Fara í efni

Ráðleggingar varðandi skólatöskuna til að koma í veg fyrir bakverki og stoðkerfisvandamál hjá börnum

Því miður þekkist það að börn finni til verkja í baki á skólagöngu sinni, allt frá unga aldri. Þungar og jafnvel rangt stilltar skólatöskur geta haft neikvæð áhrif á stoðkerfi nemenda á öllum aldri. Yngstu nemendur okkar, í grunnskólum, gera sér ekki endilega sjálfir grein fyrir því að huga þarf að ýmsum atriðum þegar kemur að því að ganga með tösku nær daglega.
Ráðleggingar varðandi skólatöskuna til að koma í veg fyrir bakverki og stoðkerfisvandamál hjá börnum

Því miður þekkist það að börn finni til verkja í baki á skólagöngu sinni, allt frá unga aldri. Þungar og jafnvel rangt stilltar skólatöskur geta haft neikvæð áhrif á stoðkerfi nemenda á öllum aldri. Yngstu nemendur okkar, í grunnskólum, gera sér ekki endilega sjálfir grein fyrir því að huga þarf að ýmsum atriðum þegar kemur að því að ganga með tösku nær daglega. Skólatöskur eru oft fullar af þungum kennslubókum, tölvum, tækjum og öðrum hlutum sem nýttir eru skólastarfinu. Ef ekki er brugðist við á viðeigandi hátt getur þetta haft stórkostleg áhrif á lífsgæði barns með til dæmis myndun á bakverk, vöðvabólgu eða höfuðverk. Sem betur fer er hægt að gera ráðstafanir sem hjálpa til við að komast hjá slíkum verkjum.

Létt taska
Fyrsta reglan er að hafa bakpokann eins léttan og hægt er hverju sinni. Góð þumalputtaregla er að bakpoki ætti ekki að vera þyngri en um 10% af heildarþyngd barns. Óneitanlega eru skólabækur þyngstu hlutir skólatöskunnar. Að sjálfsögðu eru þær mikilvægar en við mælum með því að skoða daglega hvaða bækur og gögn eru nauðsynleg að hafa í töskunni hvern dag og þannig takmarka innihald töskunnar hverju sinni. Því léttari sem skólataskan er, því minni líkur á verkjum hjá barninu.

Staðsetja hluti í töskunni
Staðsetning hluta í skólatöskunni getur einnig skipt sköpum þegar kemur að því að bera skólatösku daglega. Stórar ferkantaðar bækur eru vænlegar aftast í töskunni eða næst bakinu og geta þannig myndað hálfgerðan stuðning við bakið. Mikilvægt er að skorða hlutina vel í töskuna svo þeir séu stöðugir og þar af leiðandi ekki á fleygiferð í töskunni. Einnig er mikilvægt að vera meðvituð um að geyma skæri, oddhvassa blýanta og fleiri sambærilega hluti í góðu pennaveski svo þeir stingi ekki í bak barnsins.

Staðsetning og gerð töskunnar
Skólatöskur ættu að vera í réttri stærð í samræmi við bak barnsins sem notar hana, það er bæði í lengd og breidd. Eftir því sem taskan hangir neðar á baki barns, myndast meiri spenna og þrýstingur á axlir. Það getur haft áhrif á líkamsstöðu barns ef axlirnar eru stöðugt dregnar niður. Það getur myndað álag á liðbönd, sinar og hryggjaliði, sem getur leitt til langvarandi bak-, háls- eða axlarverkja sem dæmi. Þær skólatöskur sem eru með smellur yfir bringu og/eða mitti gefa aukinn stuðning ef þær eru rétt notaðar og stilltar. Einnig er gott að hafa axlarólar vandlega bólstraðar svo þær skerist síður í axlir barns.

Skipulag í skólatöskum
Það er mikilvægt að foreldrar, forráðamenn, kennarar og aðrir sem koma að daglegu lífi grunnskólabarna séu meðvituð um að staðsetning og skipulag á skólatösku barns getur skipt sköpum fyrir stoðkerfi þess. Auðvitað á þetta sérstaklega við um yngri börn grunnskóla sem ekki endilega gera sér sjálf grein fyrir því hversu miklu máli þetta skiptir. Börn eiga það til dæmis til að gleyma sér, láta töskuna hanga á annarri öxlinni eða henda dótinu óskipulega ofan í töskuna. Gott er að fræða börn strax um mikilvægi þess að vera meðvituð um þessa þætti til að hámarka vellíðan og hlúa að stoðkerfi þeirra. Verðugt er að spá daglega í öllum þessum þáttum sem nefndir hafa verið hér að ofan því þannig er auðveldlega hægt að hafa jákvæð áhrif á líf og vellíðan barns á uppvaxtarárum.

 

A picture containing logo

Description automatically generated