Fara í efni

Þess vegna líður okkur öðruvísi um borð í flugvél

Unnið er að nýrri rannsókn þar sem skoðuð eru þau áhrif sem flug í flugvélum geta haft á mannslíkamann.
Þess vegna líður okkur öðruvísi um borð í flugvél

Unnið er að nýrri rannsókn þar sem skoðuð eru þau áhrif sem flug í flugvélum geta haft á mannslíkamann.

Rannsóknin hefur nú þegar leitt í ljós að viðvera í innsigluðu járnröri í yfir tíu kílómetra hæð frá jörðu getur haft furðuleg áhrif á huga okkar.

Skap getur breyst, skynfæri okkar geta brenglast og okkur fer jafnvel að klæja meira en vanalega. 

Þeir sem eru vanir að fljúga reglulega gætu hafa upplifað eða orðið vitni að því að sjá aðra upplifa meiri tilfinningar en áður. Fólk sem vanalega grætur ekki yfir bíómynd á jörðu niðri á það til að tárast yfir furðulegustu bíómyndum, jafnvel teiknimyndum og gamanmyndum þegar það er um borð í flugvél. 
 
BBC greinir frá því að tónlistarmaðurinn Ed Sheeran og sjónvarpsmaðurinn Brian Cox hafa báðir viðurkennt að þeir geti orðið óvenjulega meyrir þegar þeir horfa á bíómyndir um borð í flugi. Niðurstöður könnunar sem gerð var á Gatwick flugvellinum í Lundúnum sýna að 15% karlmanna og 6% kvenna eru líklegri til þess að gráta yfir bíómynd í flugi heldur en heima hjá sér. 
 
Margar kenningar hafa orðið til um það af hverju fólk verður svona tilfinninganæmt í flugi en þar er nefnt meðal annars sú staðreynd að fólk sakni ástvina, séu spennt fyrir ferðalaginu sem það er í eða séu jafnvel með heimþrá.  
 
Nýjustu rannsóknir sýna hins vegar að ástæðan gæti verið allt önnur. Loftþrýstingurinn, rakinn og kælingin í vélinni getur allt haft áhrif á mannslíkamann, sérstaklega þá sem eru veikir fyrir.
 
Súrefnisskortur í vélinni getur haft mikil áhrif á fólk og jafnvel þeir allra heilbrigðustu geta fundið mun á getu sinni til þess að reikna og taka ákvarðanir í háloftunum. Einnig getur súrefnisskorturinn valdið fólki mildum ofsakláða.
 
Einnig getur viðvera fólks í flugvélum gert það að verkum að þau verði auðveldlega þreytt, bragðskyn fólks getur breyst og lyktarskyn dofnað sem er þó talið heppilegt þar sem breyting á loftþrýstingi í flugi getur haft það að verkum að farþegar reki oftar við. 
 
Loftþrýstingurinn hefur einnig áhrif á áfengi í líkamanum og getur leitt til mjög slæmra timburmanna daginn eftir. 
 
Kvíði og stress getur aukist umtalsvert í flugi og getur fólk orðið neikvæðara, óvingjarnlegra og með takmarkaða orku til þess að takast á við vandamál. 
 
Það sem hefur vakið mikla athygli vísindamanna er rannsókn sem enn er í vinnslu og hefur ekki verið birt opinberlega en hún greinir frá því að loftþrýstingurinn getur haft áhrif á starfsemi ónæmiskerfisins.  
Hingað til hefur því verið haldið fram að breytingar á loftslagi vegna ferðalaga á milli landa sé ástæða þess að fólk fái kvef eða flensu en i raun er líklegt að ástæðan sé vegna þess að ónæmiskerfið starfar öðruvísi í flugi en á jörðu niðri.
 
 
Af vef pressan.is