Fara í efni

Býr fíkill inn í okkur öllum?

Býr fíkill inn í okkur öllum?

Ákveðin hegðun, t.d. að drekka áfengi, verður einstaklingnum miklu mikilvægari en áður og um leið mikilvægari en önnur hegðun sem áður skipti máli. Hegðun er haldið áfram þrátt fyrir að hún valdi einstaklingnum skaða.

Skilgreiningin að ofan dregur fram þrennt sem einkennir fíkn. Í fyrsta lagi er áhersla á að fíkn lýsi í grunninn hegðun eða atferli. Oftast er um að ræða neyslu á vímuefnum eins og áfengi en þarf þó ekki að vera, sbr. spilafíkn. Í öðru lagi fær fíknihegðunin forgang yfir aðra hegðun, eins og t.d. að mæta í vinnuna, sinna skóla eða tómstundum. Í þriðja lagi er aflkraftur fíknihegðunarinnar svo sterkur að hann fer að stjórna lífi einstaklingsins og að lokum valda honum skaða. Allir þessir þrír þættir verða að vera til staðar þegar talað er um fíkn.

Þróun fíknar

Þróun fíknar á sér stað í flóknu samspili milli líffræðilegra og sálfélagslegra þátta. Ferlið tekur tíma og er oft alveg ómeðvitað – fæstir leggja af stað með þá stefnu að verða fíklar! Vímuefnin vekja lífeðlisfræðileg viðbrögð/ávinning sem eru til að byrja með eftirsóknarverð fyrir neytendann. Þannig getur t.d. kvíðinn minnkað þegar kannabis er neytt eða verið auðveldara að tala við fólk undir áhrifum áfengis.

Smátt og smátt verður svo einstaklingurinn háður hegðuninni og hún færist yfir á sífellt fleiri þætti lífsins. Svokallaðar kveikjur verða til, þ.e. sífellt fleiri aðstæður valda óstjórnlegri löngun til að taka inn efnið eða framkvæma hegðunina. Einstaklingurinn er skyndilega fastur í vítahring sem hann kemst ekki úr.

Fíkniheilkenni

Fíkniheilkenni er skilgreint sem geðgreining, þ.e. langvarandi sjúkdómur þar sem einstaklingurinn upplifir óstjórnlega löngun í að nálgast og nota efni sem breyta hegðun og hugarástandi hans. Neyslan yfirtekur líf viðkomandi og allt annað situr á hakanum. Hann á erfitt með að minnka eða stöðva neyslu þrátt fyrir augljós skaðleg áhrif. Með stöðugri notkun vímuefnis myndast þol. Neytandinn þarf sífellt meira magn til að viðhalda sömu vímuáhrifum og til að forðast vanlíðan. Þol verður vegna aukins niðurbrots efnanna í lifrinni og því kemst minna magn til heilans en einnig vegna minna næmi og fækkun viðtaka í heila. Heilinn venst á að þurfa vímuefnið til að viðhalda jafnvægi. Þegar neyslu er hætt riðlast þetta jafnvægi og viðkomandi getur fengið fráhvarfseinkenni. Meðal algengra frá- hvarfseinkenna er t.d. hækkaður blóðþrýstingur og púls, velgja, óeirð, kvíði, svefnleysi. Alvarleg fráhvarfseinkenni á borð við ofskynjanir og krampa geta komið þegar neyslu áfengis og róandi lyfja er skyndilega hætt. Það er því mikilvægt að hætta ekki töku áfengis eða róandi lyfja fyrirvaralaust heldur minnka skammtana smám saman og leita aðstoðar fagfólks á sviði fíknisjúkdóma.

Ávani.JPG

Ávani

Mikilvægt er að gera greinarmun á fíkn og ávana. Sterk verkjalyf og viss kvíðastillandi lyf eru dæmi um efni sem geta valdið fíknihegðun. Fæstir notenda þessara lyfja lenda þó í fíkn en við langtímanotkun er ekki óalgengt að þau valdi ávana. Lyfin geta þannig valdið þolmyndum og fráhvarfseinkennum þegar inntöku er hætt. Ólíkt fíkniheilkenninu, þá fylgir þessu ekki stjórnleysi eða vanræksla annarra þátta í lífi viðkomandi. Þó getur ávani á verkjalyfjum þróast út í fíkn, t.d. þegar einstaklingur fer að kaupa verkjalyf á svörtum markaði eða ganga á milli lækna til að fá meira af lyfjum.

Eins og áður sagði er fíkn flókið samspil milli líffræðilegra og sálfélagslegra þátta sem tekur tíma að þróast. Einstaklingar fá líkamleg og andleg fráhvarfseinkenni og þolmyndun gagnvart vímuefninu. Í orðræðu þjóðfélagsins er orðið fíkn orðið algengara í daglegu tali: vímuefnafíkn, sjónvarpsfíkill, klámfíkn, tölvufíkn, spilafíkn, matarfíkn og fleira og fleira. Engum myndi detta í hug að segja við ungling sem vill eingöngu læra allan daginn og vanrækir annað að hann væri haldinn námsfíkn. Hvað er þá að vera fíkill? Er það þegar langtímaárangur ákveð- innar hegðunar er metinn neikvæður frá sjónarhóli samfélags en annars er það í lagi? Þegar öllu er á botninn hvolft er hófsemi hinn gullni meðalvegur.

Birt með góðfúslegu leyfi SÍBS