Fara í efni

Gildin titra í jörðinni undir fótum okkar - Guðni á föstudegi

Gildin titra í jörðinni undir fótum okkar - Guðni á föstudegi

HVERT STEFNIR MANNESKJA Í ÞESSARI STÖÐU?

Til stjarnanna; til dyggðanna sem svífa fyrir ofan okkur; til dyggðanna sem eru einfaldar, risastórar og ósnertanlegar, eins og stjörnurnar. Það er þangað sem við teygjum okkur þegar við erum tengd við alheimsorkuna.

Gildin titra í jörðinni undir fótum okkar, dyggðirnar svífa yfir okkur; innra með okkur ljómar tilgangur, ljómar sýn, ljóma markmið.

Þú átt þér alltaf tilgang – alltaf. Ef þú hefur ekki skil- greint tilganginn upp á eigin spýtur er hann samsettur úr brotum sem þú hefur sankað að þér á lífsleiðinni.

Þú ert alltaf með tilgang – alltaf með tiltekna leið sem þú gengur. Þú ert alltaf að ganga til einhvers, í átt að einhverju. Spurningin er aðeins hvað þetta eitthvað er; hvort það er vansæld eða velsæld og hvort þú ert að ganga frá þér, ganga til þín eða ganga með þér?

Þegar þú hefur ekki ákveðið tilgang þinn hefur hann orðið til af sjálfum sér; skapaður af skortdýrinu, af ótta, af streitu og með blekkingum. Þegar þú hefur ekki viljandi ákveðið tilgang ertu með skottið fullt af farangri; draugum úr fortíðinni sem leika lausum hala og valda þér vansæld. Þá ertu flóttamaður í eigin lífi.

Það velur enginn þinn tilgang nema þú. Enginn nema þú hefur vald yfir því hvernig þú verð þínum lífsneista eða hvaða hlutverki þú velur að gegna.

Myndi það barn sem þú varst vera stolt af þeirri manneskju sem þú ert í dag? Vilt þú þig? Er erfið tilhugsun að svara þessari spurningu?