Fara í efni

Uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar frá Eldhúsperlum

Ég lofa því að það er alveg þess virði að hafa dregið fram grillið þegar maður finnur ljúft grillbragðið af réttinum.
Uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar frá Eldhúsperlum

Þið verðið að prófa þennan rétt, ef þið viljið ekki grilla hann er vel hægt að stinga honum inn í vel heitan ofn eða undir grillið í ofninum.

Það er samt alveg hægt að grilla réttinn í hvaða veðri sem er þar sem maður þarf ekkert að standa við grillið og snúa og vesenast eitthvað.

Ég lofa því að það er alveg þess virði að hafa dregið fram grillið þegar maður finnur ljúft grillbragðið af réttinum.

 

Ríkisfiskur (Fyrir 2-3):

Ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram með grænmeti, uppskriftin sem ég gef hér er grunnur og um að gera að leika sér. Það er líka gott að nota t.d paprikusneiðar, chilli, engifer, fennel og svo mætti lengi telja. 

  • 600 grömm ýsuflök, roðlaus og beinlaus
  • 2 laukar, skornir í sneiðar
  • 1 sítróna
  • 3-4 vænar lúkur ferskt spínat
  • 1 askja piccolo eða kirsuberjatómatar
  • 1 lítil krukka fetaostur með kryddolíu
  • Sítrónupipar
  • Ólífuolía
  • 1/2 dl vatn
  • Spírur til skrauts

Aðferð: Leggið ýsuflökin á olíuborinn stálbakka, álbakka eða þykkan “heavy duty“ álpappír sem þolir grillun. Ef þið notið álpappír, brjótið þá upp á kantana og búið til einskonar bakka. Kryddið flökin vel með sítrónupipar báðu megin. Skerið sítrónuna í sneiðar og leggið yfir flökin.Dreifið lauknum svo yfir, því næst spínatinu ásamt tómötunum og hellið fetaostinum ásamt mest allri olíunni úr krukkunni yfir.

Kryddið yfir allt með sítrónupipar og hellið 1/2 dl af vatni yfir. Grillið á sjóðandi heitu grilli í 10-15 mínútur eða bakið í ofni við 220 gráður þar til tómatarnir eru heitir í gegn, fiskurinn eldaður og osturinn aðeins farinn að bráðna. 

Dreifið spírum yfir og berið fram strax. 

Ég mæli sérstaklega með þessum spírum frá Ecospíra. Það er hægt að gerast áskrifandi og fá sendan vikulega pakka fullan af ferskum og gómsætum spírum.

Uppskrift af vef eldhusperlur.com