Fara í efni

Veltum fyrir okkur tilganginum - hugleiðing dagsins og góða helgi

Veltum fyrir okkur tilganginum - hugleiðing dagsins og góða helgi

„Tilgangurinn helgar meðalið“

Við eigum þetta fína orðtak á íslensku og notum það oftast til að gagnrýna þann sem svífst einskis til að ná fram tilteknum niðurstöðum, t.d. þann sem lýgur og svíkur í „góðum“ tilgangi. Við skiljum þessa orðanotkun vel.

Ég er sammála sjálfri fullyrðingunni um að tilgangurinn helgi meðalið. En þó ekki í sama skilningi og við leggjum venjulega í orðtakið. Tilgangurinn hefur áhrif á „meðalið“ sem við beitum á okkur sjálf og heiminn. Tilgangurinn er grunnforsendan sem við gefum okkur – stundum í fullri vitund og stundum án vitundar – og allar gjörðir okkar sem byggja á þessari forsendu litast af henni. Það er óhjákvæmilegt.

Það er lögmál. Tilgangurinn helgar þitt meðal.

Við þurfum því að setjast niður og velta fyrir okkur tilganginum:

Hvað vakir fyrir okkur?
Hvaða áhrif ætlum við að hafa á okkur sjálf og umhverfi okkar?
Hverju ætlum við að koma til leiðar í lífinu?
Er líf mitt í dag byggt á mínum tilgangi? Mínum gildum?
Er líf mitt í dag innblásið af innri þrá til að skapa eigin örlög og hafa áhrif á heiminn? Eða er ég hérna „af því bara“?

Þetta eru stórar spurningar. Og þú getur svarað þeim þegar þú hefur öðlast heimild – hjá þér – til að svara þeim. Þegar þú leyfir þér að setja spurningarmerki við það hvernig þú hefur lifað lífinu hingað til.