Heilhveitivöfflur
											Frábærar og bráð hollar heilhveiti vöfflur.
Tilvalið að skella í þessar um helgina.
Uppskrift gefur um 12 stykki.
Uppskrift:
- 3 bollar KORNAX heilhveiti (græni pokinn)
 - 2 tsk sjávarsalt
 - 4 tsk lyftiduft
 - 1 bolli olía
 - 2 egg
 - 2 bollar + 2 msk mjólk
 - 2 msk smjör, brætt
 - 2 tsk vanilludropar
 - 4 msk sýrður rjómi
 
Aðferð:
Blandið öllum þurrefnum saman í skál og setjið til hliðar. Blandið olíu, eggjum, mjólk, smjöri, vanilludropum og sýrðum rjóma vel saman í annarri skál. Blandið þurrefnunum varlega saman við og passið að hræra ekki of vel saman, bara rétt þangað til allt er búið að blandast. Skellið í vöfflujárnið og búið til karamellueplin á meðan vöfflurnar bakast.
Karamelluepli
Uppskrift:
- 2 epli, skorin í sneiðar
 - 1 msk smjör
 - 2 msk púðursykur
 - 1 tsk rjómi
 - 1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Bræðið smjör og púðursykur saman á pönnu yfir meðalhita. Þegar blandan byrjar að sjóða hellið þið rjómanum saman við og slökkvið á hellunni. Síðan blandið þið vanilludropunum saman við og loks er eplunum velt upp úr blöndunni. Leyfið þessu að malla á heitri hellunni (ekki kveikja samt aftur á henni) á meðan þið gerið vöfflurnar, eða þar til eplin eru orðin mjúk viðkomu.
Sætur rjómaostur
Uppskrift:
- 1 bolli mjúkur rjómaostur
 - 8 msk hlynssíróp
 - 2 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Blandið öllum hráefnum vel saman og berið fram með vöfflunum og eplunum.
Njótið vel!
