Hleðsluhlaupið í 13. sinn

13. Hleðsluhlaupið verður haldið fimmtudaginn 28. ágúst við Víkina í Fossvogi. Boðið er upp á tvær vegalengdir, 5 km og 10 km. Ræsing er í Traðarlandi og hlaupið upp Stjörnugrófina (brekka) en beygt til hægri efst í brekkunni og hlaupið eftir hjólastígum Fossvogsdals út að Svartaskógi þar sem snúningspunktur er og þaðan til baka eftir göngustígum eins og leið liggur til baka í Traðarlandið en endamarkið er fyrir framan Víkina. Hlaupinn er einn hringur í 5 km og tveir hringir í 10 km. Kort af hlaupaleið má finna á þessum hlekk: Skoða hlaupaleið á stærra korti
Vegalengdir eru löglega mældar og viðurkenndar af Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ). Drykkjarstöð er á miðri leið fyrir 10 km hlaupara og í lok hlaups er boðið upp á Hleðslu og veglegt veitingahlaðborð í Víkinni ásamt útdráttar verðlaunum fyrir þátttakendur sem skrá sig fyrir miðnætti 27. ágúst. Það er því vel þess virði að skrá sig tímanlega og staldra síðan við eftir hlaupið, næra sig upp eftir átökin og eiga samverustund með öðrum hlaupurum og áhangendum. Góð aðstaða er í Víkinni bæði fyrir og eftir hlaup.
Hleðsluhlaupið hefur verið mjög vinsælt hjá breiðum hópi hlaupara undanfarin ár til að mynda luku 582 samtals í báðum vegalengdum 2024 og 553 árið 2023. Stefnan er að ná yfir 600 manns í ár en einnig til marks um vinsældir og ánægju hlaupara þá var hlaupið valið götuhlaup ársins í einkunnagjöf hlaupara árið 2024 og 2022 og það næstbesta árið 2023.
Tími og staðsetning
Hleðsluhlaupið fer fram í Fossvogi fimmtudaginn 28. ágúst kl. 19:00. Hlaupið er frá Víkinni, félagsheimili Víkings, Traðarlandi 1. Vinsamlegast mætið tímanlega.
Þátttökugjald og skráning
Aldurstakmark er 12 ára (f. 2013 og fyrr), allir hlauparar sem náð hafa þeim aldri eru velkomnir, jafnt byrjendur sem lengra komnir.
Forskráning fer fram á netskraning.is
Verð í forskráningu fyrir miðnætti til 30. júní 2024:
- 2.500 kr, fyrir 19 ára og eldri (f. 2006 og fyrr)
- 1.000 kr, fyrir 12 - 18 ára (f. 2007 - 2013)
Verð frá 1. júlí til miðnættis 27. ágúst:
- 3.000 kr, fyrir 19 ára og eldri (f. 2006 og fyrr)
- 1.500 kr, fyrir 12 - 18 ára (f. 2007 - 2013).
Skráning á hlaupdegi
- 4.000 kr, fyrir 19 ára og eldri (f. 2006 og fyrr)
- 2.000 kr, fyrir 12 - 18 ára (f. 2007 - 2013)
Athugið að ekki er hægt að skrá sig á staðnum nema á eigin vegum inni á netskraning.is og að því loknu sótt hlaupagögnin
Afhending hlaupagagna
Hlaupagögn verða afhent í íþróttasalnum í Víkinni á hlaupdegi, fimmtudaginn 28. ágúst frá kl. 16.00 - 18.30.
Verðlaun
Vegleg peningaverðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla - og kvennaflokki í báðum vegalengdum þar sem 1. sæti hlýtur 50.000 kr, 2. sæti 40.000 kr og 3. sæti 30.000 kr, heildar verðlaunafé er því 480.000 kr.
Einnig verða veitt verðlaun fyrir fyrsta sæti í hverjum aldursflokki, beggja kynja í báðum vegalengdum.
Verðlaunaafhending hefst kl 19:30 í íþróttasalnum í Víkinni. Þátttakendur sem skrá sig fyrir kl. 00:00 þann 27. ágúst eiga möguleika á að vera dregin út og fá einhvern af þeim fjölda glæsilegu útdráttarverðlauna sem í boði verða.. Hlaupanúmer þeirra sem vinna til útdráttarverðlauna verða birt í íþróttasalnum í Víkinni strax að loknu hlaupi.
Aldursflokkar
Úrslit verða birt sem heildarúrslit og eftir aldursflokkum karla og kvenna sem hér segir.
- 12 - 18 ára
- 19 - 29 ára
- 30 - 39 ára
- 40 - 49 ára
- 50 - 59 ára
- 60 - 69 ára
- 70 ára og eldri
Salerni og fatageymsla
Salerni og vöktuð fatageymsla verður í tengibyggingu við íþróttasalinn. Engin ábyrgð er tekin á fatnaði eða öðrum munum og ekki heldur á hlaupaleiðinni.
Almennar upplýsingar
Þátttakendur eru hvattir til að sameinast í bíla og nota almenningssamgöngur. Þeir sem búa næst svæðinu eru beðnir um að skilja bílinn eftir heima. Bílastæði eru í Stjörnugróf, stæði austan við Víkina og við Fossvogsskóla. Athugið að bílastæði vestan við Víkina verða lokuð vegna hlaupsins frá kl. 16:00. Traðarlandi verður lokað fyrir umferð frá kl. 18.45 og þar til síðasti hlaupari er komin í mark (um kl. 20.30).
Úrslit verða birt á timataka.is
Myndir frá hlaupinu verða birtar á Facebook síðu hlaupsins endilega fylgist með og "lækið" Facebook
Skipuleggjendur
Almenningsíþróttadeild Víkings, netfang: almennings@vikingur.is. Facebook síða hlaupsins: Facebook
Hlaupstjóri: Jóhann Guðjónsson, sími 617-4804