem þynnist og eyðist og myndast ekki aftur. Vandinn getur náð yfir allar tennurnar, sem verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum. Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi.

Í tannverndarviku eru stjórnendur verslana hvattir til að huga að framboði, aðgengi og markaðssetningu orkudrykkja sem innihalda koffín. Stjórnendur grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast orkudrykkjum.

Eftirfarandi fræðsluefni verður aðgengilegt í streymi á vefsíðu embættis landlæknis í tannverndarviku:

Orkudrykkur– draumur í dós eða hvað? Opnast í nýjum glugga
Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur

Hvernig getum við komið í veg fyrir glerungseyðingu tanna Opnast í nýjum glugga.
Íris Þórsdóttir, tannlæknir

Orkudrykkir eru óþarfi. Opnast í nýjum glugga
Pálmar Ragnarsson, körfuboltaþjálfari

Að venju eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar.

Hólmfríður Guðmundsdóttir,
tannlæknir