Fara í efni

Lengi býr að fyrstu gerð

Lengi býr að fyrstu gerð

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samkvæmt lögum er leikskólinn fyrsta skólastigið en er ekki skylda, hver veit hvað
framtíðin ber í skauti sér?  

Ég velti fyrir mér hvenær sá dagur rennur upp að öll börn á Íslandi eigi kost á því að ganga í leikskóla
óháð stöðu uppalenda í samfélaginu. Að leikskólinn verði skylda og gjaldfrjáls. Það að leikskólagangan 
verði kostnaðarlaus er mikilvægur þáttur í að auka öryggi og utanumhald allt hugsað til farsældar 
barna og fjölskyldna þeirra.  

Aðalnámskrár skólastiga hafa ígildi reglugerðar, þær kveða m.a. á um markmið og fyrirkomulag
skólastarfs,kennsluskipan og viðmið um námskröfur og námsframvindu. Öllum skólum er skylt
að gefa út skólanámskrá. Segja má að námskrá sé nokkurskonar reglustika hvers skóla um það 
sem ber að kenna. Mikið álag er í skólum landsins, sama um hvaða skólastig ræðir. Misjafn
grunnur er í menntun kennara, staðan er sum staðar sú að kennari byggir kennslu á brjóstviti 
og lífsreynslu. 

Frá því ég fór að vinna í leikskóla 1991, langaði mig að einbeita mér enn frekar að kennslu í
félagslegri færni og að opinská umræða um tilfinningar og líkamann skipti miklu mál.   

Ég hef skrifað niður hugmyndir, sótt námskeið og fyrirlestra, lagt mig fram við að gera mitt besta að efla
þessa þætti hjá nemendum í leikskólanum. Einnig þykir mér það forréttindi að fá tækifæri að fylgjast með 
eftir að leikskólagöngu lýkur með það í huga hvernig félags og tilfinningafærnin fylgir þeim út í lífið.  

Kennsluna í leikskólanum legg ég upp og efli í forvarnir í samræmi við þroska og getu nemenda. 
Á sömu forsendum og tannhirða, umferðafræðsla, brunavarnir, líkami og sál, sem skipta miklu máli.  

Tannhirða 
Tannhirða barna er sjálfsögð og opinská. Í ungbarnaverndinni er byrjað að ræða við uppalendur og
fylgja eftir tannvernd nýfæddra barna. Á fyrstu fimm árum barna eru þeir Karíus og Baktus vel þekktir.
Koma gjarnan við sögu í fræðslu og forvörnum sem eiga sorglega sögu úr munninum á honum Jens.
Enginn vill kynnast þeim.  

Umferðin 
Sama má segja um umferðafræðsluna. 1968 hóf bréfaskólinn Ungir vegfarendur göngu sína.
Markmiðið var að fræða öll börn frá 3-7 ára um umferðina. Fjölbreytt námsefni er gott og gilt. 
Jói mjói, krakkarnir í Kátugötu eru það sem stendur upp úr í minningum barna. Í stórum dráttum
gengur kennslan út á öryggi í umferðinni. Útskýrt er fyrir börnum á opinskáan hátt um mikilvægi
öryggis, hvernig á að hegða sér og hverjar eru hætturnar í umferðinni.  

Brunavarnir 
Brunaæfingar eru mikilvægur þáttur í kennslu brunavarna. Þau Logi og Glóð koma inn í líf leikskólabarna
eftir heimsókn slökkviliðs þar sem ung börn eru frædd um eldvarnir. Þau fá m.a. að sjá slökkviliðsmenn í
„fullum skrúða“ það er í reykköfunarbúnaði o.fl. Auk þess sem farið er opinskátt og markvisst yfir það sem
ber að varast í eldhúsinu og í umgengni við eldfimt efni. 

Samgöngustofa og slökkviliðið eiga gott samstarf við leikskóla.  

Líkami og sál 
Ég velti fyrir mér hversu opinská og markviss er kennsla okkar er. Að kenna börnum um andlegt heilbrigði,
líkamann og að setja mörk. Umræður um líkamann og tilfinningar eru vandmeðfarnar. Þar af leiðandi ekki
allra að koma því vel til skila til ungra barna.  

Eins og staðan er í samfélaginu og víða um heim, er þörfin gríðarleg. Það þarf að líta á kennslu til leikskólabarna 
í að setja mörk, virða mörk og segja frá. Eins og fræðslu í tannhirðu, umferðafræðslu og brunavörunum, 
þarf að ræða óþægilegu hlutina. Erfiðu málin um mörk, markaleysi og hvað ber að varast. Í samtölum mínum
við börn veit ég að þegar börn vita og skilja þá geta þau sagt frá og sett mörk.  

Að breyta venjum til að vel megi vera tekur a.m.k. eitt ár. Þá er t.d. átt við breyttan lífsstíl o.þ.h. 
Forvarnir eru í okkar umsjón tannhirða, brunavarnir og að vara sig í umferðinni. Ef við horfum á þessa
þætti þá erum við stöðugt að minna börnin á að spenna beltið, horfa til beggja hliða, bursta tennur, ekki fikta með eld. 

Ég vona að þú kæri lesandi, veltir þessum spurningum fyrir þér og að þú leggir þitt að mörkum í
forvörnum og fræðslu til barna. 

Hvernig leggjum við upp forvarnir í líkamsvirðingu og að setja mörk?  
Hvaða viðmið höfum við?  
Hvaða lífsreynslu höfum við? 
Hvaðan komum við? 
Hver ber ábyrgðina?  
Uppalendur eða skólakerfið? 

Ég hef valið að leggja mitt af mörkum sem móðir, amma, frænka, mágkona, vinkona eða kennari.  

Mér finnst þetta ekki vera flókið. Unga fólkið okkar er til fyrirmyndar að tjá sig um tilfinningar.
Við fullorðna fólkið þurfum að fylgja þeim eftir og vera tilbúin að hlusta.  

Góður vinur sagði „ég vildi að þú hefðir kennt mér sem barni, þá hefði ég mögulega lært að elska sjálfan mig fyrst, 
en ekki næstu konu sem ég sá“ þessi vinur er nú á níræðisaldri.   

Æfingin skapar meistarann, forvarnir þarf að æfa. 

Segðu frá. 

Arnrún Magnúsdóttir 
leikskólakennari 
Fræðsla ekki hræðsla