Fara í efni

Ég elska sykur!

Sykur er fíkniefni og sem slíkur hættulegur sé hans neytt í óhóflegu magni. Hann er samt hrein náttúruafurð og hrein orka og ég þarf á honum að halda og ætla mér ekki að losa mig við hann. Satt best að segja leiðist mér sá gegndarlausi áróður gegn sykrinum sem dynur á okkur alla daga, endalaust.
Sykur er ekki versta fíkniefnið.
Sykur er ekki versta fíkniefnið.

Sykur er fíkniefni og sem slíkur hættulegur sé hans neytt í óhóflegu magni. Hann er samt hrein náttúruafurð og hrein orka og ég þarf á honum að halda og ætla mér ekki að losa mig við hann. Satt best að segja leiðist mér sá gegndarlausi áróður gegn sykrinum sem dynur á okkur alla daga, endalaust.

Sykurhatararnir berjast gegn honum af meiri hörku en þekkist í tilfellum miklu hættulegri fíkniefna. Miðað við öll lætin mætti ætla að sykur sé verri en til dæmis áfengi, tóbak eða amfetamín. Samt er engin hætta á því að þeir sem úða ótæpilega í sig sykri sturlist og stofni sjálum sér og öðrum í hættu. Það er helst að börn geti orðið ofvirk og óþolandi ef þau taka inn of stóran skammt af sykri en sykur er ekkert fyrir börn frekar en LSD og hass.

Sá sem drekkur tvo bjóra er ekki talinn hæfur til þess að setjast undir stýri en sá sem hellir í sig tveimur lítrum af Kóki er fullfær um að aka bíl. Jafnvel betur til þess fallinn en sá sem er dofinn og sljór af orkuskorti.

Sykur er orka. Orkuskot. Og líkaminn þarf orku. Margir kannast við þá mögnuðu tilfinningu sem fylgir því að hrökkva í gang á morgnanna eftir einn vel sykraðan kaffibolla. Að ég tali nú ekki um eina ískalda Kók-dós en sjálfur hef ég byrjað hvern dag í hartnær 40 ár á einni slíkri. Ég vil eiginlega meina að 33cl af Kóka Kóla sé ráðlagður dagsskammtur af sykri. Eftir að hafa drukkið þennan skammt er ég tilbúinn til þess að takast á við daginn.

Fjallgöngufólk og útivistarfrík þekkja flest unaðstilfinninguna sem fylgir því að gleypa í sig eitt Snickers eða Mars eftir langa göngu. Líkaminn hitnar allur og maður finnur endurnýjaða orku flæða upp í haus og út í limina.

Sykurfordómarnir hafa að mínu mati helst leitt til þess að fólk sækir bara í verri og hættulegri efni, aspartameitraða gosdrykki og varasama orkudrykki sem valda hjartsláttartruflunum og hafa leitt ungt fólk til dauða eftir ofneyslu. Finni maður sig knúinn til þess að neyta fíkniefna hlýtur alltaf að vera betra að velja þau náttúrulegu frekar en þau sem búin eru til á tilraunastofum. Af tvennu illu mæli ég frekar með tvöföldum viskí heldur en að fólk droppi sýru, svo öfgakennt dæmi sé tekið.

Sykuráróðurinn er kominn út í tóma vitleysu þar sem afskræmd og fáránleg dæmi eru notuð til þess að hræða fólk. Þetta er áberandi á Internetinu þar sem kjánaleg myndbönd flæða endalaust yfir YouTube. Kók er soðið þannig að það breytist í einhvers konar viðbjóðslega tjöru, skítug klósett eru hreinsuð með kóki og ryð á bílum er leyst upp með sykursullinu.

Í fyrsta lagi sýður Kók ekki í maganum þannig að suða og neysla er ekki það sama og þeir sem drekka Kók drepast ekki en hætt er við að þeir sem úða í sig klósetthreinsi eða ryðleysi geyspi golunni snarlega.

Þessi samanburður er semsagt fáránlegur. Sama gildir um þá dellu að láta tennur liggja í Kóki í sólarhring og sýna svo hvernig þær tærast upp. Fólk notar Kók ekki sem munnskol og lætur það ekki malla í munninum í sólarhring.

Mínar tennur eru óskemmdar eftir áratuga, daglega Kókdrykkju. Ég hugsa bara vel um þær. Bursta vel kvölds og morgna og nota munnskol, Listerine en ekki sykurvatn. Ég sé því ekkert athugavert við að fullorðið fólk neyti sykurs í hæfilegu magni og stend fastur á því að hann sé mun skárri en sætuefni og koffín og gingsengkokteilar.

Allt er best í hófi og öfgar leysa engan vanda!