Fara í efni

Finnst þér erfitt að viðhalda lífsstílnum?

Finnst þér erfitt að viðhalda lífsstílnum?

Ég spurði um daginn inná Instagraminu mínu hvað fólki fannst erfiðast við heilbrigðan lífsstíl. Ég fékk mörg og mismunandi svör til baka en þó nokkur snéru að því að „viðhalda“ lífsstílnum. Ég held að margir kannist við þetta, þessi eilífa barátta við að „byrja og hætta“. Alveg óþolandi ekki satt?

Ég var sjálf föst í þessu fari fyrir nokkrum árum síðan sem leiddi til þess að ég varð hugfangin af því hvernig hugurinn kæmi inní spilið og hver væri munurinn á fólki sem náði að breyta venjum sínum til lengri tíma og þeim sem var alltaf að mistakast, byrja og gefast upp.

Það er mjög margt sem spilar inní það hvort að þú náir að breyta um lífsstíl, en mig langar að deila með þér nokkrum atriðum í dag sem vonandi hjálpa þér áfram í heilsuferðalaginu þínu, sért þú föst á þessum stað.

1.Ég fékk ógeð

Ég fékk algjörlega nóg af sjálfri mér einn daginn, ég horfðu í spegilinn í augun á sjálfri mér og spurði mig hreinskilnislega. 

Ætlar þú alltaf að vera í þessum pakka? 

Ég var nýbúinn að eiga slæma sukk helgi (eina ferðina enn), búin að djamma, fá mér sveitta pizzu, fullan nammipoka úr Hagkaup og gos og líðan var eftir því. 

Ég spurði mig, ,,ætlarðu alltaf að svíkja sjálfa þig, svíkja loforðin gagnvart sjálfri þér?“, ,,ætlarðu að vera í sömu aðstæðunum eftir 5, 10 eða 20 ár?“ ,,ætlar þú að vera týpan sem nær aldrei markmiðunum sínum og er alltaf að ströggla með heilsuna sína?“ 

Svarið var NEI, ég hafði engan áhuga á að líða svona áfram. Ég fékk algjörlega nóg af aðstæðunum og varð að breyta hlutunum. Þetta var ekki spurning um að reyna sitt besta lengur, ég var komin á stað þar sem ég VARÐ að gera eitthvað í málunum, annars færi það að bitna verulega á andlegu hliðinni og lífsgæðunum mínum.

Ert þú komin á þann stað? 

2. Ég uppfærði sjálfsmyndina mína

Hvernig þú horfir á sjálfa þig skiptir ÖLLU máli. Ert þú týpan sem ert alltaf að ströggla með heilsuna, byrja og hætta? Beilar á markmiðunum þínum við fyrsta tækifæri? Hvernig horfir þú á sjálfa þig?

Það skiptir miklu máli að þú sjáir þig sem heilbrigðan einstakling sem tekur góðar ákvarðanir fyrir sjálfa sig. Ég var alls ekki á þeim stað. Ég valdi yfirleitt auðvelda kostinn, hugsaði um sjálfa mig sem óheilbrigða manneskju sem gafst upp og ég hafði í rauninni ekki trú á sjálfa mig og því voru ákvarðanirnar mínar eftir því.

Þú verður í raun að uppfæra það hvernig þú horfir á sjálfa þig til þess að ná fram langvarandi breytingum. Ert þú týpan sem er heilsuhraust, hreyfir sig allt árið um kring, velur hollari kostinn? Eða ekki?

3. Ég vann með takmarkandi viðhorf og hugsanir

Allt sem þú ert, allt sem þú hefur áorkað, skapað inní lífið þitt, byrjaði sem hugsun. Pældu í því.

Hugsanirnar þínar hafa gríðarlega mikið vald, hugarfarið þitt getur því verið þinn besti vinur eða helsti óvinur.

Þú ert annað hvort að brjóta þig niður við hvert tækifæri og vinna á móti árangrinum þínum, eða nærð að snúa hindrunum uppí lexíur, erfiðleika yfir í áskoranir. Ef þú ert í sífellu að endurtaka niðurrífandi hugsanir innra með þér þá eru litlar líkur á langvarandi breytingum. Því þú heldur sjálfri þér fastri í sama gamla farinu með því endurtaka neikvætt sjálfstal sem dregur úr þér.

Ef þú trúir því að þér muni aldrei takast, þá finnur þú leiðir til þess að láta það rætast. Við viljum nefnilega alltaf hafa rétt fyrir okkur. Sama hvort það þýði neikvæðar eða jákvæðar afleiðingar fyrir lífið okkar og heilsu.

Þannig hvernig er innra sjálfstalið þitt? Uppfærðu það í dag og auktu líkur á að skapa þér lífsstíl sem endist.

4. Ég breytti því hvernig ég horfði á heilbrigðan lífsstíl

Ég hafði verið hjá mörgum einkaþjálfurunum og fjarþjálfurum og yfirleitt fengið sama planið, kjúklingur, egg, brokkólí, 5-6 æfingar í viku, lyftingaræfing og brennsla í ræktinni. Ég hafði byrjað og hætt oftar en ég gat talið og var alveg að bugast yfir þessu. Ég var byrjuð að missa algjörlega trúna á sjálfa mig eftir tugi misheppnaða tilrauna.

Ég trúði ekki að þetta væri eina leiðin til þess að lifa heilbrigðum lífsstíl, ég neitaði að sætta mig við það. Það hlyti að vera betri leið, leið sem virkaði fyrir upptekna mömmu, sem virkaði fyrir manneskju sem elskaði súkkulaði, sem gat ekki of mikið af boðum og bönnum, manneskju sem vildi helst ekki þurfa að neita sér um hlutina, vera útundan í veislum og vera í sífellum öfgum.

Sem betur fer fann ég hana, leið sem snýr að því að næra frekar en að hefta. Leið sem snýr að jafnvægi frekar en ströngum reglum um hvað má og hvað má ekki. Sem gaf svigrúm fyrir lífið, að njóta, hugsa vel um sig og taka ákvarðanir útfrá sjálfsumhyggju frekar en niðurrifi.

Ég þurfti algjörlega að horfa á orðið heilsa uppá nýtt og skoða hvernig ég var að horfa á heilbrigði. Áður fyrr tengdi ég heilbrigðan lífsstíl við fitness undirbúning, að komast undir 15% í fitu, vera með six pack og telja kalóríurnar ofaní mig. En það er svo langt því frá eina leiðin og er ég þakklát fyrir að hafa fundið betra jafnvægi og skapað mér lífsstíl sem ég elska.

5. Ég hætti í öfgum, boðum og bönnum

Ég þurfti að sleppa þeirri hugsun að allt þyrfti að passa inní kassann, ég sleppti öllum reglum, boðum og bönnum, af því ég komst að því að ef ég „mátti ekki“ fá mér eitthvað, leiddi það til þess að mig langaði mun meira í það heldur en ella. En hvernig gat ég þá lifað heilbrigðum lífsstíl ef ALLT var í boði, ef ég mátti fá mér hvað sem er?

Jú ég þurfti að breyta því hvernig ég hugsaði um hlutina, ég þurfti að breyta orðunum sem ég sagði sjálfri mér frá því að segja „ég þarf að velja hollari kosti“ yfir í „ég VEL að velja hollari kosti“ Bara þessi litla breyting gerir það að verkum að ég tek stjórnina. Ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig af því að ég VIL það, en ekki vegna þess að ég ÞARF þess. Hvernig ert þú að hugsa um heilbrigðan lífsstíl? Er þetta eitthvað sem þig langar að gera sjálf, eða horfir þú á þetta með neikvæðu sjónarhorni og eitthvað sem þér þykir erfitt? 

6. Ég hætti að einblína á útlitið

Þetta er risastórt atriði í þessu ferðalagi! Alltof margir einblína aðeins á vigtina og bíða eftir að sjá töluna færast niður, síðan þegar það gerist ekki, verða þau svekkt og gefast upp! Þetta sé ég aftur og aftur, og ef þú ert bara að sinna heilsunni til þess að komast í ákveðna fatastærð er hætta á því að þú verðir föst áfram í vítahring megrunarkúra og átaka. Því útlitið er ekki nógu mikil hvatning til þess að komast í gegnum erfiðu dagana, dagana þar sem við nennum ekki eða erum ekki í stuði. Við þurfum að hafa eitthvað meira sem hvetur okkur áfram, eitthvað sem snertir okkur ennþá dýpra. 

Hvað langar þig að áorka? Viltu vera fyrirmynd fyrir börnin þín? Viltu vera innblástur fyrir fólkið í kringum þig? Langar þig að upplifa meira sjálfstraust til þess að þora að fara eftir draumunum þínum? Viltu upplifa meiri orku til þess að geta leikið við börnun þín eftir skólann?

Langar þig að upplifa meiri gleði, stolt, innri styrk, sterkari líkama? 

Hvað er það fyrir þig sem skiptir þig meira máli en fatastærðin?

Kafaðu dýpra og finndu neistann innri með þér, sem gefur þér kraftinn til að halda áfram. 

Við hvað tengir þú ? Er eitthvað atriði sem þú þarf að einblína á núna? 

Ef þig langar til að vinna með líkama og sál þá hvet ég þig til þess að kynna þér Sterkari á 16 þjálfun þar sem við köfum ofaní öll þessi atriði. Þetta er ekki þessi hefðbundna fjarþjálfun, heldur er huganum boðið með, við skoðum mataræðið á heildrænan hátt og þú færð kraftmiklar heimaæfingar.

 

Þangað til næst...

Heilsukveðja,

Sara Barðdal

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi

stofnandi www.hiitfit.is