Fara í efni

Mæðgurnar.is og Heilsutorg.is komin í samstarf og við fögnum því

Við mæðgurnar höfum báðar brennandi áhuga á grænmeti og matargerð, umhverfisvernd og lífrænni matjurtarækt. Við eigum það einnig sameiginlegt að hafa frá unga aldri haft áhuga á listum og lögðum báðar stund á listnám; sú eldri lærði myndlist, textíl og hannyrðir, sú yngri tónlist. Saman finnst okkur við hafa fundið sköpunargleðinni og hugsjónum okkar góðan farveg í eldhúsinu.
Hér eru þær Solla og Hildur
Hér eru þær Solla og Hildur

Við mæðgurnar höfum báðar brennandi áhuga á grænmeti og matargerð, umhverfisvernd og lífrænni matjurtarækt.

Við eigum það einnig sameiginlegt að hafa frá unga aldri haft áhuga á listum og lögðum báðar stund á listnám; sú eldri lærði myndlist, textíl og hannyrðir, sú yngri tónlist.

Saman finnst okkur við hafa fundið sköpunargleðinni og hugsjónum okkar góðan farveg í eldhúsinu.

Við bjuggum lengi hjá foreldrum Sólveigar, Afa Eiríki og Ömmu Hildi. Þau hafa stundað lífræna matjurtarækt til heimilisins í hartnær 60 ár og ólumst við því báðar upp við fallegar hugsjónir og fullt af fersku grænmeti. Þau eru fyrirmyndirnar okkar og ástæðan fyrir því að lífræn ræktun er sú aðferð sem okkur þykir eðlilegust við ræktun matvæla, bæði fyrir okkur sjálf og jörðina okkar. 

Samverustundum okkar mæðgna snarfjölgaði fyrir nokkrum árum þegar ömmubörn komu til sögunnar. Við breyttumst úr móður og dóttur í ömmu og mömmu með litla gullmola sem við viljum allt fyrir gera, meðal annars hollan og góðan mat. Við höfum báðar mjög gaman af því að framreiða fallegan mat, leikum okkur gjarnan með uppstillingar og elskum fallegar matarmyndir. Nú þegar leiðir okkar liggja æ oftar saman í eldhúsinu fannst okkur tilvalið að deila afrakstrinum með ykkur sem hafið svipuð áhugamál. Matarblogg er í dag eiginlega orðið sérstakt listform þar sem fallegar myndir, góðar uppskriftir og frásagnalist fléttast saman. Von okkar er að veita lesendum innblástur til aukinnar grænmetisnotkunar og tilraunagleði í eldhúsinu.

Sagan okkar

 

Sólveig

Í Kaupmannahöfn, árið 1980 þegar Hildur mín var nokkurra mánaða gömul, fór ég til læknis vegna frjókorna ofnæmis sem var einstaklega slæmt þetta vor. Ég átti að fá sterkar ofnæmissprautur og varð ég annað hvort að hætta með Hildi á brjósti eða fresta sprautunni, sem ég kaus að gera. Niðurdregin hélt ég heimleiðis. Allt í einu rek ég augun í litla heilsubúð og þar sem Amma Solla hafði oft bruggað fyrir okkur jurtaseyði, kom upp í kollinn á mér að kannski ættu þau einhver ráð. Þarna tók á móti mér náttúrulæknir sem lofaði mér bót meina minna ef ég breytti um mataræði. Hann listaði upp hvað væri gott fyrir mig að borða og hvað ég ætti að forðast. Flest á góða listanum var mér mjög framandi og þegar hann sá vonleysið í andlitinu á mér hughreysti hann mig með því að skrá mig á matreiðslunámskeið hjá sér. Þar lærði ég að elda úr þessu "framandi" hráefni. Ég breytti um mataræði og í stuttu máli fékk ég nýtt líf.  Ég veit svo sem ekki hver læknisfræðilega eða vísindalega skýringin á því er, ég fann bara strax að þetta var það eina rétta fyrir mig og ég hef ekki litið til baka síðan. Uppfrá þessum degi fyrir 34 árum síðan hefur græn matargerð verið stór ástríða í mínu lífi. Fyrir tveim áratugum síðan lærði ég svo að matreiða með aðferðum hráfæðis, það lá vel fyrir mér og árin 2011 og 2012 var ég kosin besti hráfæðikokkur heims af hráfæðiheiminum. Reynslan af hráfæðinu hefur litað mína matargerð mikið, þrátt fyrir að ég hafi alltaf haldið áfram að matreiða eldaðan mat líka. Mér líður hvergi betur en í eldhúsinu og mitt stærsta "kikk" er að elda holla og bragðgóða máltíð sem samtímis kætir bragðlaukana og kroppinn. Ég elska að elda fyrir aðra og er svo heppin að hafa fengið ríkulega útrás fyrir þá ástríðu, hef stofnað tvo veitingastaði og haldið mikið af matreiðslunámskeiðum og fyrirlestrum bæði hérlendis og erlendis. Uppáhaldið mitt er þó alltaf að útbúa góðan mat fyrir fjölskylduna mína. 

Hildur

Ég ólst að mestu leyti upp á jurtafæði, án þess þó að vera sérstaklega meðvituð um að ég væri grænmetisæta, það var einhvern veginn ekki jafn sjálfsagt á þeim tíma og það er í dag. Ég uppgötvaði seinna að minn skilningur á hugtakinu "mömmu matur" er aðeins annar en flestir Íslendingar leggja í þau orð. Ég varð auðvitað smám saman vör við það að heimilismatur hjá vinum mínum var öðruvísi en heima hjá mér, en ég vissi samt ekki fyrr en löngu síðar að við værum kannski svolítið "sérstök" í annarra augum. Afi og amma ræktuðu (og gera enn) ótrúlega mikið grænmeti ofan í okkur og amma sýrði stóran hluta af uppskerunni til að eiga fyrir veturinn. Svo var súrt með öllum mat. Mamma var alltaf að bauka eitthvað spennandi, stundum var eldhúsinu breytt í gróðurhús, undirlagt af sólblómagrænlingum, hveitigrasi og salatplöntum í örum vexti, krukkur með baunaspírum og kornsafa voru allstaðar þar sem laust pláss fannst, tófúverksmiðja í kjallaranum, súrdeigskrukkur í stofunni og möndluostur í síun í glugganum. Eftir skóla fékk ég yfirleitt misósúpu með þara eða grænfjólubláa orkusúpu (svipuð og grænn smoothie) sem vinum mínum þótti í meira lagi dularfull. Í mínum augum var þó þeirra heimilismatur alveg jafn framandi. Ég ætla alls ekki að halda því fram að okkar venjur hafi verið betri en annarra, en þær voru óneitanlega öðruvísi. Í dag er tíðarandinn annar og við erum ekki alveg jafn "spes" lengur. 
Nú er ég sjálf orðin móðir og þeim tímamótum fylgir oft aukinn áhugi á búlegheitum. Margir fara ósjálfrátt að leita í fjölskylduhefðir ásamt því að skapa sínar eigin. Öll mín matargerð er undir miklum áhrifum frá mömmu, auk afa og ömmu, en undanfarin ár hef ég haft mikla þörf fyrir að leita í ræturnar og læra allt sem ég get af fjölskyldunni minni. Það er eitthvað svo heillandi við uppsafnaða visku og færni sem fær að ganga áfram frá kynslóð til kynslóðar, frá formæðrum og feðrum til afkomenda. Ákveðið afturhvarf til fortíðar hefur verið svolítið áberandi undanfarin ár; súrdeigsbrauð, matjurtarækt til heimilisins, sýrt grænmeti og margt fleira í þeim dúr er vinsælt um þessar mundir. Ég hef því á tilfinningunni að uppskriftirnar okkar eigi erindi við fleiri en fjölskylduna. 
Ég hef lengi haft áhuga á næringu og heilbrigðum lífsstíl, í febrúar 2013 lauk ég B.Sc gráðu í næringarfræði frá HÍ.

Fróðleikur um þær mæðgur af vef þeirra maedgurnar.is