Fara í efni

Sjúklega góður silungur, lax eða bleikja

Sjúklega góður silungur, lax eða bleikja

Nú ætlum við að skella okkur í ofnbakaðan, nú eða grillaðan, silung með heimagerðu mangó chutney. Chutney þarf að sjóða í 30-40 mínútur, gott að gera það í lausa tímanum, en það er mjög einfalt og er svona biðtími.

Lax er mjög vinsæll en oft nota ég bleikju eða silung í sömu uppskriftir. Mér finnst mildara bragð oft af bleikju og silung heldur en af laxi og alls ekki síðra.

Ég skoðaði töflu frá Matís og miðað við hana eru þetta mjög svipaðir fiskar í hollustu, nánast sama fita og prótein magn á hver 100 grömm.

 

 

 


Ofnbakaður silungur með heimagerðu mangó chutney og hnetu mixi

 • 500 gr. silungur (flak)
 • Mangó chutney til að þekja flakið
 • Hnetu-mix 

Setjið álpappír í ofnskúffu og silunginn ofan á. Brjótið álpappírinn upp að flakinu svo mangó chutneyið renni ekki út um allt. Hellið Mangó Chutney yfir, saxið uppáhalds hnetu-mixið og dreifið yfir mangó chutney-ið.
Bakið í ofni við 200°C og fylgist vel með elduninni. Tíminn fer bæði eftir ofnum og þykkt flaksins, til dæmis þarf laxinn lengri tíma heldur en silungurinn þar sem hann er í flestum tilfellum mun þykkri.  
Í staðinn fyrir að baka silunginn í ofni má að sjálfsögðu skella honum á grillið.

Mér finnst gaman að búa til allt frá grunni, þá veit ég nákvæmlega hvað ég er að borða og bjóða uppá. Það er vel þess virði að útbúa mangó chutney. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir héðan og þaðan og breytti og bætti, þessi útkoma var frábær - mæli með!

Heimagert mangó chutney

 • 1 rauðlaukur
 • 2-3 msk góð matarolía
 • 1 vel þroskað stórt mangó
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk cumin
 • 2 tsk krydd jurta blanda
 • 1 msk rifið engifer eða 1 tsk engifer krydd
 • Cyan pipar, eftir smekk
 • 1 hvítlauksrif
 • 1/2 b sykur
 • 1/3 b hvítvín (ekkert mál að breyta í edik ef vill)
 • 1/2 b vatn
 • 1 tsk salt

Skerið rauðlaukinn og léttsteikið í olíunni. Skerið mangóið frekar smátt og bætið útí pottinn ásamt kryddinu, hvítvíninu og vatninu. Látið sjóða í 30-40 mín. Gott að látið kólna aðeins, setja í glerkrukkur og loka strax. Geymist í kæli í nokkra daga.

Þetta sló algjörlega í mark í kvöldmatnum hjá okkur í vikunni - verði ykkur að góðu

Bergþóra Steinunn