Fara í efni

Grænmeti og ídýfur frá mæðgunum

Það er víst ekkert leyndarmál að við mæðgur erum sjúkar í grænmeti. En við gerum okkur grein fyrir því að ekki eru allir jafn forfallnir grænmetisaðdáendur og við. Það getur til dæmis verið svolítil kúnst að fá sum börn til að líta við grænmeti og (suma fullorðna líka).
Grænmeti og ídýfur frá mæðgunum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er víst ekkert leyndarmál að við mæðgur erum sjúkar í grænmeti. En við gerum okkur grein fyrir því að ekki eru allir jafn forfallnir grænmetisaðdáendur og við.

Það getur til dæmis verið svolítil kúnst að fá sum börn til að líta við grænmeti og (suma fullorðna líka). 

Smáfólkið í okkar fjölskyldu er mjög hrifið af fallega skornu grænmeti, það er eiginlega alveg lygilegt hversu mikil aukning er á grænmetisneyslunni þegar við tökum okkur tíma og leikum okkur svolítið með grænmetið. Við skerum stundum stórt grænmeti (eins og rófur) í þunnar sneiðar með mandólíni eða mjög beittum hníf og notum svo piparkökumót til þess að skera út hjörtu, blóm og allskyns fígúrur. Þetta finnst börnunum mjög skemmtilegt, og gamla hugmyndin um að ekki megi leika sér með matinn finnst okkur ekki eiga við hér. Þegar við leyfum börnunum að leika sér með þetta fína grænmeti er alveg ótrúlegt hvað hverfur mikið ofan í þau í leiðinni. Flest grænmeti er hægt að skera á skemmtilegan hátt, við höfum mest notað rófur, rauðrófur, röndóttar rófur, spergilkál, gulrætur, blómkál, paprikur, gúrkur og radísur. Ykkur dettur eflaust fleira í hug. Svo er gott að muna að það tekur suma lengri tíma en aðra að taka grænmetistegundir í sátt, sagt er að það geti tekið bragðlaukana 8 eða fleiri skipti þar til þeir samþykkja nýtt bragð!! Þannig að þolinmæði og afslappað andrúmsloft eru lykilatriði hér...

 

Nýlega útbjuggum við svolitla veislu, fullt fullt af fallegu grænmeti og þrjár góðar ídýfur. Ídýfurnar slógu í gegn hjá fullorðna fólkinu, börnin voru spenntari fyrir grænmetinu!

 

Uppskriftirnar

Avókadódýfa 

2 avókadó, afhýdd og skorin í bita
2 msk tahini 
3/4 dl sítrónusafi 
2 msk ferskur kóríander eða annað grænt krydd 
1 tsk hvítlauksduft 
1/2 tsk sjávarsaltflögur 
1 daðla smátt skorin

  1. Setjið allt í blandara og maukið  
  2. Bragðið til með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar

 

Spicy kasjúhnetudýfa

4 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst 
2 dl vatn 
6 döðlur 
4 msk sítrónusafi 
2-3 msk sambal oelek eða annað chilli mauk 
2 hvítlauksrif 
2 tsk laukduft 
1/2 tsk sjávarsaltflögur 
nýmalaður svartur pipar

  1. Hellið íbleytivatninu af kasjúhnetunum áður en þær eru settar í blandara ásamt restinni af uppskriftinni.
  2. Blandið þar til alveg kekklaust.

 

Rauðrófudýfa

Fyrir rauðrófurnar:

1 kg rauðrófur, afhýddar og skornar í bita 
2 tsk fennelfræ
1/2 tsk sjávarsalt 
2 msk vatn
1 msk balsamedik

Fyrir dýfuna:

1 búnt ferskur kóríander 
2 msk jómfrúar ólífuolía 
1 msk sítrónusafi 
2 -3 hvítlauksrif 
1 tsk cuminduft 
1 tsk malaður kóríander

  1. Setjið rauðrófubitana á bökunarplötu og kryddið með fennelfræjum, salti, balsamediki og hellið vatninu út á.
  2. Bakið í ofni í 20-25 mín við 190°C og kælið svo.
  3. Setjið bakaðar rauðrófurnar ásamt restinni af uppskriftinni í matvinnsluvél og maukið saman.

Uppskrift af vef maedgurnar.is