Fara í efni

Vermandi haustsúpa - Mæðgurnar

Haustsúpan verður til í allskonar útgáfum.
Dásamlega Vermandi súpa frá Mæðgunum
Dásamlega Vermandi súpa frá Mæðgunum

Í svona fallegu haustveðri fáum við mæðgur löngun í matarmikla og nærandi grænmetissúpu. Við búum svo vel að eiga svolítið heimaræktað grænmeti, bæði úr eigin garði og svo eru afi Eiríkur og amma Hildur örlát á uppskeruna sína. Þessar fagurbleiku kartöflur komu úr þeirra garði, ótrúlega fallegar! 

Haustsúpan verður til í allskonar útgáfum. Bara eftir því hvaða grænmeti er til í ísskápnum, eða lítur best og ferskast út í búðinni þann daginn. Í rauninni er hægt að nota hvaða grænmeti sem er. Núna eru litlar bragðmiklar gulrætur, gulrófur, kartöflur og hvítkál í miklu uppáhaldi hjá okkur. Hvítkálið kemur sérstaklega á óvart, strimlarnir eru svo mjúkir undir tönn í súpunni. 

Við notuðum maukaða tómata úr krukku sem grunn og gott lífrænt krydd; timían, rósmarín, þurrkaðan hvítlauk og cayenne pipar. Og svo bara fullt af grænmeti og örlítið af linsubaunum til að þykkja. Af því að engin olía er notuð við matreiðsluna finnst okkur gott að bera súpuna fram með jómfrúar ólífuolíu sem við blöndum með smá þurrkuðu kryddi, þessu geta matargestir síðan skvett útá eftir smekk, eða dýft nýbökuðu brauði í olíuna. 

Vermandi haustsúpa

  • 600 ml maukaðir tómatar
  • 600 ml vatn 
  • 5-6 kartöflur 
  • 3-4 gulrætur 
  • 1/2 lítill hvítkálshaus 
  • 1/2 paprika 
  • 1/2 meðalstór rófa 
  • 5-6 hvítlauksrif, heil 
  • 50 g rauðar linsur
  • 1 tsk þurrkað timían (helst lífrænt...við finnum bragðmuninn, í alvöru!)
  • 1 tsk rósmarín (helst lífrænt)
  • 1 tsk þurrkaður hvítlaukur (helst lífrænn) 
  • 1 tsk cayenne pipar 
  • 1-2 tsk sjávarsaltflögur 
  • + ferskt krydd ef þið eigið, t.d. timían stöngull eða rósamarín grein.

 

Aðferð

  1. Setjið maukaða tómata og vatn í pott.
  2. Skerið grænmetið í passlega stóra munnbita og hafið þá þunna, setjið út í pottinn.
  3. Bætið linsunum útí.
  4. Kryddið og látið suðuna koma upp.
  5. Látið malla í um 30-40 mín.
  6. Bragðið til með salt og nýmöluðum svörtum pipar og berið fram með kryddolíu.

 

Kryddolía

  • 1 dl jómfrúar ólífuolía 
  • 1 tsk rósmarín 
  • 1 tsk timían 
  • 1 tsk þurrkaður hvítlaukur 
  • 1/2 tsk sjávarsaltflögur

Blandið saman í krukku og setjið 1 msk út á hvern skammt af súpu.

 

Birt í samstarfi við