Fara í efni

Megrun er engin lausn

Offita er eitt helsta heilbrigðisvandamál samtímans og líklega þyrfti að segja forfeðrum okkar, sem héngu á horriminni í moldarkofunum, étandi úldin mat, að aukakíló og umframspik yrðu helsta vandamál fátæklinga á 21. öldinni.
Megrunarkúrar eru rugl.
Megrunarkúrar eru rugl.

Offita er eitt helsta heilbrigðisvandamál samtímans og líklega þyrfti að segja forfeðrum okkar, sem héngu á horriminni í moldarkofunum, étandi úldin mat, að aukakíló og umframspik yrðu helsta vandamál fátæklinga á 21. öldinni.

En þetta er nú tilfellið, enda eru ruslmatur og sætindi ódýrari en hollustufæði. Fitan hleðst því eðlilega utan á fólk sem úðar í sig draslinu og reynir síðan, með takmörkuðum árangri, að flysja af sér spikið með skyndilausnum sem gera illt verra þegar til lengri tíma er litið.

Ég verð alveg blásvartur í framan af reiði þegar fólk spyr mig hvernig það geti létt sig á skömmum tíma. Það eru engar skyndilausnir til við offitu! Svo einfalt er það.

Gömul vinkona mín kom til mín í vikunni, ljómandi af gleði, og sagði mér frá nýjum megrunartöflum sem hún hafði keypt. Hún hefur árum saman puðað við að létta sig með alls konar megrunarkúrum og skyndilausnum. Stundum hefur henni tekist að létta sig aðeins en um leið og kúrunum sleppir hleður hún kílóunum aftur utan á sig og stendur eftir feitari en hún var þegar hún byrjaði.

Þarna stóð hún og veifaði pillupakkanum, sigri hrósandi, framan í mig og sagðist loksins hafa fundið lausnina. Ég gerði henni til geðs og las utan á pakkann. Töflurnar eiga að hjálpa henni að hafa stjórn á matarlystinni, slá á sykurþörfina og brenna óþarfa hitaeiningum sem orku. Hvaða della er þetta! Ég hundskammaði hana og sagði henni að henda þessu og gera í eitt skipti fyrir öll róttækar breytingar á lífsstíl sínum.

Þeim sem glíma við offitu stendur aðeins einn raunhæfur möguleiki til boða, að breyta um lífsstíl. Ég hafna öllum kúrum og megrunarlyfjum og ráðlegg fólki að borða fjölbreytt, allt sem því sýnist. Bara allt í hófi og hreyfa sig daglega.

Reynslan hefur margsannað að megrunarkúrar hjálpa fólki ekki að halda sér grönnu til lengri tíma. Þar fyrir utan er þyngdartap eitt og sér hvorki lykillinn að lífshamingjunni né bættu heilbrigði.

Dr. Hannibal segir: Engar skyndilausnir. Borðaðu það sem þú vilt, þegar þú vilt. Bara aldrei borða þig pakksaddann. Borðaðu til að lifa en ekki lifa fyrir það að borða. Hættu að hugsa endalaust um aukakílóin og hvernig þú átt að losna við þau. Þráhyggjuhugsanir um holdafar verða bara til þess að lystin eykst og þú étur meira, til að gleyma þyngdinni.

Með fjölbreyttu og áhyggjulausu mataræðinu er svo lykilatriði að hreyfa sig daglega. Engan æsing þar heldur og ekki reyna að gera meira en þú og líkami þinn þolið með góðu móti. Stuttir göngutúrar, sem þú lengir smám saman, eru upplagðir. Að ég tali ekki um nokkrar sundferðir.
Borðaðu bara það sem þú hefur alltaf borðað, bara í minna magni og auktu hreyfinguna. Vittu til, það virkar.

Ég mæli með að fólk taki sér til dæmis hana Nigellu til fyrirmyndar. Hún veit hvað hún syngur í þessum efnum.