Fara í efni

Að vera fordæmi - Guðni með hugleiðingu dagsins

Að vera fordæmi - Guðni með hugleiðingu dagsins

Hver er tilgangur minn sem faðir?

„Ég elska börnin mín“

Að vera fordæmi sem synir mínir geta nýtt sér þegar þeir kjósa að gera það – en fyrst og fremst að skilja að við erum öll ólík og að ég þurfi að rækta kosti sona minna án þess að þvinga mínum vilja eða óskum upp á þá.

Hver er tilgangur minn sem sonur?

„Ég elska foreldra mína“

Að læra að meta foreldra mína fyrir þeirra framlag og hætta þeim leik sem fylgir æskunni að skammast sín fyrir foreldrana. Að skilja að ég er ekki foreldrar mínir, nema að því leyti sem við veitum því athygli sem við viljum ekki, eða því sem við viljum. Að koma fram við foreldra mína af alúð og einlægni og meta þeirra framlag til uppvaxtar og þroska, án áhengja.

Hver er tilgangur minn sem starfskraftur?

„Ég er ljós og orka í starfi mínu“

Að virða það umhverfi sem veitir mér atvinnu og vera heiðarlegur með mitt framlag. Að leggja mig fram þannig að bæði atvinnurekandi og ég njóti jafnvægis og blómstri saman. Sem starfskraftur er ég ekki duglegur – því það orð vísar aðeins til þess að ég sé líklegur til dugnaðar. Ég er hins vegar dugandi – ég hef dug og er innblásinn af þeim anda og þeirri ástríðu sem ég deili með öðrum.

Hver er tilgangur minn gagnvart líkamanum?

„Ég þjóna líkamanum til að þjóna anda mínum“

Líkaminn er farartæki sálarinnar og minn tilgangur er að skilja að líkami minn er musteri. Ég nálgast hann af sömu alúð og virðingu og ég myndi nálgast það allra helgasta. Tilgangur minn er að þjóna líkama mínum þannig að hann þjóni anda mínum.