Fara í efni

Strákarnir okkar, eru þeir drullusokkar?

Atburðir í samfélaginu síðast liðnar vikur hafa áhrif á sálarlíf margra. Þeir eru grafalvarlegir og meiðandi, sem snerta þjóðfélagsþegna í öllum starfsstéttum. Afleiðingarnar eru áföll sem hver og einn upplifir óháð, stétt eða stöðu í samfélaginu.
Strákarnir okkar, eru þeir drullusokkar?

Atburðir í samfélaginu síðast liðnar vikur hafa áhrif á sálarlíf margra. Þeir eru grafalvarlegir og meiðandi, sem snerta þjóðfélagsþegna í öllum starfsstéttum. Afleiðingarnar eru áföll sem hver og einn upplifir óháð, stétt eða stöðu í samfélaginu.

Þessi umræða er á sama tíma gríðarlega mikilvæg og ofur viðkvæm. Hvar liggja mörkin í ásökunum, í umsögnum og svörum?Allir hafa frelsi til að tjá sig. Mörgum verður það til minnkunar að tjá sig af vankunnáttu um mál sem eru ekki þeirra.


Samfélagsmiðlar hafa sterk áhrif á viðhorf fólks, sumir velja að tjá sig þar markalaust. Oft kemur það frá aðilum sem mögulega hafa eitthvað að fela sjálfir. Ég, líkt og fjölmargar mæður á Íslandi er móðir brotaþola. Þrátt fyrir forvarnir og fræðslu til barna minna, þá gerðist það! Dóttir mín segir í dag að þessi lífsreynsla, sem fylgir mikil ógnun, vald, hótun, ótti við að verða meidd ennþá meira. Gerði það að verkum að sektarkennd og skömm, lokar og þögnin tekur yfirhöndina. Hún sagði okkur frá, 6 árum eftir að þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað. Þeim degi gleymi ég aldrei. Ég fylltist skömm og sjálfsásökunin að hafa leyft þeim að vera saman, leyft þeim að vera vinir og ekki verið að fylgjast stöðugt með. Ég þurfti sálfræðilega aðstoð eftir þetta. Svar dóttur minnar við þessu er að ofbeldi gerist sama hversu sterk við teljum okkur vera. Hún þakkar fyrir allar þær forvarnir og fræðslu sem hún fékk og telur líklegt að hún væri ekki ennþá búin að segja frá hafi hún ekki haft það í veganesti á sínum tíma. Þetta hræðilega kynferðislega ofbeldi átti sér stað þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Gerandinn var jafnaldri hennar, kærasti og vinur okkar sem við höfum þekkt frá unga aldri. Ekki hvarflaði að mér að hann væri svona „veikur“ eins og raun var. Síðan þá hefur hann hlotið dóm og því miður eru fleiri fórnarlömb í sárum. Ég hef með samþykki dóttur minnar og fjölskyldu valið að draga þetta fram í sviðsljósið í dag vegna umræðunnar. Þess má geta að hún fræðir og ræðir þessa lífsreynslu opinskátt í dag við ýmis tækifæri t.d. í árlegri fermingarfræðslu barna.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er staðreyndin sú að við þekkjum öll brotaþola, mögulega hafa þau ekki ennþá sagt frá. Við þekkjum gerendur, áttum okkur ekki á því að hann/hún er stundum mjög nærri t.d. í fjölskyldunni eða vinahópnum.Mikilvægt er að átta sig á að stundum er gerandi ofbeldis þessi ótrúlega ljúfi, blíði og hressi einstaklingur. Þau fá útrás þar sem þeim hentar. Inni á heimilinu, í bílnum, íþróttum, skólum, leikhúsum, verslunarmiðstöðvum, skemmti-og veitingastöðum um land allt. Tilgangurinn er að hafa valdið, stjórna og fá sínu framgengt.

Að segja frá krefst mikils styrks og kjarks, það er stórt skref að sækja sér faglega aðstoð. Ég efast um að sú manneskja sem veit þá umræðu og átök sem fara af stað þegar sagt er frá, geri það að gamni sínu eða léttúð. Persóna sem er illa brotin af ofbeldi, lýgur ekki eða býr til frásagnir. Þau sem trúa ekki brotaþolum í dag og gera lítið úr upplifun þeirra, eiga líklega aðstandendur, syni, dætur, barnabörn sem gætu verið gerendur eða þolendur. Hvernig skyldu þau bregðast við ef/þegar börn þeirra verða fyrir ofbeldi, sem eru því miður líkur á. Ég vona að þau trúi þeim.

Á samfélagsmiðlum má lesa neikvæð viðbrögð frá ólíklegasta fólki. Fólki sem ég hef í gegnum árin litið upp til og haft sem fyrirmyndir og taldi í góðri trú vera með forvarnarhjartað á réttum stað. Stundum er úlfur í sauðagæru, gerendur leynast víða. Hvatt er til þess að börn taki þátt í tómstundum. Mörg fara í íþróttir eða önnur félagsstörf. Þar eru oft ungir þjálfarar eða leiðbeinendur. Ungir krakkar sem þjálfarar eða leiðbeinendur móta enn yngri börn. Ég vona að markvisst eftirlit sé til staðar og þau fái leiðbeiningar um hvernig koma eigi fram við börnin, með það að leiðarljósi að þau læri og geti orðið besta útgáfan af sjálfum sér. Það er mikilvægt að nú verði stígið stórt skref í bættum forvörnum og fræðslu. Í dag er ný staða forvarnarfulltrúa á vegum Samband íslenskra sveitafélaga. Hlutverkið er að fylgja eftir að forvarnir verði markviss þáttur í skólastefnu sveitafélaganna svo og að hver skóli móti sína forvarnarstefnu til að fylgja eftir. Einnig að styðja við forvarnarstarf í félögum, stofnunum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum, fötluðum sem og ófötluðum. Með þessu mikilvæga starfi vonumst við eftir bættum árangri og að stjórnvöld telji sig knúin til að hlúa vel að þessum málaflokk.

Eins og hefur komið fram áður í greinum mínum, tel ég mikilvægt að markviss forvarnarfræðsla hefjist strax í leikskóla. Þar sem börn eru efld í að setja mörk, við kennum þeim hætturnar í samskiptum líkt og í umferðinni, þau læra að það er gott og rétt að segja strax frá. Í leikskólanum temjum við okkur að ræða opinskátt um líkamann, tilfinningar og framkomu. Hvernig okkur líður með neikvæða hegðun og hvaða lausnir séu til að laga það. Börn skilja þegar við ræðum við þau, lesum bækur, teiknum myndir og þau tjá sig. Það er mikilvægt að við hlustum og hjálpum þeim að finna lausnir til að efla sig að setja mörk. Barn sem upplifir öskur og skammir heima finnur öryggi og segir frá í leikskólanum. Þá fara ákveðnir verkferlar innan skólans af stað til að aðstoða barnið og foreldrana. Barni sem líður illa getur orðið meðvirkt „haga sér vel“ til að forðast öskrin og skammirnar. Þetta hljómar kannski ómerkilegt en fyrir barn getur þetta verið eins og hnífur í hjartað og haft alvarlegar og mótandi áhrif alla ævi. Stundum er leikskólinn griðastaður fyrir nemendur.

Í mörg ár hef ég farið með fyrirlestra í leikskóla sem kallast FRÆÐSLA EKKI HRÆÐSLA. Með þeim hef ég verið að vekja stjórnendur og starfsfólk leikskóla til umhugsunar um ofbeldi og vanrækslu. Aðstoðað þau við að móta sína aðgerðaáætlun ef grunur um ofbeldi eða vanrækslu kemur upp. Umræða af þessu tagi meðal starfsfólks er gríðarlega mikilvæg, að eiga samtalið m.a. hvernig fara eigi með viðkvæm mál sem okkur er treyst fyrir af börnum. Að mínu mati þarf skýrt samræmt, verklag fyrir hvert skólastig, þar sem eru samræmdar aðgerðir. Skólar verði beintengdir við hlutaðeigandi stofnanir til að leysa og finna farsælan farveg með barnið og fjölskylduna að leiðarljósi.

Leyfum börnum að njóta vafans, þegar þau segja frá

Segðu frá

Arnrún Magnúsdóttir  
leikskólakennari 
Fræðsla ekki hræðsla