Fara í efni

Viðtalið - Bryndís Óskarsdóttir

Viðtalið - Bryndís Óskarsdóttir

Bryndís Óskarsdóttir býr á Skjaldarvík, rétt utan við Akureyri og held ég svei mér þá að hún eigi fáa rólega daga. Hún rekur gistiheimili á Skjaldarvík ásamt manninum sínum, honum Ólafi Aðalgeirssyni. Hún er ótrúlega hugmyndarík, bæði í eldhúsinu og öllu sem viðkemur handverki og endurnýtingu en árið 2020 stofnaði hún Klúbbinn - Úr geymslu í gersemi sem segir meira en mörg orð. Hér kynnumst við Bryndísi Óskars, örlítið betur. 

 

Fullt nafn: Bryndís Óskarsdóttir  

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:  
Ég myndi lýsa sjálfri mér sem orku mikilli hugmyndaríkri konu, eiginkonu, mömmu og ömmu sem 
elska að láta drauma sína rætast. Ég myndi segja að ég væri “dúer” þ.e. Ef mér dettur eitthvað í hug þá er ég vön að vaða í hlutina… sumir myndu kannski segja að ég gæti verið fljótfær, en 
ein uppáhalds setningin mín er “better done than perfect” því ég er viss um að ég myndi alltaf vera 
að rannsaka allt út í hið óendanlega og þá myndi ekkert gerast hjá mér :) 
Ég er grafískur hönnuður matartæknir og markþjálfi að mennt auk þess sem ég hef tekið fjöldann 
allan af námskeiðum í sjálfsrækt. Ég elska að nýta og nota og gefa hlutum nýtt líf og sama má segja um mat, mér finnst alveg óskaplega gaman að finna nýjar leiðir til að nota 
hráefni/afganga og búa til eitthvað nýtt úr því.  

Hver er þín helsta hreyfing?  
Morgungöngur, Zumba og svo er ég nýbúin að eignast rafmagnsfjallahjól sem ég stefni á 
að nota mikið í sumar og skoða landið á. 

Hver eru þín helstu áhugamál?  
Mér finnst alveg brjálæðislega gaman að ferðast, svo elska ég að dansa Zumba 
og öll sköpun og matargerð kemur líka sterk inn.  

Þú ert dugleg að ferðast, áttu þér uppáhalds áfangastað?  
VÁ þetta er erfið spurning… Svoo margir staðir sem ég hef farið til sem eru ógleymanlegir… 
en ég held ég verði að nefna Afríku. Við hjónin fórum í ógleymanlega ferð til Kenya og Tanzaníu í 
janúar 2019 sem ég mun aldrei gleyma og eftir það fékk ég Afríkuveikina :) meinandi … 
ég verð að fara aftur eins fljótt og mögulegt er.  

Getur þú nefnt ferðalög sem standa upp úr? 
Veturinn 2018 - 2019 tókum við svaka ferðasyrpu og hver ferðin var annarri skemmtilegri… við fórum í viku siglingu 
á skútu á Grænlandi, við fórum í 8 daga ferðalag á vespum um Víetnam og svo fórum við í þessa Afríkuferð. Allar þessar ferðir voru algerlega sturlað skemmtilegar, mjög ólíkar en hver frábær á sinn hátt. 
Ég myndi fara aftur strax á morgun í allar þessar ferðir svo magnaðar voru þær. 

Dísa Óskars

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum:  
Sódavatn, engifer og Sítróna  

Hver er þinn uppáhalds matur?  
Ég elska sjávarrétti, Humar, rækjur, hörpuskel og fleira 

Áttu þér uppáhalds matsölustað?   
Hmmm, ef ég á að velja hér á Akureyri myndi ég segja Rub23, en annars er mjög erfitt 
að gera uppá milli, ég elska líka Indian curry house hér á Akureyri. 

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?   
Ég er alltaf að lesa/hlusta og er oftast með nokkrar bækur í takinu, ein sem ég er með í miklu 
uppáhaldi og nýlega búin að klára, heitir “Believe it” og er eftir Jamie Kern Lima stofnanda It cosmetics. Ég var svo heppin að sjá þessa konu á sviði í San diego fyrir rétt um 2 árum síðan og heillaðist af henni. Mæli svo sannarlega með þeirri bók, sérstaklega fyrir 
þá sem eru að reka sín eigin fyrirtæki eða eiga sér drauma um það.   

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana, tónlist/podcast?  
Ég hlusta mjög mikið á bækur og allskonar hlaðvörp einkum í tengslum við sjálfsvöxt og 
hvernig maður getur eflt sig og sitt fyrirtæki. Einnig er ég partur af hópi sem heitir Growth day og þar eru nýir fyrirlesara í hverri viku sem ég elska að hlusta á. 

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?   
Tek mér að minnsta kosti 24 tíma frí með manninum mínum og fer eitthvað í burtu, bóka 
hótel/gistihús, borða góðan mat og hleð batteríin. Þetta gerum við að minnsta kosti 3x á sumri þegar mest er að gera hjá okkur og ekki er tími fyrir langt frí. 

Dísa Óskars

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?   
Eitt skref í einu… Aðal galdurinn er að byrja, hringja fyrsta símtalið, skrifa niður hvað þarf að gera, 
eða hvað sem það er sem verkið felur í sér… bara byrja, ekki fresta, þó fyrsta skrefið sé píííínu lítið 
þá er það nú yfirleitt þannig að maður miklar hlutina fyrir sér í huganum áður en maður byrjar. 

Við hvað starfar þú í dag?  
Ég rek Ferðaþjónustu í Skjaldarvík við Akureyri, gistihús og hestaleigu auk þess sem ég held úti 
net námskeiðum og Klúbbi sem heitir Úr geymslu í gersemi.  

Segðu okkur frá Klúbbnum - Úr geymslu í gersemi:  
Klúbburinn - Úr geymslu í gersemi þróaðist upp úr samnefndu netnámskeiði árið 2020. 
Klúbburinner áskriftarklúbbur þar sem fólk hefur aðgang að sínu svæði á netinu, að myndböndum, 
prentanlegum gögnum/grafík og uppskriftum þar sem allt snýst um að breyta gömlu í nýtt. Í hverjum mánuði kemur inn nýtt efni fyrir klúbbmeðlimi með nýjum hugmyndum af einhverju 
til að breyta og bæta. Í upphafi ætlaði ég bara að hafa þetta eitt námskeið en þar sem áhuginn 
var mjög mikill og fólk vildi fá meira þá þróaðist þetta svona og alveg svakalega skemmtilegt. 
Fólk bíður spennt eftir næsta myndbandi til að sjá hvað mér dettur í hug. 

Er eitthvað sem þú finnur fyrir að er vinsælast? 
Í rauninni bara allt sem kemur að endurnýtingu og endursköpun, fólk elskar að sjá fallegar lausnir 
til að nota gamalt í staðin fyrir að kaupa alltaf nýtt. Það sem mér finnst skemmtilegast við þetta er 
að það er fullt fullt af fólki þarna úti sem hélt að það gæti ekki gert svona hluti, hefði hvorki 
hugmyndaflug né getu til þess, sem nú er farið að njóta sín í botn og skapa allskonar 
fallega muni og búa til geggjaðan mat úr afgöngum. 

Þið hjónin rekið líka Skjaldarvík Guesthouse, hvernig kom sú hugmynd til og endilega 
segðu okkur frá “conseptinu” þar:
 
Okkur hafði lengi langað til að opna einhverslags ferðaþjónustu og létum slag standa þegar Skjaldarvík
“rak á fjörur okkar” 2010. Hér hjá okkur er mjög afslappað andrúmsloft, frá upphafi höfum við reynt að
kaupa sem minnst af nýju dóti, frekar finna eitthvað gamalt sem við getum lappað uppá og gert að okkar.
Að sjálfsögðu er allt sem er næst gestinum glænýtt og fínt eins og rúmin, sængur og þess háttar.
Við elskum að stjana við gestina okkar, og eitt markmið sem ég setti mér í byrjun og hef staðið við,
er að gera sem allra mest frá grunni eins og að baka brauðin og gera sulturnar og þess háttar fyrir morgunverðinn. Gistihúsið er aðeins opið 6 mánuði á ári maí - okt.  fyrir einstaklinga en allt árið fyrir hópa og
hefur verið gríðarlega vinsælt að koma hingað með íþróttahópa í keppnisferðir og þess háttar. Þetta er
aðeins út úr bænum, frábær aðstaða og geggjaður 3x3 metra heitur pottur.
Einnig rekum við hér hestaleigu sem hefur verið mjög vinsæl yfir sumartíman. 

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?  
Ég er á frábærri vegferð þar sem ég vinn við það sem mér finnst skemmtilegast að gera það 
er að skapa og hitta fólk :) Ég er að vinna að því leynt og ljóst að verða enn frjálsari hvað varðar 
staðsetningu og geta unnið hvaðan sem er hvenær sem er og það er það sem ég sé fyrir mér að 
verði komið enn lengra eftir 5 ár. 

Við þökkum Bryndísi kærlega fyrir spjallið og bendum ykkur á að kíkja á uppskriftina frá henni 
sem hún sendi okkur, hvorki meira né minna en Fífla síróp eftir hana sjálfa - verði ykkur að góðu!