Fara í efni

Góð ráð til að draga úr bakverkjum í bílferðinni

Nú eru ef til vill margir á leið út á land í páska- og/eða jafnvel sumarfrí. Oft getur frí innihaldið mikinn akstur og þar með mikinn setutíma. Hér ætlum við að koma með nokkur góð ráð sem hafa reynst okkur vel og er gott að hafa í huga til þess að gera bílferðina bærilegri, bæði til þess að fyrirbyggja bakverki og halda þeim í skefjum ef þeir eru til staðar fyrir.
Verkir í baki geta verið slæmir
Mynd: Shutterstock
Verkir í baki geta verið slæmir Mynd: Shutterstock

Nú eru ef til vill margir á leið út á land í páska- og/eða jafnvel sumarfrí. Oft getur frí innihaldið mikinn akstur og þar með mikinn setutíma. Hér ætlum við að koma með nokkur góð ráð sem hafa reynst okkur vel og er gott að hafa í huga til þess að gera bílferðina bærilegri, bæði til þess að fyrirbyggja bakverki og halda þeim í skefjum ef þeir eru til staðar fyrir.

 

Stöðva reglulega, standa upp og hreyfa sig:

Það að sitja í sömu stellingunni til lengri tíma getur verið ávísun á bakverki. Nauðsynlegt er að stoppa sem oftast og hreyfa sig svo að vöðvar og liðir stirðni ekki upp og valdi krampa, verkjum eða öðrum óþægindum. Gott er að setja niður markmið, til dæmis að keyra ekki lengur en í tvo tíma í senn og standa upp og hreyfa sig í að minnsta kosti 15 mínútur fyrir hverjar tvær klukkustundir. Slíkt getur komið auknu blóðfæði af stað og næringu og súrefni til vöðvana. Þegar tækifæri gefst, þá er gott að breyta um stellingu og hreyfa sig í sætinu. Jafnvel bara taka tíu sekúndna teygju eða hreyfingu í sætinu. Einnig er gott að hreyfa fæturna til, fá hreyfingu í ökkla og kálfa.

Þægindi í upphafi ferðar:

Gott er að taka ágætan tíma til þess að koma sér vel fyrir um leið og bílferðin hefst. Þó svo að óþægindi gætu verið lítil í upphafi ferðar geta þau aukist hratt og leitt til mikils sársauka síðar í ferðinni. Mikilvægt er að hafa það í huga að sitja með bakið beint, hnén örlítið hærri en mjaðmirnar og tylla hökunni inn á við svo þungi höfuðsins hvíli beint fyrir ofan hrygginn. Bílstjórar ættu svo að stilla sætið á þann hátt að setið er ekki of nálægt né of langt frá stýrinu, það getur sett auka álag á

hendur, bak, axlir og úlnliði. Auðvitað á svo að fjarlægja auka hluti úr vösum, svo sem veski úr rassvasa og fleira. Ein stelling getur þó ekki virkað fyrir alla og því mikilvægt að finna hvað hentar hverjum og einum best.

Stytta sér stundir:

Löng bílferð getur verið mjög lengi að líða en vel er þó hægt að stytta sér stundir með ýmsum hætti. Fyrst og fremst ætti maður að reyna að hafa félagsskapinn góðan, hlusta á góða tónlist, hafa gott hlaðvarp eða hljóðbók í útvarpinu og fleira. Ef börn eru með í för er mikilvægt að vera búin að skipuleggja afþreyingu fyrir þau á leiðinni. Börn hafa einnig gott af því að stoppa reglulega, teygja úr sér, hreyfa sig og eyða smá orku inná milli.

Stuðningur við bakið:

Hryggjasúlan fær góðan stuðning úr fótunum og mikilvægt er að huga að því í löngum bílferðum. Gott getur verið að gæta þess að hafa fætur þétt í gólfi á hörðu undirlagi. Eins og áður kom fram á einnig að huga að því að fæturnir eru í réttri hæð, þ.e. hnén örlítið hærra en mjaðmirnar. Í þeim bílum, sem hægt er að nota „cruise control“ er kjörið að nýta sér það. Holur í vegi og ójafn vegur getur auðveldlega sett líkamsstöðu okkar úr jafnvægi og valdið óþægindum í baki. Ef keyrslan krefst þess að keyra slíka vegi mælum við með að fara rólega, sitja ofan á púða, gæta vel að loft sé rétt stillt í dekkjum, demparar í lagi og fleira. Þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægast að við erum meðvituð um okkar heilsu í löngum bílferðum eins og í öðrum daglegum verkefnum.

Greinina má lesa í fullri lengd á: https://www.kiro.is/lfsstll/2019/12/30/7-g-r-fyrir-bakveika-til-a-gera-blferina-brilegri