Fara í efni

Hinn fullkomni vegan ís

Ef þú elskar ís þá er þessi póstur fyrir þig! Sjálf hef ég mikla ástríðu fyrir ís og ísgerð og hef leitað lengi að hinum fullkomna vegan ís (sem þyrfti auðvitað að hafa sykurmagnið í lágmarki) og í gegnum árin hef ég keypt mér þó nokkrar uppskriftabækur og gert ýmsar tilraunir. Svo ekki sé minnst á heimferð eina frá USA þar sem ég dröslaðist heim með heila ísvél í útsprunginni handfarangurstösku. Eiginmaðurinn gleymir þeirri ferð ekki og segir að ég hafi komið henni heim á þrjóskunni þrátt fyrir algjört plássleysi.
Hinn fullkomni vegan ís

Ef þú elskar ís þá er þessi póstur fyrir þig! 

Sjálf hef ég mikla ástríðu fyrir ís og ísgerð og hef leitað lengi að hinum fullkomna vegan ís (sem þyrfti auðvitað að hafa sykurmagnið í lágmarki) og í gegnum árin hef ég keypt mér þó nokkrar uppskriftabækur og gert ýmsar tilraunir. Svo ekki sé minnst á heimferð eina frá USA þar sem ég dröslaðist heim með heila ísvél í útsprunginni handfarangurstösku. Eiginmaðurinn gleymir þeirri ferð ekki og segir að ég hafi komið henni heim á þrjóskunni þrátt fyrir algjört plássleysi.

Þetta var ekki síðasta ísvélin sem ég keypti mér get ég sagt þér… því þessi brann með látum þegar ég asnaðist til að stinga henni í samband án straumbreytis eftir aðeins nokkurra mánaða notkun. Blessuð sé minning hennar..

Seinni ísvélin kom svo með vinafólki að utan ári seinna og stendur hún enn hnarreist í eldhúsinu. Ég hef ekki klikkað á straumbreytinum aftur og ætla mér ekki að gera það! 

Til að skilja ís-örvæntingu mína á þessum tíma verður þú að átta þig á að þetta var áður en Joylato ísbúðin opnaði hérlendis, en ef þú hefur ekki farið þangað mæli ég með að gera það sem allra fyrst, enda bjóða þau uppá vegan ís úr kókosmjólk og hrásykri og er sá alveg himneskur.

En aftur að vegan ísnum og uppskrift dagsins...

Eftir ótal tilraunir deili ég með ykkur, að mínu mati, hinum fullkomna vegan ís. Ég nota kókosmjólk í hann og hlynsíróp, sem gefur milt bragð og fer mun betur í meltinguna en t.d. agave. Fyrir mitt leyti er agave algjört eitur og ég fæ magaverk undir eins og sama gildir um gervisætur.

Sem bindiefni notum við örvarótina, og kýs ég hana fremur xanthan gum, þar sem bragðið er milt og maður finnur ekkert fyrir því.

Gaman er að velja sósu/ídýfu og “kurl” yfir ísinn sinn eins og gert er í ísbúðum hérlendis. Deili ég því nokkrum hugmyndum að hollari útfærslum.

Ísinn geymist auðvitað vel í frysti þó hann sé bestur ferskur. Fullkominn með ídýfu og kurli og góðum félagskap eða huggulegri jólamynd! 

DSC_9843

Hinn fullkomni vegan ís 

Ísinn
1 kæld kókosdós (sjá athugasemdir)
1/4 bolli hlynsíróp
1/2 tsk örvarrót (arrowroot) eða 1 tsk maísterkja (sjá athugasemdir)
1 tsk vanilludropar
1/4 tsk vanilluduft (sjá athugasemdir)

Súkkulaðisósa, heit eða köld
2 msk kakóduft
4 msk kókospálmanektar/hlynsíróp
2-4 dropar stevia
2 msk kókosolía, brædd í vatnsbaði og 1 msk vatn
salt eftir smekk

Gott með ísnum:

 • Myntusúkkulaði t.d. frá Green&Black’s organic og hindber
 • Lakkrísduft
 • Salt karamella. Notið þá karamellu sósu frá snickers köku í uppskriftabók Lifðu til fulls og bætið við með súkkulaðispænum og söxuðum möndlum. Þetta er hreint lostæti 
 • Klassíska heita súkkulaðisósu og jarðaber
 • Súkkulaðisósa og mórber
 • Hvítt súkkulaði og rabbari

Kvöldið áður: kælið kókosmjólkina og ef þið eigið ísvél kælið þá ílátið

1. Hrærið öll innihaldsefnin saman í blandara og vinnið þar til silkimjúkt. Smakkið til og bætið meiri vanillu við ef þið viljið meira vanillubragð en hlynsíróp ef þið viljið ísinn sætari.

2. Ef þið notið ísvél má setja ísblönduna í ísvélina samkvæmt leiðbeiningum vélarinnar og láta vinna í kringum 20 mín. Þegar ísinn er klár er hann settur í stál frystibox eins og brauðform. 

3. Takið ísinn út og leyfið að standa við stofuhita í 5-10 mín áður en þið berið hann fram.

4. Ef þið eigið ekki ísvél má setja ísinn í stálílát (sjá athugasemdir) og frysta. Fyrir bestu niðurstöður og rjómkenndan ís má taka ísinn úr frysti og hræra í honum í forminu og setja aftur í frysti. Þetta er gert á klukkustundarfresti næstu 4-6 tíma. Þetta hleypir lofti að ísnum sem hjálpar til við að gera hann rjómkenndan.

5. Berið fram eins og ykkur þykir best og leyfið hugmyndafluginu að ráða. Til að gera súkkulaðisósuna setjið þá hráefnin í blandara og vinnið á lágri stillingu þar til silkimjúkt. Bragðið og bætið við sætu eftir þörfum. Hitið upp í potti eða notið sem kalda sósu.

Athugasemdir vegna ísgerðar:

 • Mér finnst gott að nota kókosmjólk frá Coop þar sem hún er alltaf silkimjúk. Kókosrjómi virkar einnig vel.
 • Eftir smá rannsókn og prófun komst ég að því að besta ílátið að nota til að frysta ísinn eru stálílát og hef ég notað gamalt brauðform sem hefur dugað vel. Plast og glerílát virka illa og hafa áhrif á hvernig áferðin verður á ísnum.
 • Ég nota þessa ísvél hér sem ég keypti frá USA og nota straumbreytir sem kostaði álíka mikið og ísvélin.
 • Örvarótin (arrowroot) fæst í versluninni Bændur í bænum á Grensásvegi. Mér þykir örvarótin mikilvæg til að halda ísnum saman og þykkja. Einnig má nota maíssterkju sem fæst í Bónus og Nettó sem dæmi.
 • Í staðinn fyrir vanilluduftið má nota meira af vanilludropum en vanilluduftið gefur gott bragð og litlar svartar doppur í ísinn sem bættir útlitið á ísnum.


Ég vona virkilega að uppskriftin komi að góðum notum og óska ykkur gleðilegrar hátíðar! 

Ef þið viljið fleiri girnilegar hátíðaruppskriftir þá hef ég framlengt tilboðinu á ,,Orka og vellíðan yfir jólin" hátíðarpakkanum og gildir tilboðið í örfáa daga í viðbót. Smellið hér til að sjá framlengt tilboð.

Endilega deilið á samfélagsmiðlum!

Heilsa og hamingja

jmsignature