Fara í efni

Ostar úr jurtaríkinu

Eitt sinn dvaldist ég sumarlangt í litlum kofa í skógarjaðri í Kaliforníu og stundaði nám við hráfæðiskóla. Eitt af því sem gerði dvölina einstaklega skemmtilega var að einn kennaranna var með ástríðu fyrir því að búa til "osta" úr hnetum og fræjum.
Ostar úr jurtaríkinu

Eitt sinn dvaldist ég sumarlangt í litlum kofa í skógarjaðri í Kaliforníu og stundaði nám við hráfæðiskóla. Eitt af því sem gerði dvölina einstaklega skemmtilega var að einn kennaranna var með ástríðu fyrir því að búa til "osta" úr hnetum og fræjum. Ástríða hennar var svo mikil að henni tókst að kveikja í okkur nemendunum og það skapaðist hálfgert jurtaosta æði í bekknum. Við notuðum frítímann til að gera tilraunir og hápunkturinn var svo að mæta með nýjustu afurðina og gefa smakk og fá viðbrögð. Sumir "ostarnir" voru ævintýralega góðir á meðan aðrir enduðu á safnhaugnum.

-Sólveig

 

Okkur langar til að kenna ykkur einfalda aðferð við að búa til jurtaost. Þennan ost þarf eingöngu að setja inn í kæli eða smá stund í frysti til að láta stífna og þá er hann tilbúinn. Það er einmitt ágætt að byrja á einfaldri og skotheldri uppskrift. Jurtaostagerð er ótrúlega skemmtilegt og spennandi ferðalag fyrir bragðlaukana og einnig hvað handverk og hugmyndaflug varðar því möguleikarnir eru nær endalausir. Þessa ostagerð hafið þið ábyggilega gaman af að prófa, hvort sem þið eruð Grænkerar, eruð að taka þátt í Veganúar, þolið illa mjólkurvörur, eða langar einfaldlega að prófa eitthvað nýtt og spennandi. 

Valið á hnetum/fræjum fer eftir því hvaða áferð við viljum hafa á ostinum. Í þetta sinn ákváðum við að búa til smurost og móta úr honum ostakúlur. Þá er best að nota hnetur sem er auðvelt að gera alveg mjúkar og kornlausar í blandaranum eða matvinnsluvélinni. Hafa ber í huga að til þess að ná alveg silkimjúkri áferð þarf að leggja hneturnar í bleyti. Það er góð regla að henda alltaf útbleytivatninu og skola hneturnar áður en þær eru notaðar. Auðveldast er að fá rétta áferð með kasjúhnetum og furuhnetum. Kasjúhneturnar verða fullkomnar eftir að hafa legið 6 klst í bleyti og furuhneturnar eftir 4 klst. Það sleppur þó hafa þær styttra ef gleymist að leggja í bleyti og óþolinmæði gerir vart við sig.

Best er að komast af með sem minnstan vökva til að osturinn nái að halda þykkri og góðri áferð. Smá þolinmæði þarf til og nauðsynlegt er að stoppa reglulega til að skrapa hráefnið niður með hliðunum á blandaranum eða matvinnsluvélinni til að tryggja góðan árangur og áferð. Ef osturinn verður of þunnur má alltaf bæta hnetum út í eða setja auka matskeið eða tvær af kókosolíu. En ef þetta verður allt of þykkt þá má setja smá vökva út í. 

Þegar ostablandan er tilbúin og hefur stífnað aðeins í kæli er skemmtilegt að móta passlegar kúlur og velta upp úr kryddum og smátt söxuðu góðgæti. 

 

Ostakúlurnar eru alveg svakalega góðar á hrökkbrauð úr heilkorna rúgmjöli

 

 

Og algjör draumur á súrdeigsbrauð með smá sultuslettu...

 

Uppskriftin

Hnetuostur:

2 bollar útbleyttar kasjúhnetur (1 ¼ - 1 ½ bollar kasjúhnetur lagðar í bleyti)
duftið úr 3 probiotic hylkjum
4 msk sítrónusafi
½ msk lífrænt eplaedik
2 msk kókosolía
2 msk næringarger
1 tsk salt

Aðferð

Ef þið eigið kraftmikinn blandara þá er frábært að nota hann. Setjið allt í blandarann og blandið - það þarf að stoppa annað veifið og skrapa með hliðunum. Þeir sem eiga ekki kraftmikinn blandara geta notað matvinnsluvél og þá þarf líka að stoppa af og til og skrapa niður með hliðunum.

Þegar maukið er orðið silkimjúkt (munið.. smá þolinmæði) þá er best að setja það í loftþétt ílát og inn í ísskáp til að stífna. 

Blöndur til að velta uppúr

  1. valhnetur, saxaðar 
    rúsínur, saxaðar
    rauðlaukur, mjög smátt saxaður 
    örlítill svartur pipar ef vill, passa bara að setja alls ekki of mikið!

  2. rósapipar, mulinn í mortéli
    timían
    rósmarín

  3. gojiber, söxuð
    graskerjafræ, ristuð og söltuð 
    graslaukur, saxaður

Geymið ostinn í loftþéttu íláti inni í ísskáp eða í frystinum rétt á meðan þið gerið mulninginn tilbúinn. Mótið síðan passlegar kúlur og veltið upp úr því sem ykkur finnst gott. Blöndurnar hér að ofan eru bara hugmyndir... endilega finnið ykkar eigin uppáhalds blöndur.

Geymist í loftþéttu íláti inni í ísskáp í 7 - 10 daga.

 

Uppskrift frá maedgurnar.is