Fara í efni

Of væmið - hugleiðing Guðna í dag

Of væmið - hugleiðing Guðna í dag

Þú ert skapari

Þú ert skapari og lífið streymir um þig. Þú ert fær um að leyfa fólki, hlutum og aðstæðum að vera eins og það er á þessari stundu, því þú veist að allt laðar að sér og skapar á sinn hátt. Samkvæmt lögmálum alheimsins er allt sem er gert eða hugsað í fullkomnum samhljómi og þú átt núna heima í varanlegu algleymi – upplýstur; logandi.

Er þetta yfirdrifið? Finnst þér þetta of mikið? Of væmið? Of nýaldarlegt? Of ... eitt- hvað?

Af hverju?

Geturðu horft á nýfætt barn þitt og fundið í hjartanu að þessi manneskja er fullkomin og skínandi birtingarmynd lífsins?

Geturðu sagt við hjarta þitt að heiðlóan sé falleg vera og að líf hennar sé einstakt, jafnvel heilagt?

Geturðu fundið brosið fæðast framan í þér og heitan straum í brjóstinu þegar þú fylgist með litlum kettlingi fóta sig í fyrsta skipti?

Við getum það öll.

En viltu það? Hefurðu heimild til þess? Prófaðu að segja upphátt að þú sért heilög vera, ljómandi birtingarmynd alls þess sem er best og fallegast í þessum heimi.

Er það erfiðara? Af hverju? Ég skil vel af hverju þú hikar. Ég þekki á eigin skinni hversu erfitt getur verið að fara framhjá fortölum hugans og inn í samhljóm með hjartanu, þar sem ljósið býr.

Er þetta óframkvæmanlegt? Geturðu opnað fyrir möguleikann? Geturðu játast þeim möguleika að þú getir strokið þér um vangann og sagt:

„Ég elska mig. Ég er fullkominn.“