Fara í efni

Orkusugan - Guðni og hugleiðing dagsins

Orkusugan - Guðni og hugleiðing dagsins

Af hverju erum við þá svona þreytt? Af því að við erum svona þreytandi. Einfalt mál. Svona gjömmum við á okkur í huganum og förum í gegnum krefjandi verkefni lífsins með orkusuguna sjálf okkur í farteskinu.

Hljómar þetta kunnuglega?

Eða kannastu ekki við orkusuguna? Einstaklinginn sem þér finnst erfitt að vera nálægt? Ert þú þín eigin orkusuga? Ormur sem étur sjálfan sig? Hundur sem eltir skottið á sjálfum sér? Manneskja sem borðar ruslfæði til að geta fitnað til að geta fengið sektarkennd og lágt sjálfsmat til að geta keypt tilboð í líkamsræktina til að komast í „kjólinn fyrir jólin“ til að geta harkað sér í gegnum líkamsræktina í nokkrar vikur til að geta aftur farið að borða ruslfæði?

Þetta er ekki auðveld umræða. Og ég vil ekki dæma, ekki nokkra einustu mann- eskju. Allar manneskjur framkvæma það sem þær framkvæma vegna þess að einhver ástæða er fyrir því – og það er allt gott og rétt.

En svona er ég sjálfur þegar ég lifi í skekktum forsendum skortdýrsins en ekki út frá söng hjarta míns. Svona var ég lengi vel og get ennþá orðið þegar ég gæti ekki að því að lifa lífinu á eigin ábyrgð. Allt í þessum skrifum á við sjálfan mig líka – hafðu það alveg á hreinu. Og mér fannst ekkert auðvelt að horfast í augu við þennan sannleika. En ég hef lært að elska þennan sannleika. Þegar ég skildi máttinn sem ég bý yfir og að ég get valið annað en vansæld þá varð ég mjög glaður. Glaður, hamingjusamur og frjáls.

Með sjálfum mér, til fulls. Í stuðningi við sjálfan mig, líka þegar ég gerði „mistök“.