Fara í efni

BRJÓSTAGJÖF

BRJÓSTAGJÖF

Brjóstagjöf fyrstu vikurnar

Í þessu hraða samfélagi, sem við búum í, er tengslamyndun milli móður og barns, sem hefst strax við fæðingu, mjög mikilvæg. Brjóstagjöfin er ein sú besta gjöf, sem okkur hefur verið gefin og er óviðjafnanleg aðferð til samskipta milli móður og barns. Þegar litla barnið leggur höfuð sitt að brjósti móður sinnar og mjólkin hennar hlýjar því að innan kynnist barnið sérstakri nálægð við móður sína. Með því öðlast það traustan grunn fyrir lífið. Þessi nána tengslamyndun býður móður og barni upp á einstakt tækifæri til þess að fræðast um hvort annað og sig sjálf saman. Þannig eiga þau auðveldara með að tengjast.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er tími, sem ekki kemur aftur. Þess vegna er nauðsynlegt að vera þolinmóður og gefa sér þann tíma sem þarf til að brjóstagjöfin nái að fara vel af stað. Reynslan af fyrstu brjóstagjöf virðist vera sá grundvöllur sem konan byggir á með næstu börn sín.

Kostir brjóstagjafar

Fræðimenn og heilbrigðisfagfólk eru sammála um að kostir þess að hafa barn á brjósti séu ótvíræðir. Brjóstamjólkin er fullkomin næring fyrstu sex til tíu mánuðina og hún styrkir ónæmisvarnir nýburans. Þær varnir, sem móðirin hefur fær barnið sjálfkrafa með móðurmjólkinni og það er mjög mikilvægt fyrir slímhúðir þess og yfirborðsvernd. Móðurmjólkin er langbesta og fullkomnasta næringin fyrir nýbura enda er hún ætluð þeim frá náttúrunnar hendi. Það er líka ódýrara að hafa barn á brjósti en á pela. Móðurmjólkin er alltaf til staðar, rétt samsett fyrir barnið, ekkert umstang er við að blanda eða hita pela því að hún er alltaf mátulega volg, án sýkla, auðmeltanleg og löguð að hinum viðkvæmu og óþroskuðu meltingarfærum barnsins. Næringargildið er sniðið að þroska barnsins hverju sinni og segja má að nýburinn fái sína fyrstu bólusetningu með broddinum, sem er fullur af lífsnauðsynlegum efnum, sem auka varnir barnsins gegn sýkingum, meðal annars í meltingar- og öndunafærum.

Með brjóstagjöfinni verður tilfinningasamband móður og barns nánara. Brjóstagjöf strax eftir fæðingu hefur einnig góð áhrif á samdrátt í legi móður og minnkar þannig líkurnar á blæðingu. Þegar barnið sýgur brjóstið örvast heiladingullinn og framleiðir samdráttarhormónið oxytocin, sem hvetur til samdráttar í legvöðvanum. Það getur verið sárt fyrstu dagana vegna sterkra samdrátta í leginu en hefur góð áhrif í þá veru að styrkja legvöðvana og draga úr blæðingu þannig að legið kemst í samt lag aftur. Upplýsingar um brjóstagjöf eru því þýðingarmiklar á meðgöngu, konan þarf mikinn stuðning strax eftir fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Mikilvægt er að ljósmóðirin styðji ákvörðun móðurinnar um brjóstagjöfina og nauðsynlegt er fyrir móðurina að hafa samband við sína ljósmóður sem fyrst ef vandamál koma upp. Margar konur fara snemma heim og fá heimaþjónustu frá ljósmóður. Einnig hefur á síðustu árum brjóstagjafaráðgjöfum fjölgað sem hægt er að hafa samband t.d. bæði á kvennadeild LSH í Reykjavík og á Akureyri.

Umhverfið og áhrif þess á nýburann eftir fæðingu

Mikilvægt samband þróast milli móður og barns ef barnið fær að liggja á maga móðurinnar eða milli brjósta hennar þannig að húð snerti húð fyrst eftir fæðinguna. Þetta hjálpar einnig til við að halda hita á barninu og róa það. Það skapast jafnvægi á öndun og hjartslætti barnsins að vera í svo náinni snertingu við móður sína. Þetta er mikilvægt þar sem nýfædd börn geta ekki stjórnað hitatapi sínu vegna óþroska í taugastjórnun. Þannig er líkami móðurinnar besti staðurinn til að halda hita á heilbrigðum nýbura. Þegar barninu líður vel og það finnur sig öruggt hjá móður sinni lærir það oftast fljótt hvernig það á að sjúga. Stuttur aðskilnaður móður og barns á fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu getur haft truflandi áhrif á samband móður og barns, fyrstu brjóstagjöfina og lengd brjóstagjafarinnar í heild. Þess vegna er ekki æskilegt að trufla tengslamyndun móður og barn með því að taka barnið úr fangi móður sinnar þegar það er að byrja að skríða í átt að geirvörtunni. Betra er að bíða í 1-2 klukkustundir með hefðbundnar mælingar, baða og klæða barnið, því það getur truflað ósjálfráða hegðun nýburans. Þess í stað er gott að móður og barn að njóti þess að vera saman. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að gefa nýbura og móður góðan tíma til að byrja brjóstagjöfina á farsælan hátt og fjölskyldan eigi þessa mikilvægu stund út af fyrir sig.

Fimmtán mínútum eftir fæðingu er barnið byrjað að sleikja geirvörtuna og sýnir sog- og leitarhreyfingar. Þrjátíu og fjórum mínútum eftir fæðingu setur barnið höndina að munninum og sýnir vel samhæfðar sog- og leitarhreyfingar. Eftir 55 mínútur fer barnið sjálft að sjúga. Ef barnið kemst ekki fljótt á brjóst, t.d. vegna áhrifa verkjalyfja í fæðingunni eða vegna þess að sogað hefur verið úr vitum þess, getur það truflað þessa hegðun barnsins.

Myndbandsupptökur af börnum, sem fara sjálf á brjóst, hafa einnig sýnt að tungustaða þeirra er betri en þeirra barna sem sett eru á brjóst. Sé þess nokkur kostur er því ástæða fyrir ljósmæður og annað heilbrigðisfagfólk að gefa barni allt að klukkutíma til að komast hjálparlaust á brjóst eftir að það hefur verið lagt á efri hluta kviðar eða á brjóstkassa móður sinnar.

Að leggja barnið á brjóst

Til að stuðla að velheppnaðri brjóstagjöf þarf nýbökuð móðir að læra leggja barnið rétt á brjóst. Einnig þarf hún að hafa góða trú á sjálfri sér en fylgni er milli þess sem konan ætlar sér á meðgöngunni varðandi brjóstagjöfina og hvernig hún breytir eftir fæðingu Áður en barnið er lagt á brjóst er gott að móðirin komi sér þægilega fyrir og bíði eftir eða kalli fram leitunarviðbragð hjá barninu. Barnið verður að vera í góðu jafnvægi þegar það er lagt á brjóst. Ef það er grátandi þegar því er boðið brjóstið þá setur það tunguna upp í góminn. Þetta er varnarviðbragð, sem hindrar lokun á barkanum þegar barnið andar. Ef grátandi barn er þvingað á brjóst hindrar það sog- og leitunarviðbragð þess .

Leitarviðbragðið kemur þegar barnið finnur brjóstið strjúkast við kinn sér og byrjar að leita og snýr höfðinu í átt að brjóstinu, galopnar munninn og rekur tunguna út úr sér. Barnið er þá tilbúið til að sjúga og nær að grípa brjóstið án hjálpar.

Mikilvægt er að aðstoða móðurina við fyrstu brjóstagjöfina og sjá til þess að barnið taki brjóstið rétt því að miklu skiptir að móðir og barn njóti þessarar samverustundar sem brjóstagjöfin er. Móðirin getur fundið fyrir gífurlegum þorsta þegar hún gefur brjóst. Hún ætti því alltaf að hafa vatnsglas hjá sér í upphafi gjafar. Til að gera brjóstagjöfina sem ánægjulegasta er gott að leggja áherslu á við móðurina að hún tileinki sér frá upphafi ákveðin vinnubrögð.

Leiðbeiningar

Hér eru leiðbeiningar og atriði sem gott er að hafa í huga þegar barn er lagt á brjóst.

  1. Fá barnið til að opna vel munninn áður en það er lagt á brjóst. Stundum virðist barnið ekki opna munninn nógu vel til að geirvartan komist vel upp í það. Þá má ýta í hökuna með vísifingri þeirrar handar sem miðar brjóstinu upp í barnið. Þannig opnar barnið munninn betur og geirvartan fer vel inn fyrir gómbogann.
  2. Færa barnið að brjósti en ekki brjóst að barni. Þegar barnið galopnar munninn er það dregið þétt að brjóstinu og geirvörtunni stungið djúpt í munn þess. Best er að nota c-takið; styðja með fjórum fingrum undir brjóstið og þumalfingri fyrir ofann vörtubauginn. Tunga barnsins á að liggja undir geirvörtunni.
  3. Með því að móðirin noti c-takið getur hún stýrt vörtunni upp í barnið og hjálpað því að ná vörtubaugnum upp í sig líka. Þetta tak er gott því þá er hægt að bjóða barninu allt brjóstið og það kemst líka betur að brjóstinu. Gott er að styðja við brjóstið með lófanum og láta þumalfingurinn hvíla lauslega ofan á því.
  4. Vísa vörtunni upp í átt að nefi barnsins. Barnið liggur alveg á hliðinni, höfuð þess hvílir vel í olnbogabót móður, magi barnsins snýr að maga móður og nef og munnur barnsins eru í sömu hæð og geirvartan.
  5. Beina neðri vör barnsins að vörtunni og ýta hökunni að brjóstinu þannig að höfuðið sveigist aftur. Barnið á hvorki að þurfa að snúa höfðinu til að ná í geirvörtuna né fetta það aftur. Hvort tveggja hindrar barnið í að kyngja rétt.
  6. Athuga að varir barnsins fletjast út, eru afslappaðar og hvíla þétt við brjóstið. Það verður mikil hreyfing á neðri kjálka barnsins, taktfastar hreyfingar fram og aftur sem barnið gerir með tungunni.
  7. Nauðsynlegt er að kunna að taka barnið af brjóstinu með því að setja fingur í munnvik barnsins milli góma þess þannig að loft komist á milli. Þá sleppir barnið brjóstinu. Sogkraftur barnsins er mikill en með hjálp móðurinnar getur barnið . . . LESA MEIRA 

Af vef ljosmodir.is