Fara í efni

Hundasúrupestó og sætkartöflu pizza - Mæðgurnar

Börnum finnst oft gaman að tína upp í sig hundasúrulauf því að bragðið er skemmtilegt og kemur á óvart.
Hundasúrupestó og sætkartöflu pizza - Mæðgurnar

Eitt af því skemmtilegasta sem við gerum á sumrin er að leita uppi villtar jurtir sem hægt er að nýta til matar, eða brugga úr te og seiði.

Um daginn útbjuggum við kaffi úr fíflarótum, og nú er komið að því að nýta hundasúrurnar.

 

Hundasúrur vaxa víða villtar í Evrópu, en finnast líka sumstaðar í Asíu og Ameríku. Börnum finnst oft gaman að tína upp í sig hundasúrulauf því að bragðið er skemmtilegt og kemur á óvart. Ekki grænt bragð eins og maður myndi búast við af útlitinu sem minnir á spínat, heldur frísklegt súrt bragð. Hundasúrur eru líka ótrúlega skemmtilegar í matargerð og fást stundum á grænmetismörkuðum erlendis sem árstíðabundið sælkerahráefni. Þær má nota á sama hátt og kryddjurtir, eða í bland við annað grænt eins og spínat. Það er gaman að bæta hundasúrum út í salöt, pottrétti og súpur, en við höfum oftast notað þær í pestó. 

Það er einhver sérstök og heillandi orka sem fæst við að safna villtum jurtum og nýta til ætis. Jafnvel þegar þær finnast í túninu heima. Og í rauninni er ótrúlega gaman að sjá svona ofur venjulega jurt nýtta sem sérstakt sælkerahráefni annarsstaðar í heiminum. Í þetta sinn fundum við hundasúrur í túninu fyrir framan sumarbústaðinn og gerðum úr þeim ljúffengt pestó. Við bökuðum síðan pizzu með sætum kartöflum og notuðum hundasúrupestóið sem álegg eftir að pizzan var komin úr ofninum.

Uppskriftin


Hundasúrupestó

100g lífrænar kasjúhnetur
2 vænar lúkur af hundasúrum
6-8 sólþurrkaðir tómatar í ólífuolíu
1 msk sítrónusafi
1 tsk sjávarsalt, flögur
1 hvítlauksrif
1 - 1 ½ dl kaldpressuð lífræn jómfrúarólífuolía
- Ristið kasjúhneturnar og maukið síðan allt saman í matvinnsluvél 
 


Hvítlauks og rósmarinolía

1 dl kaldpressuð lífræn jómfrúarólífuolía
1 hvítlauksrif
nálar af 1 rósmarinstöngli
nokkur saltkorn
- blandið í blandara
 


Pizzan

Deigið:
125 g gróft spelt (2 ¼ dl)
¼ tsk salt
1 msk jómfrúarólífuolía
60 ml heitt vatn
 
- hnoðið saman og fletjið út.
 

Áleggið:
1 lítil sæt kartafla
hvítlauksolían
rósmarínstönglar
heil hvítlauksrif
uppáhalds osturinn (t.d. vegan rjómaostur eða geitarostur)
 
- Skerið sætu kartöfluna í örþunnar sneiðar og raðið ofan á pítsabotninn. Penslið með hvítlauksolíunni og setjið nokkra rósmarinstöngla og heil hvítlauksrif ofan á ásamt uppáhalds rjómaostinum. Setjið inn í ofn og bakið við 175°C í u.þ.b. 10 mín. Setjið hundasúrupestóið ofan á pizzuna þegar hún er komin úr ofninum.